Saturday, 20 January 2007

Dásamleg súpa og heimagert brauð

Eiginkona mín Snædís gerði súpu á miðvikudagskvöldið sem reyndist alveg stórgóð - ekki að það hefði komið neitt á óvart - hún er afar lunkinn í allri súpugerð, jafnframt gerir hún besta lasagna í heimi og gúllasið hennar er á heimsmælikvarða. Ég hugsa að hún myndi gera margt meira á heimsmælikvarða í eldhúsinu ef ég væri ekki svona fyrirferðamikill.

Ítölsk súpa með heimagerðu brauði.

 Fyrst var kjúklingasoð útbúið. Tveir lítrar af vatni voru hitaðir og 4 kjúklingatengingar leystir upp í vatninu. 2 sellerístangir, 1 laukur, 4 hvítlauksrif voru niðurskorinn og steikt í heitri olíu. Þvínæst var niðurskornu beikoni bætt útí. Saltað og piprað. 2 dósir af niðursoðnum tómötum var bætt í soðið og tvær niðurskornar bökunarkartöflur (skornar í teninga). Steikta grænmetið og beikonið var bætt útí sem og ferskum kryddjurtum - í þetta sinn 10-12 blöð basil og 1 lúka af steinselju, niðurskorið,  og 1 tsk af þurrkuðu oregano - Þetta var látið malla í rúmlega 1 klst - því lengra því betra. Þetta þarf svo að bragðbæta eftir smekk; útí þetta má svo setja rauðvín, þess vegna púrtvín, rjómaost - hvaðeina sem manni dettur í hug. Í þetta sinn var til matreiðslurjómi - og 1 dl var bætt útí og dash af soya sósu.

Á meðan súpan er að sjóða var brauðið útbúið.

500 gr af heilhveiti og 400 gr af hveiti var blandað í skál. Svo var 3 dl af haframjöli bætt útí, 1 1/2 tsk lyftiduft, 2 msk hlynsírópi, 1 1/2 msk Maldon salt, 1 1/2 bolli af léttri AB mjólk og vatn þar til að deigið er orðið blautt ca, 1-2 dl. Ofn var hitaður í 180 gráður. Formið var smurt með olíu. Deiginu var smurt í formið og bakað í heitum ofninum í tæpa klukkustundið. Borið fram með ostum og smjöri...og súpuni auðvitað.
Frábær máltið í miðri viku - fátt betra til að ylja manni á svona frostkvöldum annað en heit súpa og heitt brauð með ostum.

Tuesday, 16 January 2007

Þetta endar allt í eftirrétt

Öll góð matarboð enda í eftirrétt - og eftirrétturinn að þessu sinni var jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Eins og ég greindi frá á vefnum þá fórum við fjölskyldan til Glasgow til að hitta vinafólk og eitt kvöldið fórum við út að borða á stað sem heitir Stravaign - held að þetta sé rétt skrifað. Maturinn var frábær og þjónustan fyrsta flokks. Þar pantaði konan mín eftirrétt sem var rabbabaracrumble with vanilla custard. Hann var "heavanly" - ég lýg því ekki.

Ég hef séð svona rétti í matreiðslubókum - en af einhverri ástæðu aldrei drifið í að búa þetta til - nóg er þetta nú girnilegt þegar maður sér þetta á myndum.

Ég fann síðan góða uppskrift á netinu frá breskum kokki sem heitir James Martin og er með sjónvarpsþætti á BBC food sem heita Sweet ásamt fleiri þáttum. Hann rekur víst einnig delicatessen í Cornwall.
Mín útgáfa var á þessa leið. Ég gerði reyndar fyrir 18 manns en uppskriftin sem ég gef upp er fyrir 6.

Jarðaberja og brómberjakrumbl með heimagerðri vanillusósu. 

