Friday 17 August 2007

Indverskur masalabræðingur með sinnepsfræjakartöflum og fjölbreyttu naan brauði

Konan mín var að koma frá Bandaríkjunum í dag þar sem hún hafði verið burtu yfir tvær nætur. Mér finnst húsið alltaf vera mjög tómlegt án hennar. Því var lítið eldað á meðan. Það er einhvern veginn ekki eins gaman að elda þegar það er enginn til að njóta afrakstursins með manni. Hún kom heim snemma í morgun og náði aðeins að sofa eftir langa nótt í vinnunni. Ég ákvað því að reyna að gera almennilega við hana í mat...svona einu sinni.

 Litli bróðir minn (til að aðgreina hann frá... - tjaa, engum öðrum þar sem hann er eini bróðir minn) kom og var með mér í eldhúsinu. Hann er mikill listakokkur og er mikill sérfræðingur í indverskri matargerð. Ég fékk hann því lánaðan til að gera masalað. Þetta endaði sem einn allsherjar bræðingur. Ég bjó til nautahakksbollur (sem myndi varla gerast í Indlandi) til að setja í kássuna og bróðir minn bjó til sósuna sem þær svo fengu að malla í. Þetta heppnaðist vel.

Ég ákvað að fara með naanbrauðið í aðeins nýjar víddir. Hef nokkrum sinnum áður bloggað um naanbrauð og þó hafa eiginlega alltaf verið með einfaldasta móti. Núna var spýtt í lófana og reynt að gera eitthvað sniðugt. Þegar maður fer út af borða á indverska veitingastaði er oftast hægt að panta fjölbreytilegt úrval af naanbrauði. Það besta sem ég hef smakkað var á Austur Indía félaginu á Hverfisgötunni - frábær veitingastaður, en þar fékk ég bæði kirjuberjanaan og svo einnig möndlunaan - yfirgengilega gott. Hef oft reynt að herma eftir þessu en ekki haft erindi sem erfiði. En núna virðist ég hafa ratað á ansi góða uppskrift.

Indverskur masalabræðingur með sinnepsfræjakartöflum og fjölbreyttu naan brauði

Sósan var útbúinn þannig að fyrst var steiktur 1 stór smátt skorinn hvítur laukur og einn smátt skorinn rauðlaukur í um 10 mínútur við meðalhita. Svo voru fimm þunnsneidd hvítlauksrif steikt með í nokkrar mínútur. Því næst var fjórum niðurskornum tómötum, ásamt nokkrum kryddum; 1 msk muldum kardimommum, 1 msk muldum kóríanderfræjum, 1 tsk garam masala, 1 tsk túrmerik, 1 tsk paprika og svo salt og pipar. Á þessu stigi hefði verið í lagi að setja 1 niðurskorinn chilli - en það voru börn í mat svo að við slepptum því,  bætt saman við og steikt í 10 mínútur. Svo er bolla af vatni, 1 dós af kókósmjólk bætt útí og soðið upp. Maísmjöl er svo sáldrað yfir til að fá viðunandi þykkt á sósuna. Á þessum tímapunkti setti ég kjötbollurnar - sjá næstu málsgrein. Oft þarf að djassa sósuna í lokin til að fá rétta bragðið; 1 hrein jógúrtdós var bætt saman við ásamt 2 tsk af garam masala. Saltað aðeins og piprað og soðið aðeins áfram.

Útí sósuna voru svo settur kjötbollur - reyndar úr nautahakki sem er eins óindverskt og hugsast getur. En hvað um það - við erum á Fróni, frystirinn fullur af hakki og þá fá prinsippinn að fjúka - sérstaklega þegar þau eru bragðgóð. 500 gr af nautahakki sett í skál ásamt, 1/2 búnti af saxaðri steinselju, 1 egg, 1 tsk garam masala, 1 tsk papríku duft, 1 tsk kóríanderduft, 1 lítill rauður laukur, einn smátt skorinn garlic noble og svo 2 msk af möndlflögum. Þetta var allt blandað saman og látið standa á meðan sósan var undirbúinn. Hakkið var svo hnoðað í golfboltastórar bollur og svo  steiktar og þegar farnar að brúnast að utan var þeim bætt útí sósuna og fengu að klára sína eldun þar.

Kartöflurnar voru afar einfaldar. Ég hafði keypt nýjar íslenskar kartöflur sem ég flysjaði og skar niður í 4-6 bita og sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru tilbúnar var vatninu hellt frá og smá smjör sett í pott ásamt smá jómfrúarolíu. Ein teskeið af túrmerik er svo sett útí og "brennt" í fitunni og svo er 2 msk af sinnepfræjum bætt útí og látið poppast. Þegar fræin poppast er kartöflunum svo bætt útí og velt uppúr krydd blöndunni.

Með matnum var ég svo með heimagert naanbrauð. Eins og ég nefndi áður þá hef ég áður birt uppskrift af nanbrauði og "copy-paste"yfir í þessa færslu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klipnir af deiginu og flattir út með fingrunum.

Hérna kemur svo breytingin - ég tók einn meðalstóran rauðlauk, saxaði niður fremur gróft og steikti í olíu á pönnu þar til hann varð mjúkur - þá hellti ég 2 msk af góðu sírópi yfir og leyfði að malla um stund. Þetta var svo fært af pönnunni og leyft að kólna. Tók nokkra brauðhleifa sem höfðu verið flattir vel út og smurði lauknum yfir, braut svo saman og flatti út aftur þannig að laukurinn var innan í brauðinu. Því næst tók ég nokkra aðra brauðhleifa og gerði eins nema hvað ég setti kókósskafninga (litlar ræmur) og lokaði innan í brauðinu. Brauðhleifarnir voru svo penslaðir með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo grillaðar úti á grilli.

Borið fram með Basmati hrísgrjónum og Mangó Chutney.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment