Thursday 21 June 2007

Dásamlegur jarðaberja creme-brulée

Svona eftirréttir eru í miklu uppáhaldi hjá eiginkonu minni og mér reyndar líka. Einu sinni pantaði hún nær alltaf creme brulée í desert þegar við fórum út að borða væri það í boði. Við hjónin fórum nýverið út að borða á Sjávarkjallaranum- stórkostlegur staður, þar pöntuðum við "exotic menu" og fengum mjög fjölbreytilegan mat, nokkra litla forrétti, nokkra aðalrétti og svo í eftirrétt fengum við meðal annars ansi frumlegan creme brulée - hann var með myntu og kaktusbragði - afar ljúffengur.

Ég hef áður sett á netið uppskrift sem er af svipuðum toga en það var kampavíns zabaglione - man þó ekki alveg hvenær það var - hann er ólíkur að því leiti að hann er ekki bakaður eins og þessi en er einnig afar góður.

Til þess að tryggja að baksturinn heppnist vel er lykilatriði að baka í vatnsbaði - au bain-marie - eins og Frakkar kalla það. Það tryggir að eftirrétturinn bakist jafnt í gegn. Maður þarf bara að passa sig að sulla ekki vatninu yfir réttinn þegar maður er að möndla við að ná honum uppúr heitu vatnsbaðinu. Til að gera alvöru creme brulée þarf maður helst að eiga gasbrennara (flame torch). Það er þó hægt að bjarga sér með því að hita grillið í ofninum þannig að ofninn sé orðin verulega heitur og renna brulée-inum undir til að bræða sykurinn. Fyrri aðferðin er líka bara miklu meira töff!

Þetta er góður desert. Það er ekki hægt að segja annað.

Dásamlegur jarðaberja creme-brulée jarðaberjacremebrulee

 Fyrst er ein vanillustöng klofin í tvennt og fræjunum skrapað út. Fræjunum og belgnum sjálfum er því næst sett í pott ásamt 500 ml af rjóma. Rjóminn er hitaður nærri því upp að suðu og svo er slökkt undir og rjómanum leyft að standa í 15 mínútur. Þá er vanillubelgurinn veiddur upp úr og hent. Svo er átta eggjarauður og 80 gr af hvítum sykri blandað vel saman. Rjóminn er hitaður aftur og þegar hann er orðin vel heitur er honum hellt rólega saman við eggjablönduna. Hrært vel saman og svo er rjóma-eggja-sykur blöndunni hellt í gegnum sigti ofan í pottinn á nýjan leik. 200 gr af jarðaberjum eru þveginn og þurrkuð og svo skorinn í fjórðunga. Þá er þeim raðað fallega í 6 lítil eldföst mót. Því næst er eggjablöndunni hellt varlega ofan. Eldföstu mótin eru sett í bakka og heitu vatni er hellt útí bakkann þannig að vatnið nái upp á miðju eldföstu mótanna.

Bakað í heitum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Þegar bruléeinn er bakaður er hann tekin úr ofninum og leyft að kólna rólega í vatnsbaðinu. Eldföstu mótin eru svo sett í ísskáp og leyft að kólna í 3-4 klukkustundir. Rétt áður en eftirrétturinn er borin fram er perlusykri stráð yfir bruléeinn og sykurinn svo bræddur með brennara. Ég geri þetta alltaf við matarborðið - for show!


No comments:

Post a Comment