225 gr af hveiti er blandað saman við 130 gr af Demerera sykri (eða bara hvítum sykri og smá púðursykri) og ca 115 gr af smjöri við herbergishita. Deigið á að vera eins og þremur þurr leir. Ég bætti við aðeins dash af mjólk og smá vanilludropum til að fá þetta aðeins blautara.
Því næst tók ég jarðaber 500 gr og 2 kassa af brómberjum og lagði í ofnskúffu, stráði smá sykri yfir og smá skvettu af vatni og bakaði aðeins í 200 gráðum heitum ofni í 10 mínútur. Tók þetta svo út - berin er þarna orðið heit og mjúk og sykurinn aðeins farinn að karmelliserast. Þetta lagði ég svo í lítil eldföst mót og muldi síðan deigið yfir. Þetta var svo sett aftur inn í heitan ofninn í svona 15 mínútur þar til deigið var orðið gullið og fallegt.

Ég gerði vanillusósuna fyrr um daginn - og það verður að segjast að gerð á vanillusósu er það sem kallast á enskunni "labour of love" því það þarf að hræra ansi mikið.

600 ml af nýmjólk var hitað að suðu í þykkbotnapotti. Þegar mjólkin er alveg að ná suðu er slökkt undir og 2 vanillustöngum sem hafa verið klofnar upp og innhaldið skrapað út sett út í ásamt útskrapinu. Hrært vel saman og látið standa í 15 mínútur. Á meðan eru 6-8 eggjarauður hrærðar við ca 50-75 gr af sykri þar til það verður eins og þykkur rjómi - fallegt og gljándi. Vanillustangirnar eru fjarlægðar úr mjólkinni og henni svo varlega blandað saman við eggjablönduna. Hrært vel saman. Því næst er sósunni hellt í þykkbotnapott og hituð við lága/meðalhita og hrært stöðugt í þar til að sósan þykknar- má alls ekki sjóða - því þá hleypur hún í kekki (maður er með potential í vanilluommilettu ef maður passar sig ekki) - nóg er að hún þykkist aðeins og þá er hún tekin af hitanum og borðuð strax eða kæld. Ef hún hleypur í kekki þá er hægt að sigta hana en hún verður alltaf aðeins kornótt - bragðið versnar þó ekki. Hinn möguleikinn er að byrja aftur á byrjun.
Jarðaberja og brómberja krumblið er borið fram heitt og ég bar sósuna fram kalda með - algerlega delisísus.

18 manna matarboð - framhald

Það er best að halda áfram að greina frá þessu matarboði. Ég er afar stoltur af því hvað það heppnaðist vel - hef aldrei áður eldað fyrir svona marga - og hvað þá fimm réttað.

Í aðalrétt var ég með grillaðar andabringur. Þær voru eldaðar á eins einfaldan máta og hugsast getur. Látnar þiðna í rólegheitum í ískáp. Þvegnar, þurrkaðar. Því næst saltaðar og pipraðar og steiktar á grillpönnu þar til fitan varð karmelliseruð og knassandi (2-3 mínútur) og svo aðeins á hinni hliðinni. Svo var bringunum skellt í ofn sem var um 170 gráðu heitur í rúmar 10 mínútur. Var með hitamæli í kjötinu.

Með þessu var ágætis villisvepparauðvínssósa sem var elduð á þessa leið; niðurskorinn hvítlaukur, laukur, sellerí og gulrætur steiktar í potti í ólívuolíu. Ég keypti tvennskonar þurrkaða sveppi sem ég lagði fyrst í volgt vatn og svo sjóðandi vatn í nokkrar mínútur. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er vatninu af sveppunum hellt í pottinn (ca 1 L), auk þess setti ég hálfa flösku af Vicar's choice Pinot Noir útí og suðan fékk að koma upp. Saltað og piprað. Villibráðakraft að hvaða tagi sem er er sett ofan í og svo meira vatn.  Suðan fær að koma upp og svo soðið niður á nýjan leik. Þetta fékk að sjóða með lokið á í rúma 2 tíma. Næst er grænmetið skilið frá og soðið sett aftur í pott og látið malla. Villisveppunum var núna bætt útí og soðið smakkað til. Saltað og piprað. Þegar sósan var að verða tilbúinn var 2 msk af gullgráðaosti bætt útí ásamt 2 msk af rifsberjasilli og svo pela af rjóma er bætt útí og sósan soðin áfram og þykkt aðeins með maizenamjöli. Ég maukaði grænmetið sem kom úr soðinu með töfrasprota og bragðibætti sósuna með þessu - það bæði bragðbætir og þykkir hana - ég endaði með því að nota um um fjórðung af grænmetinu aftur ofan í sósuna
Meðlætið að þessu sinni var þrennskonar. Fyrst voru kartöflur og sætar kartöflur skornar í bita og lagt í eldfast mót, ólívuolíu hellt yfir, saltað og piprað og nóg af rósmarín sett með. Bakað í ofni í 40 mínútur við ca 200 gráður.

