Friday 16 February 2007

Sítrónubaka - Crostata di Limone

sítrónubaka Þessi uppskrift er fenginn frá tveimur frábærum kokkum sem reka veitingahús í London sem heitir River Cafe. Hef farið að borða þar tvisvar og aldrei verið svikinn. Fór þangað fyrst með Ólafi Hólm og Elvu Brá konu hans þegar við fórum að heimsækja þau þegar þau bjuggu í London.

The River Cafe er frábært veitingahús - þemað er ítalskt eldhús - rústic og gróft og hráefnið er í lykilhlutverki. Matseðlarnir breytast á hverjum degi - háð því hvaða hráefni leit best út þann morguninn á markaðinum. Veitingahúsið er í eigu Ruth Rogers og Rose Gray og hafa þær stöllur gefið út amk fimm matreiðslubækur auk þess að hafa gert sjónvarpsþætti. Bækurnar og veitingahúsið er meiriháttar - þættirnir fremur mínímalístískir og einhvern vegin í ósamræmi við hið áðurnefnda. Jamie Oliver var kokkur á þessu veitingahúsi og var uppgötvaður af BBC 4 þegar hann var 22 ára.

Á þessu veitingahúsi hef ég smakkað tvær kökur. Önnur þeirra er þessi, ekki bara er hún bragðgóð, heldur ilmar hún svo vel, svo er hún bara svo falleg að horfa á. Maður bara tímir varla að skera hana - en þegar upp í munninn er komið - þá sér maður sko ekki eftir því. Þessi uppskrift er úr bók þeirra - ég held þeirri fyrstu - The River Cafe Cook book.

Sítrónubaka sítrónubökusneið  - Crostata di Limone

350 gr af hveiti, smávegis af salti, 175 gr af ósöltuðu smjöri er blandað saman í matvinnsluvél. Svo er 100 gr af flórsykri og 3 eggjarauður og blandað saman. Þetta er svo vafið í matarfilmu og geymt í ísskáp í allavega 1 klukkustund. Deiginu er síðan rifið niður í eldfast mót sem hefur verið verið pennslað með olíu og pressað niður með fingrunum að botninu og með hliðinum. Bakað í ofni sem hefur verið forhitaður í 180 gráður í 20 mínútur. Tekið út og leyft að kólna. Á meðan botninn kólnar er fyllingin undirbúinn.

350 gr af sykri, 6 egg, 9 eggjarauður, safi af 7 sítrónum og fínt saxaður sítrónubörkur af öllum sjö sítrónum (bara þetta gula - ekkert af þessu hvíta þar sem hann er beyskur og rammur á bragðið og ef hann fer með er kakan ónýt - þekki það af eigin reynslu) er blandað saman í pott, og hrært vandlega saman yfir lágum hita. Því næst er 150 gr af ósöltuðu smjöri bætt saman við og hrært vel saman - fljótlega fer blandan að hitna og þá er 150 gr af ósöltuðu smjöri sett til viðbótar og mikilvægt að halda áfram að hræra svo blandan "curdle-ist" ekki. Þegar þetta er orðið þykkt og gljáandi er blandan tekin af hitanum og haldið áfram að hræra þar til hún verður volg.

Sítrónueggjablandan er hellt yfir skelina sem núna hefur kólnað og bakað við 230 gráður (forhitað) þar til yfirborð bökunnar fer að verða brúnt. Þetta á ekki að taka meira 6-8 mínútur. Mikilvægt að fylgjast vel með bökunni á meðan hún er að bakast þar sem auðvelt er að brenna yfirborðið.

Þessi baka er ansi rich - mikið smjör og mikill sykur - þessa á bara að gera einu sinni á ári - ef maður getur staðist það. Bakan dugar fyrir 10-12 manns og gott er að bera fram með þessu, kannski smávegis rjóma eða jafnvel vanillu ís.


No comments:

Post a Comment