Monday 6 August 2007

Heitir réttir, súpa og heit brauð á afmæli sonarins

ég og villi Sonur minn, Vilhjálmur Bjarki, varð tveggja ára í dag (þann 4. ágúst). Í fyrra stóð þannig á að við héldum ekki afmælisveislu þannig að í ár var í fyrsta afmælisveislan. Hann vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið. Hann var afar undrandi á öllum kossunum, söngnum en virtist þó njóta athyglinnar sem hann fékk. Eitthvað líkur föður sínum hvað það snertir.

Við buðum allri stórfjölskyldunni, sem við höfum oft gert áður, nema hvað núna mættu allir. Yfirleitt eru svona 30-40% afföll vegna hins og þessa en nú virtist hver einasta hræða vera í bænum og ekki nóg með það búinn að geta börn. Það var varla þverfótandi fyrir litlum krílum. Þetta var alveg frábært. Sem betur fer er ég stórtækur í eldhúsinu og það breytti litlu þótt allir kæmu, allir fengu að borða og ég held bara að allir hafi gengið út með mettan maga.

Eins og ég sagði þá höfum við hjónin oft haldið fjölskylduboð og það er alltaf gaman að hitta allt slegtið. Ég er meira segja kominn með svona fasta liði eins og venjulega þegar að svona stórum veislum kemur. Nokkrar vel valdar kökur, súkkulaðiköku drengur að hætti móður minnar, saltmöndlukaka sem á rætur að rekja í fjölskyldu Snædísar. Ég geri svo yfirleitt alltaf heita rétti sem hafa verið í miklu uppáhaldi. Svo hef ég gjarna verið með heimabökuð brauð, álegg og osta og núna brá ég á það ráð að vera með súpu...og þó ég segi sjálfur frá þá heppnaðist veislan bara ansi vel.

Heitir réttir, súpa og heit brauð á afmæli sonarins.

heitir réttir Í þetta sinn gerði ég fjóra heita rétti, nokkuð líkir hver öðrum en aðeins blæbrigðamunur á milli. Eldfast mót er smurt með heimagerðri hvítlauksolíu, svo eru brauðsneiðar (skorpan skorinn frá) lagðar þétt í botninn. Núna gerði ég smá nýjung og smurði smurosti, sveppaosti í tvö mót og svo beikonosti í hin tvö mótin. Því næst dreifði ég skinku í þrjú af fjórum mótunum (eitt var designerað grænmetis - svona til að vera pólitískt réttsýnn). Svo skar ég sveppi yfir skinkuréttina, rauðlauk, aspas í dós fór í tvö mót, salvía fór í helming rétta og svo steinselja í hina tvo. Í grænmetisréttinn setti ég kúrbít, lauk, spergilkál, rauða papriku, púrrulauk og svo salvíu. Fyrir hvern heitan rétt setti ég svo 5-6 stór egg, 300 ml af rjóma, smávegis af safanum af aspasnum. Þetta var svo hrært vel saman og hellt yfir réttinn þannig að það náði yfir brauðsneiðarnar og aðeins upp á grænmetið (eggja-rjómablandan þenst svo vel út). Rifnum osti er svo sáldrað yfir og saltað og piprað. Bakað í ofni við sirka 200 gráður í 25-30 mínútur þar til osturinn er fallega gullinn.

hvítlauk og rósmarínbrauð Súpan var einföld en ansi tímafrek. Ég byrjaði að gera súpuna kvöldið áður. Þrjár stórar gulrætur, tveir meðalstórir laukar, þrír garlic noble hvítlaukar og þrjár stórar sellerísstangir voru skornir fremur smátt niður. 4 msk af jómfrúarolíu var hituð í stórum súpupotti og grænmetið svo steikt og látið "svitna" vel í olíunni. Svo er fjórum dósum af niðursoðnum tómötum, 2 dósum af tómatapaste sett útí og hrært saman við. Hráefnið er svo maukað með töfrasprota og síðan er vatni bætt útí súpuna. Þegar þarna er komið er súpan um 7 L. Súpan er svo soðin upp og leyft að malla í nokkra klukkutíma með lokið á. Súpan er smökkuð til, saltað, piprað, krafti bætt saman við. Borið fram með heimagerðu brauði.

Ég gerði þrennskonar brauð. Hvítlauks og rósmarínbrauð, gróft heslihnetu- og fjölkornabollubrauð heilhveiti og heslihnetubrauð og svo ólífubrauð. Fólk er oft að spyrja mig hvernig ég geri þessi góðu brauð. Það er í raun hið einfaldasta mál. Svona hollt og bollt er þetta alltaf það sama. Hlutföll er í raun það eina sem skiptir máli þegar maður er að gera brauð, hvað þú setur svo í brauðið er svo annað mál. Venjulegt brauð sem ég geri er um 500-600 gr af hveiti, 30 gr af salti, 3 msk af jómfrúarolíu. 3 tsk af geri er vakið í 300 ml af ylvolgu vatni með 3 msk af sykri (eða hunangi/sírópi). Gerið er svo vakið í sykurvatninu og blandað rólega við hveitið þar til að það verður að fallegum mjúkum klump. Hnoðað um stund.

Til að gera hvítlauks- og rósmarín brauð er hvítabrauðið formað þannig að það verði til brunnur í brauðinu og svo er hvítlauksolíu hellt í brunninn. Svo er rósmarín sáldrað yfir. Til að gera ólífubrauð er alveg eins brauðklump og áður hefur verið lýst hnoðað saman við 30 spænskar ólívur, vafið upp og bakað. Til að gera gróft bollubrauð er helmingum af hvíta hveitinu skipt út fyrir heilhveiti, smávegis af haframjöli bætt saman við og kannski smá sírópi. Þegar deigið hefur hefast er 100 gr af heslihnetum bætt útí ásamt handfylli af fjölkornafræjablöndu. Deigið er svo klipið niður og hnoðað í litlar bollur sem er svo raðað saman í þyrpingu. Bakað í um 40 mínútur við 180 gráðu hita (á við öll brauðin). Borið fram með ostum og skinku, pylsum og salami og svoleiðis. ólívubrauð


No comments:

Post a Comment