1 1/2 haus af rauðkáli var sneitt niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 100 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu. Lyktin er alveg dásamleg sem kemur af þessu.
Í lokin var svo hvítlaukssteiktur aspas. Smár ferskur aspas var snyrtur og skolaður. Smjör hitað á pönnu og 5 smáttskornum hvítlauksrifjum bætt útí og látið mýkjast í smjörinu. Því næst er aspasinn settur útí og látin malla í hvítlaukssmjörinu.

Með matnum var drukkið Vicar's Choice Pinot Noir 2005, sem passaði afar vel með matnum. Bon appetit.

Monday, 15 January 2007

18 manna matarboð - hörkugaman

Ég er stjórnarmaður í Félagi ungra lækna og á hverju ári er kosin ný stjórn og haldin stjórnarskiptafundur. Ég hef fengið leyfi stjórnarmanna að halda þennan fund heima hjá mér bæði í fyrra og núna í ár. Í fyrra voru 14 manns í mat en núna komu einnig fulltrúar læknanema og því voru 18 manns í mat. Það verður að viðurkennast að það er aðeins meira mál að elda fyrir 18 heldur en fyrir 6 manns - en það er líka rosalega gaman - að því gefnu að manni finnst yfir höfuð gaman að elda.

Ég byrjaði í gærmorgun um 10 leytið í gærmorgun að undirbúa matinn. Ég var með fimmréttað í matinn. Fyrst var humarsúpa, svo hörpuskel með serrano skinku og því næst var grafin svartfuglsbringa með salvíu og belgbaunstempúra. Í aðalrétt var steikt andabringa með rauðvínsvillisveppasósu með rauðkáli balsamico, hvítlaukssteiktum aspas og kartöflublöndu. Í eftirrétt var svo jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Jæja - best að byrja að þylja upp þessar uppskriftir.

Humarsúpa fyrir átján manns - borið fram í kaffibollum.

Fyrst tók ég 1 kg af smáhumri og hreinsaði humarinn frá skelinni. Braut svo humarskelina vel og rækilega. Hitaði ólifuolíu í stórum potti og setti skelina úti og steikti vel þar til hann fór að taka smá lit. Því næst setti ég tvo litla lauka, 3 gulrætur og 2 sellerístangir og 4 hvítlauksrif sem fyrst voru þvegin og niðurskorinn útí pottinn og leyfði því að svitna aðeins með humarskeljunum. Næst setti ég stóra dós af tómatpuré, hálfa flösku af La Joja Sauvignon blanc hvítvíni, smá Ceyanne pipar og 3 L af vatni og salt og pipar. Þessu leyfði ég svo að sjóða upp og sauð svo í um 6 klukkustundir með lokið á. Soðið var svo síað þannig að allt gumsið var skilið frá. Smjörbolla var útbúinn í pottinum, smjör hitað á pönnu, ca. 50-70 gr eftir magni súpunar og svo hveiti sáldrað yfir þar til þetta fer að líkjast mjúkum leir og þá er byrjað að hella súpunni yfir og hrært stöðugt. Þannig fær súpan meiri þykkt og fallegan gljáa. Hitað aftur upp og leyft að malla aðeins. Pela af rjóma var svo bætt saman við og hrært saman. Saltað og piprað og tónað aðeins með hvítvíni. Þegar um fimm mínútur eru eftir af eldunartímanum er humarnum bætt saman við. Þegar balans er náð - vesigú. Borið fram í kaffibollum og ferskri steinselju stráð yfir.

Þetta var serverað með heilhveitibollum fylltum Hrók, osti, sem heppnaðist vel. 2 tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni með 30 ml af maple sýrópi - leyft af vakna í um 10-15 mínútur. 2 bollum af hveiti var blandað saman við 1 1/2 bolla heilhveiti auk um 2 tsk af grófu salti og 30 ml af ólífuolíu. Allt hrært saman og leyft að hefast í um 2 klukkustundir. Deigið er svo barið niður og bollur útbúnar og hver bolla fyllt með smá sneið af hróki.

