Monday 13 August 2007

Grillað lambaribeye með brie kartöflugratíni og nýrri sveppasósu

Ég átti alveg frábæran dag í dag. Í gærkvöldi fórum við hjónin í matarboð til vinafólks, Barkar og Hjördísar. Börkur hefur verið einn af mínum bestu vinum síðan úr menntaskóla en við kynntust þegar við unnum saman við gerð skólablaðs Menntaskólans við Hamrahlíð, Beneventum. Þau buðu okkur heim til sín á Þórsgötuna og elduðu fyrir okkur ítalska kjötsósu, uppskrift sem Börkur lærði hjá mér, en hefur svo sannarlega betrum bætt. Hann ætlar einhvern tíma að senda mér sína útgáfu.

Þrátt fyrir að við hjónin vorum frameftir kvöldi að sötra rauðvín vaknaði ég í rosastuði í morgun. Fór snemma með krökkunum og leit með þeim á morgunsjónvarpið. Hver verður ekki hress þegar Pósturinn Páll syngur fyrir mann í annað eyrað. Börkur og Hjördís komu svo til okkar í brunch um hádegisbilið og við fengum okkur egg, beikon, pylsur, tómatsafa, appelsínusafa og amerískar pönnukökur...dásamlegt. Seinnipartinn fór ég svo í hjólatúr með guttanum mínum. Svo þegar heim var komið, á meðan hann fékk sér lúr, náði ég aðeins að lesa. Þegar halla fór að kvöldi eldaði ég fyrir fjölskylduna.

Í kvöld gerði ég kartöflugratín sem heppnaðist afar vel. Ég hef áður sett gratín uppskrift á bloggið - en þá gerði ég mjög svipaða uppskrift nema þá notaði ég camenbert ost. Hann bráðnaði eiginlega alveg og varð að vökva en brie osturinn er öðruvísi - hann verður mjúkur og teygjukenndur - alveg frábær. Ég hef áður gert svona briegratín nema þá var það matreitt á grilli - kartöflurnar fyrst grillaðar og svo raðaðar á álpappír með ostinum og álpappírnum svo lokað og bakað á grilli í 20 mínútur.

Þegar skrifað er um nýja sveppasósu - er raun lítið nýtt á ferðinni nema hvað ég notaði creme de funghi porcini e noci - sem er puré af ítölskum sveppum og valhnetum, mjög ljúffengt. Ég keypti lambaribeye í Nóatúni - ætlaði að kaupa lambafille sem hafði verið auglýst í blaðinu í dag með einhverjum afslætti - en þegar ég kom á staðinn hafði allt selst upp daginn áður - en samt auglýst í dag. Ömurleg afgreiðsla...og ekkert gert til að bæta fyrir!

Grillað lambaribeye með brie kartöflugratíni og nýrri sveppasósu.

Kannski var gott að lambafilleið hafi selst upp því að í staðinn keypti ég lambaribeye sem er aðeins feitari biti og þegar kemur að því að grilla gerir meiri fita í kjötinu gæfumuninn. Ég lagðikjötið í marineringu af hvítlauksolíu og rósmarín. Þetta var látið standa í um þrjá klukkutíma. Grillað á heitu grilli þar til kjarnhiti er orðin um 60-62 gráður.

Sósuna gerði ég á eftirfarandi máta. Tvær sellerístangir, 1 hvítur laukur, 1 gulrót og 1 noble hvítlaukur var saxaður niður mjög smátt. Steikt í potti með 2 msk af jómfrúarolíu. Þegar grænmetið var búið að svitna um stund var 1 L af vatni bætt saman við og tveimur lambateningum og soðið svo soðið upp í um 40 mínútur með lokið á. Þegar þetta var búið að sjóða var grænmetið í soðinu maukað með töfrasprota. Í öðrum potti var 1 msk af olíu hituð og 140 gr af niðurskornum sveppum steikt þar til þeir fóru aðeins að brúnast. Svo var 2 tsk af creme de funghi porcini e noci bætt saman við og steikt áfram. Svo var um helmingum af grænmetissoðinu bætt saman við og soðið um stund. 100 ml af matreiðslurjóma var svo bætt saman við og saltað og piprað eftir smekk. Soðin niður í um 20 mínútur til að þykkja sósuna aðeins.

Kartöflugratínið var útbúið þannig að 700 gr af nýjum gullauga kartöflum voru flysjaðar og skornar óreglulega niður. Eldfast mót var penslað með olíu og kartöflum dreift í mótið ásamt einum niðurskornum rauðlauk, noble hvítlauks og hálfum niðursneiddum brie osti. Svo var nokkrum smjörklípum dreift yfir (í heild um 30 gr) og svo í lokin var smávegis af rifnum osti sáldrað yfir. Bakað í fimm korter.

Með matnum var borið fram salat; klettasalat, tómatar, smáttskorinn rauðlaukur, rauð vínber og fersk mynta. Smávegis af olíu, ferskum sítrónusafa dreift yfir. Með matnum var svo drukkið ágætis rauðvín, Tommasi Ripasso Valpolciella frá 2004, afar bragðgott vín.

Bon appetit.

IMG_0636


No comments:

Post a Comment