Tuesday 26 June 2007

Miðjarðarhafsnautahakksbræðingur með steiktum hrísgrjónarétt

Hugmyndin af þessum rétt er kominn frá móður minni. Fyrir löngu síðan eldaði hún nautahakksrétt þar sem hakkið var ásamt einhverjum kryddjurtum og spínati steikt á pönnu og svo klárað inn í ofni með örlitlum osti ofan á. Þessi réttur var í miklu uppáhaldi hjá okkur á heimilinu og var hann eldaður ansi oft. Það er komið langt síðan að hún eldaði þennan rétt síðast og þegar ég var að spyrja hana um hann, þá kemur á daginn að hún er búin að týna uppskriftinni. Alger bömmer - því þetta var alveg frábær réttur.

Eins og ég hef greint frá hér áður þá er ég að safna uppskriftum með nautahakki. Maður er alltaf að elda svona mat og manni hættir gjarna til að elda það sama aftur og aftur. Þannig að ég hef sett mér það markmið (og mörg önnur reyndar - það væri hálfdapurlegt ef þetta væri mitt eina markmið) að vera með að minnsta kosti 20 frábærar nautahakksuppskriftir. Það helgast af því að ég á alltaf heilmikið af nautahakki. Þessi sem á eftir kemur - fer í bækurnar!

Eins og ég nefndi í upphafi þá er þessi uppskrift elduð eftir minni og reynt að enda einhversstaðar á líkum endapúnti og móðir mín gerði. Hún gat sagt mér að í réttinum var nautahakk, spínat og smá ostur. Hráefnið, sem notað var, kann því að vera kannski hálfkjánalegur sambræðingur en hvað um það þegar niðurstaðan er góð. Veit samt ekki alveg hvers vegna rétturinn fær þetta nafn - kannski er þetta svona Ítalía hittir Norður Afríku, alger bræðingur.

Miðjarðarhafsnautahakksbræðingur með steiktum hrísgrjónarétt

Ein matskeið af hvítlauksolíu var hituð á pönnu og 500 gr af góðu nautahakki steikt þar til það fór að taka lit en þá var 250 gr af sveppum sem höfðu verið helmingaðir bætt saman við ásamt 200 gr af niðurskornu spínati og 1/2 búnti af niðurskorinni steinselju. Steikt þar til orðið mjúkt en þá var 500 ml af vatni bætt á pönnuna, 1 msk af Oscars nautakrafti og suðan látin koma upp. Spínatið rýrnar mikið við suðuna. Einni teskeið af kóríander dufti, 1 tsk af þurrkuðu oregano ásamt teskeið af papriku dufti var bætt útí auk ríflega af Maldon salti og nýmöluðum pipar. Þrjár tsk af rjómaosti var bætt útí ásamt 30 gr af rifnum parmesanosti. Osturinn og rjómaosturinn bráðnaði hratt og kjötsósan þykknaði talsvert. Til að skerpa aðeins á bragðinu var 1 msk af soya sósu sett saman við.

Þegar hingað var komið fannst mér bragðið vera farið að líkjast því sem mamma gerði og því látið staðar numið. Kjötsósan var svo soðin eiginlega alveg niður. Þegar lítið var eftir af vökvanum var kjötið fært yfir í eldfast mót og smávegis að rifnum osti - kannski 20-30 gr - sáldrað yfir og bakað í heitum ofni þar til osturinn var bráðinn.

Með matnum var svo einfalt hrísgrjónasalat. 2 bollar af Basmati hrísgrjónum var soðið skv. leiðbeiningum. Þegar þau voru tilbúinn var ein msk af olíu hituð á pönnu og hálfri teskeið af hvítlauksdufti og hálfri teskeið af kóríander dufti vakið í olíunni - rétt um stund og þegar þau fara aðeins að steikjast (Siggi Hall kallar þetta að láta brenna í í bókunum sínum) þá er grjónunum bætt út og velt upp úr kryddinu. Þá er hálfum niðursneiddum kúrbít og hálfri niðurskorinni rauðri papríku - bæði skorin fremur smátt niður - bætt saman við og steikt þar til mjúkt. Saltað aðeins og piprað. Rétturinn er tilbúinn þegar grjónin taka á sig smá lit og grænmetið verður mjúkt.

Borið fram með heitu brauði og köldum drykk.


No comments:

Post a Comment