Saturday 9 June 2007

Grillaður humar með hvítlauksolíu og góðu hvítvíni

Í fyrrakvöld heyrði ég eitthvað útundan mér varðandi veðurspánna. Það átti að vera brakandi sumar og sól alla helgina. Þegar ég vaknaði í gærmorgun var heiðskírt, sólin skein og það var hlýtt. Það stefndi allt í heljarinnar grill!!! Ég talaði við samstarfsfélaga í vinnunni sem á stundum veitingahúsahumar - svona stóran og fallegan - sem hann reddaði mér. Þegar vinnudeginum fór að ljúka tók ég eftir því að nokkur ský voru farin að safnast saman á himni. Ég fór og skoðaði veðurspána og sá að það stefndi í rigningu. Args! Þetta fór svo versnandi og þegar ég var búinn að versla eftir var kominn hellidemba. En afneitun er besta vörnin þannig að ég ákvað að það væri sól og heiðskírt og lét slag standa með grillið.

Besti humar sem við hjónin höfum fengið var á veitingahúsi á Djúpavogi. Þar var ég að leysa af stuttan tíma á seinasta ári. Djúpivogur er fallegur bær. Búlandstindur gnæfir yfir bæjarstæðinu sem samansett úr mörgum einbýlishúsum sem einhvern veginn hverfa á milli hóla og lítilla hæða. Bærinn virkar því á mann enn minni en hann í raun er - en hann er náttúrulega lítill - um 500 manns búa í bænum. Fólkið í bænum tók vel á móti okkur og við áttum þarna ljúfa daga. Ung hjón reka hótel við höfnina í gömlu fallegu húsi við höfnina, Hótel Framtíð. Mæli með veitingastaðnum - gömul húsgögn og rómantík. Við pöntuðum humar og fengum geysilega vel útlátinn skammt af humarhölum, hvítlaukssmjörsristuðum. Delisíus.

Slappasti humarréttur sem ég hef fengið var í Bandaríkjunum. Á ágætu veitingahúsi í Boston sem sérhæfði sig í sjávarfangi, McCormick's and Schmick's minnir mig. Ég pantaði heilan humar frá Maine. Ég var dressaður upp í plast svuntu og fékk heilan stóran humar - ég var fullur tilhlökkunar - en þetta reyndust alger vonbrigði. Ég held að honum hafi verið skellt lifandi ofan í sjóðandi vatn og svo snaraður á diskinn með smá salati. Ekkert bólaði á smjöri, hvítlauk eða hvað þá hvítvíni, nema því sem ég var með í glasi. Humarinn var stór, seigur og fremur bragðlítill. Ekkert spes. En hvítvínið var þokkalegt.

Snædís var að koma frá Ameríku þar sem hún er búin að vera í tvo daga þannig að ég ákvað að koma henni á óvart. Ég held að humar sé eiginlega uppáhaldsmaturinn hennar. Það hefði í sjálfu sér verið auðvelt að elda humarinn í ofninum en ég var búinn að sökkva mér djúpt í afneitun, kominn í stuttermabol með hvítvínsglas og á leiðinni út á svalir að grilla - í þessu hellidembu sólskini. Ekkert betra.

Grillaður humar með hvítlauksolíu og góðu hvítvíni

Uppskriftir með humar eiga að vera stuttar og auðveldar. Í þeim á ekki að vera mikið hráefni annað en humarinn og eitthvað ljúffengt sem bæta mun við góða bragðið af sjálfum humrinum, viðbótarhráefnið má alls ekki vera senuþjófur.

Stór humar er þveginn örstutt, klipptur upp í gegnum skelina þannig að auðvelt er að veiða görnina upp úr kjötinu. Humrinum er lyft nær alveg upp úr skelinni nema rétt endinn á honum, og er humarinn lagður ofan á skelina (þessa aðferð lærði ég af karli föður mínum). Þá hvílir hann ofan á skelinni að hluta. Raðað á álpakka sem hentar á grillið. Penslaður ríkulega með góðri hvítlauksolíu - mín var búinn til úr Il Cicolina extra jómfrúarolíu og fullt af hvítlauk, ofboðslega bragðgóð - saltaður og pipraður lítillega, að sjálfsögðu með Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Grillið er forhitað þannig að það er blússheitt. Nokkrum mínútum áður en humarinn fer á grillið, er hvítvíni og ferskum sítrónusafa hellt í lítinn bakka sem er útbúinn úr álpappír. Bakkinn er svo settur á grillið og innihaldinu leyft að sjóða upp undir lokuðu grillið. Þegar suðan er kominn upp og hvítvínssítrónugufan fyllir vitin er humrinum bætt á grillið - og grillinu lokað á nýjan leik. Eldunin tekur aðeins nokkrar mínútur. Humarinn er því bæði grillaður og umlukinn hvítvínssítrónugufu. Mikilvægt er að ofelda ekki humar því þá verður hann seigur.

Humarinn var svo borinn fram með grilluðu baguette, salati úr grænum laufum, hálfu avakadó, nokkrum tómarsneiðum, rauðum vínberjum, nokkrum sneiðum af kastalaosti og ristuðum graskersfræjum. Með matnum var svo drukkið Montes Alpha Cardonnay 2005. Mjög gott og fremur eikað hvítvín. Rann ljúflega niður með humrinum. grillaður humar


No comments:

Post a Comment