Tuesday 12 June 2007

Grilluð hreindýrasteik með sætkartöfluböku

Ég var eins og oft áður með matargesti á laugardagskvöldið. Við hjónin búum í mjög góðri blokk í Hlíðunum og erum svo heppin að eiga góða nágranna. Fólkið á ganginum hjá okkur eru frábærir nágrannar, sérstaklega fólkið á hæðinni fyrir ofan okkur. Þau eru nokkrum árum eldri en við og eiga dóttur á unglingsaldri sem dóttir mín algerlega dáir. Við höfðum lengi haft það á dagskránni að fá þau til okkar í mat og núna kýldum við á það. Þetta var einstaklega ljúft kvöld. Spjall og rauðvín fram á nótt og svo auðvitað matur. Alltaf matur.

Ég hef áður sagt frá því á blogginu mínu að ég fór ásamt kollega mínum og veiðifélaga til hreindýraveiða síðastliðið haust. Þar fékk ég að vera á kíkinum og fékk svo helming tarfsins í minn hlut. Ég var svo heppinn að fá úthlutað tarfi á sama svæði í ár þannig að ég er farinn að leggja drög að næstu veiðiferð. Bergþór er farinn til Svíþjóðar í sérnám en ég vona að hann nái að taka sér frí og koma með mér þessa veiðiferð. Hreindýraveiði er skemmtileg og ekki sakar að kjötið er geysilega gott.

Ég hafði haft rænu á því að taka hreindýrakjötið, að þessu sinni hreindýrabóg, úr frystinum nokkrum dögum áður til að leyfa því að þiðna í ísskápnum. Það er betra að gefa þessu nokkra daga frekar en að leyfa þessu að þiðna á eldhúsborðinu yfir nótt. Það verður ekki eins mikil röskun á vökvaástandi kjötsins ef því er leyft að þiðna í rólegheitum frekar en í hasti.  

Grilluð hreindýrasteik með sætkartöfluböku hreindýrasteik

Ég var með 1300 gr af hreindýrabóg sem ég lagði í marineringu um morguninn. Sennilega hefði verið betra að gera þetta kvöldinu áður, en hvað um það. Ég setti 50 ml af góðri jómfrúarolíu, 2 msk af oregano, 1/3 búnt af fersku timian, 1/3 búnt af fersku majoram (kryddið hafði ég saxað niður og marið vel til að losa um bragðið), sex smátt skorinn hvítlauksrif, Maldon salt og nýmalaðan pipar. Hreindýrabógurinn settur í skál og hulinn með þessari blöndu og plastfilma sett yfir og inn í ísskáp til að marinerast yfir daginn. Grillið var blússhitað og steikurnar settar á heitt grillið þannig að það fékk á sig fallegar grillrendur beggja vegna. Svo var slökkt undir 1/3 grillsins og kjötinu leyft að standa þar í óbeinum hita þar til að kjarnhiti varð 62 gráður (medium rare). Leyft að standa í 10 mínútur til að jafna sig áður en það var skorið.

Með matnum var einföld en fremur tímafrek sósa. Einn fremur stór skarlotulaukur, Gottkúrbítssalat þrjár sellerístangir, 2 flysjaðar gulrætur, 3-4 hvítlauksrif voru hreinsuð, og skorinn smátt niður og steikt í 30 gr af smjöri um stund - leyft að sauté-a í smjörinu - sem þýðir að það fær að malla við lágan hita í dálítinn tíma án þess að grænmetið brúnist. Svo 1,5 l af vatni bætt saman við og oscar's villikraftur skv. leiðbeiningum. Búnti af timian og mejoram var látið ofan í, saltað og piprað og leyft að sjóða fyrst með lokið á í 1 klst og svo var sósan soðin niður í ca 30 mínútur með lokið af. Sósunni var því næst hellt í gegnum sigti og sett aftur í pottinn. Smjörbolla var útbúin með því að setja 50 g af smjöri í annan pott og leyft að bráðna og svo var smá hveiti hellt saman við. Sósusoðinu var svo bætt varlega saman við og hrært stöðugt. Svo var sósan djössuð upp, smávegis flís af gráðaosti, væn skvetta af góðu rauðvíni, bláberjasulta, saltað og piprað þangað til að bragðið var gott, kröftugt og passaði með kjötinu.

Sætkartöflubakan er mjög einföld. Þrjár fremur stórar sætar kartöflur voru flysjaðar og hlutaðar sætkartöflubaka niður í 8 bita og soðnar í söltuðu vatni þar til mjúkar í gegn. Þá var vatninu hellt af, 20 gr af smjöri bætt saman við ásamt 20 gr af rjómaosti og svo voru kartöflurnar maukaðar með töfrasprota þar til þær voru orðnar að kartöflumús. Saltað aðeins og piprað. Kartöflunum var þvínæst sett í eldfast mót og ristuðum graskersfræjum sáldrað yfir ásamt laufum af 1-2 greinum af rósmaríni. Bakað í ca 15 mínútur í 180 gráðum heitum ofni.

Með matnum var svo salat. Græn lauf, kirsuberjatómatar, þurrgrillaður kúrbítur, nokkrar sneiðar af höfðingja og furuhnetur. Með matnum voru svo drukkið talsvert af góðu rauðvíni.


No comments:

Post a Comment