Sunday 25 February 2007

Kjúklinga jógúrt tandori með haldi kartöflum og nanbrauði

Tengdaforeldrar komu í mat. Tengdapabbi minn segist aldrei kunna að meta kjúkling - þetta hefur leitt til þess að ég legg sérstakan metnað í að elda fyrir hann kjúklingamáltíðir. Hann borðar allt á sig gat og ég er farinn að halda að hann segi þetta bara til að storka mér og fá spes kjúklingamáltíðir.

Tandori jógúrt kjúklingur með haldi kartöflum og nan tandori

Jæja-  það var ákveðið að reyna fyrir sig með indverska matargerð. Fór að versla á miðvikudaginn og keypti kjúkling og nokkra kjúklingaleggi. Á miðvikudagskvöldið var ég í einhverju stuði og lagði kjúklinginn í marineringu. Setti 2 dósir af hreinni jógúrt, 2 msk af tandori masala (leiðrétti það sem stóð áðan), 1/2 msk af papriku dufti, 1 tsk af kóríander dufti og 1 tsk af garam masala og hrærði vel saman. Lagði kjúklingin í þessa jógúrt marineringu í 2 daga. Kjúklingurinn var svo færður í eldfast mót, saltaður aðeins, og svo bakaður við 180 gráðu hita í 30 mínútur eða þar til kjarnhiti varð 82 gráður, þá var kveikt á grillinu og yfirborðið ristað. Þegar kjúklingurinn var tilbúinn var ferskum kóríander dreift yfir og borið á borð.

Eina sem ég hefði eftirá viljað breyta væri að sykra aðeins kjúklingamarineringuna þar sem hrein jógúrt er aðeins súr á bragðið - Marineringin var samt mjög góð en ég er sannfærður að kjúklingurinn hefði verið betri ef ég hefði sykrað þetta aðeins.

Með þessu var kartöfluréttur sem flestum líkar mjög vel - kartöflur eru soðnar, þær teknar úr vatninu og flysjaðar. Svo er olía sett í pott og 1 msk af sinnepsfræum sömuleiðis. Sinnepsfræin eru svo poppuð og svo er 1 1/2 tsk Haldi (túrmerik) bætt saman við. Hrært aðeins og svo er kartöflunum bætt saman við og þær þaktar með túrmerik/sinnepsfræa blöndunni. Skreytt með ferskri steinselju.

Einnig var nanbrauð í boði. Ég hef áður birt haldi kartöflur uppskrift af nanbrauði og "copy-paste"yfir í þessa færslu. 500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo 2 msk af olíu. 3 tsk sykri er leyst upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða fiftyfifty mjólk og Ab mjólk) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). Smábitar eru svo klippnir af deiginu og flattir út með fingurnum í lófastórar þunnar kökur sem eru pennslaðar með smávegisolíu og saltaðar með Maldon salti og svo þurrsteiktar á heitri grillpönnu. 

 Jafnframt var þessi matur borin fram með fersku salati með klettasalati, tómötum og jarðaberjum. Með þessu var drukkið Tomassi rauðvín. Vel heppnuð máltið. nan


No comments:

Post a Comment