Saturday 4 August 2007

Grænmetis tempúra með ídýfusósu og ljúfu hvítvíni

elda grænmeti Fengum góða gesti í gærkvöldi. Vinir okkar sem eru búsettir í Danmörku komu í mat til okkar ásamt börnunum sínum. Einkar ljúft kvöld - gott spjall og gott hvítvín. Dóttir mín og dóttir þeirra eru miklar vinkonur og þetta voru sætir endurfundir þessara litlu vinkvenna. Við höfum svo tekið stefnuna til þeirra í byrjun september og munum vera hjá þeim eina helgi. Kristinn og Helga deila áhugamáli okkar hjóna og eru miklir matgæðingar og finnst gott að gera vel við sig með góðum mat. Ég er alltént búinn að lofa að leggja mitt af mörkum í eldhúsinu þeirra.

Ég hef að minnsta kosti einu sinni áður gert þessa uppskrift. Það var fyrir ansi löngu síðan, ég gæti best trúað því að það var fyrir svona 7 árum síðan eða um það leiti sem ég eignaðist fyrstu bók Jamie Oliver, The Naked Chef. Hún var lengi vel ein af mínum uppáhalds matreiðslubókum og ég glugga alltaf í hana aftur og aftur. Það má kannski segja að hr. Oliver hafi haft mikil áhrif á mig og hvernig ég elda. En hvað um það, þessi réttur var fyrsti réttur af nokkrum ansi góðum. Var einnig með Marbella kjúkling og sítrónuböku. Ég hef bloggað um þá rétti áður - ætli ég setji þá ekki inn aftur um helgina - svona revisited færsla.

Grænmetis tempúra er góð leið til að gera mikið af hollu og góðu grænmeti að safaríkri og mjög óhollri máltíð. Grænmetið er skorið niður og velt upp úr deigi sem er svo djúpsteikt. Dásamlegt. Það að djúpsteikja er eiginlega alveg komið úr tísku. Þessi hollustu bylting (sem ég er að sjálfsögðu mikill fylgismaður) hefur eiginlega gengið að djúpsteikingunni dauðri. KFC er eiginlega síðasta vígið...og svo auðvitað franska kartaflan. Hún lengi lifi.

grænmeti Grænmetis tempúra með ídýfusósu (dipping sauce) og ljúfu hvítvín.

Heilmikið af fjölbreytilegu og ljúffengu grænmeti er skorið niður. Sætar kartöflur, kúrbítur, radísur, lauk og púrrulauk er skorinniður í bita. Blómkál og spergilkál er rifið niður í litlabita. Strengjabaunir og salvía er einnig höfð með.

200 gr af hveiti, 100 gr af maizenamjöli er blandað saman í skál. Rétt áður en að á að elda grænmetið er köldu sódavatni hrært saman við þangað til að deigið er eins og svona millistig á milli pönnukökudeigs og vöffludeigs. Grænmetinu er svo dýpt ofan í og hjúpað deiginu og steikt upp úr heitri olíu þar til stökkt og fallegt.

grænmeti3 Borið fram með ídýfusósu. Hálfur bolli af hvítvínsediki, 1/3 bolli af vatni, 1 bolli af sykri er hrært saman í skál. Hálf agúrka er kjarnhreinsuð og skorin smátt niður sem 2 chillipipar. 1/3 búnt af kóríander er svo blandað saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Látið standa í eina klukkustund áður en það er borið fram.


No comments:

Post a Comment