Í forrétt númer tvö var ég með hörpuskel vafna serrano skinku sem ég hef bloggað um áður sem og í forrétt númer þrjú svartfuglsbringur sem ég greindi frá fyrir tveimur dögum síðan þegar ég gróf þá í kryddblöndu.
Svartfuglsbringur með vinagrettu og salvíu/belgbauna tempúra.

Eins og ég greindi fra á miðvikudaginn þá gróf ég svartfuglsbringur í kryddblöndu. Á föstudaginn bjó ég til óvenjulega vinagrettu sem mun vera kominn frá Úlfari Finnbjörnssyni matreiðslumanni sem samanstóð úr 4 msk dökkum muscovado sykri, 2 tsk Worchershire sósu, 4 msk rauðvínsediki
2 msk Dion sinnepi, 4 msk valhnetuolíu og salti og pipar.

Jafnframt bjó ég til tempúradeig; 200 gr hveiti, 100 maizenamjöl, salt og sódavatni var blandað saman. Sódavatni var bætt úri þurrefnin þa til það hafði sömu þykkt og rjómi. Salvíu og belgbaunum var dýpt í þessa blöndu og sett í heita sólblómaolíu sem hafði verið forhituð og djúpsteikt þar til það var orðið gullið.
Þetta var ákaflega ljúffengt. Með þessu var drukkið La Joya Sauvignon blanc hvítvíni. Mun blogga aðalréttinn og eftirréttinn á morgun þar sem ég er aðeins eftir mig eftir gærkvöldið.

Friday, 12 January 2007

Matur hjá mömmu og undirbúningur fyrir matarboð

Fór í mat til mömmu og pabba í kvöld. Þar eldaði bróðir minn ítalska kjötsúpu eftir uppskrift móður minnar. Mamma er mjög stolt af þessari súpu og hún má vel vera það. Hún er kraftmikil og bragðgóð. Veit ekki alveg hvernig hún gerir þetta en get vel trúað því að þetta sé eitthvað á þessa leið; Lambakjöt er brúnað í potti með hvítlauk. Lauk, kartöflum, rófum, tómötum - niðurskornum í bita er sett saman við og steikt. Saltað og piprað. Því næst er ca 2-3 dósum af niðursoðnum tómötum, vatni, kraft, tómatpuré, rauðvín og lárviðarlauf sett saman við. Þessu er leyft að sjóða í dáldin tíma. Við lok eldunar sem tekur um 1-1 1/2 klst er ferskri steinselju bætt við. Borið fram með heitu brauði og fersku salati. Afar gott.

Ég huxa að hún sendi mér uppskriftina þegar hún les þetta - ef hún les þetta - hún hefur áreiðanlega einhverjar athugasemdir. Eins og mamma myndi segja "það margborgar sig"!

Annars hef ég verið að undirbúa matarboð sem ég er með á laugardaginn. Ég er með 17 manns í mat og það er að mörgu að hyggja. Þarf meðal annars að redda viðbót við borðið mitt - sem þó tekur tólf manns.

Ég hef verið að undirbúa einn af forréttunum sem boðið verður upp á. Það verður svona sjávarréttastemming yfir forréttunum. Er núna að fara að grafa svartfuglsbringur sem ég veiddi núna í haust á Faxaflóanum. Hef aldrei gert grafið svartfugl áður en hef borðað svona á jólahlaðborði einhverntíma og minnir að mér hafi fundist það gott. Allavega - þetta verður í bland við aðra rétti þannig að það verður látið á reyna.  Átti enga uppskrift af þessu og fann lítið á netinu fyrir grafinn svartfugl - nema prýðilega uppskrift fyrir grafna gæs. Skv. heimildum mun þessi uppskrift vera runninn undan rifjum Úlfars Finnbjörnssonar matreiðslumeistara. Þar sem þetta var fyrir svartfugl þá þurfti eitthvað að breyta þessu og mín útgáfa er eitthvað á þessa leið.

8 svartfuglsbringur voru þvegnar, þurrkaðar og huldar salti í 2 klst. Á meðan var 3 tsk ferskt timian, 5 tsk ferskt rósmarín, 1 tsk þurrkað basil, 1 1/2 tsk oregano, 5 tsk sinnepsfræ, 7-8 belgir af grænni kardimommu og 10 allspice kúlur muldar rækilega í morteli. Bringurnar er teknar upp úr saltinu, þurrkaðar vel og allar himnur og fita fjarlægð. Bringurnar voru umluktar vandlega með kryddblöndunni og látið í kæli. Ég mun láta þetta liggja fram á laugardag. Blogga þá um resúltatið og sósuna sem er með þessu.

Wednesday, 10 January 2007

Chukkalukah - suðurafrísk stemming og fjúsion

Einhvern tíma þegar ég var í feðraorlofi sá ég matreiðsluþátt þar sem suður afrísk kona fór um land sitt og eldaði í framandi umhverfi. Í einum þættinum var hún í hverfi svartra og eldaði frekar einfaldan pottrétt sem hún nefndi Chukkalukah - hún vissi ekkert hvað nafnið þýddi - en taldi að það hafi átt uppruna sinn í suðurafrískum fangelsum þegar fangar sem fengu naumt skammtað lögðu í púkk og gerðu kássur sem þeir svo borðuðu saman. Ég leitaði að þessu á netinu, fann ekkert um þetta, kannski stafaði ég þetta vitlaust eða konan var hreinlega að búa þetta til. Hvað um það, ég reyndi að herma eftir henni í kvöld og bjó til mína útgáfu af Chukkalukkah. Eftir á að hyggja þá er þá er grunnuppbyggingin lík því sem hún gerði en öll krydd sem urðu fyrir valinu - var eitthvað sem ég henti saman - veit ekkert hvort að það sé einhver suðurafrísk stemming í því.

Fyrst hitaði ég olíu á pönnu og steikti tvo litla smáttskorna rauðlauka, 5 pressuð hvítlauksrif, tvær niðursneiddar sellerí stangir, tvær niðursneiddar gulrætur og eina niðursneidda rauða papriku. Þetta fékk að svitna aðeins í olíunni. Því næst var ein dós af hökkuðum niðursoðnum tómötum hellt yfir og 500 ml af vatni. Því næst var 1 lítil dós af tómatpaste, 3 lárviðarlauf, 2 greinar af fersku rósmarín sett útí ásamt 1 tsk af paprikudufti. Saltað og piprað. Setti smá kraft út á - notaði fljótandi nautakraft. Suðan fékk svo að koma upp.

Á meðan voru kjötbollur útbúnar. 10 kúlur af Allspice (sem stundum er kallaður Jamískur pipar skv Wikipedia), 1 tsk kúmen og 1/2 tsk kóríander var mulið í morteli og blandað saman við 500 gr af nautahakki, 1 eggi og smá brauðmylsnu var sett útí til að binda. Litlar bollur voru svo búnar til og látnar detta ofan í sósuna. Lokið sett á og látið malla í 30 mínútur.

Með þessu voru brún basmati hrísgrjón sem voru soðin með smá linsubaunum. Einfalt salat með. Heppnaðist vel - kannski aðeins of dóminant bragð frá allspiceinu - mun nota minna af því næst.

Wednesday, 3 January 2007

Gamlárskvöld í Glasgow - þvílíkt og annaðeins

Jæja - það er búið að vera mikið að gera. Skruppum til Glasgow þar sem vinkona mín er í söngnámi - þar býr hún með manni sínum og dóttur. Við ákváðum að heimsækja þau yfir áramótin og sáum ekki efitr því.
Vígdís eldaði...og ég meina eldaði...þetta var geðveikt...GEÐVEIKT!!!

Í forrét var ristað brauð með fois gras og sultu og ristað brauð með lax með sinnepssósu.
Kalkún - organinc með fyllingu ala Silver palate, sætar kartölfur með pecanhnetum, róskál með beikoni ala Nigella Lawson, rauðkál með balsamico, Waldorf salat.

Í desert var súkkulaðí búðingur - þvílíkt og annað eins. Það var take two á Nýárs. Mun blogga uppskriftirnar á morgun þar sem ég er að stelast inn á net nágrannans.
Later,