Showing posts with label sasso al poggio. Show all posts
Showing posts with label sasso al poggio. Show all posts

Sunday, 5 January 2020

Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran - sælgæti!


Þetta er einstaklega ljúffengur réttur - en eins og allt sem er svona ljúffengt þá tekur eldamennskan dálítinn tíma. Og ekki að hún sé neitt sérstaklega flókin - það tekur bara drykklanga stund að umbreyta seigum bita eins og kálfaskanka (ossobuco) yfir í kjötbita sem bráðnar í munni. 

Þessi réttur er frá nítjándu öldinni og var fyrst borinn á borð á svæðunum í kringum Milanó á Norður Ítalíu. Hann ber öll helstu kenniteikn matargerðar frá Lombardy - sem er heldur frábrugðin hefðbundinni ítalskri matargerð þar sem hún einkennist af nautakjöti, hrísgrjónum og smjöri. 

Og fyrir þá sem hafa verið að strengja einhver sérstök heit um þessi áramót til dæmis um almenna hófsemi eftir nautnir jólahátíðarinnar - þá ögrar þessi réttur þeim aðeins. Hann er, það sem við myndum kalla, "rich" eða ríkulegur. Ætli risotto-ið sé ekki það sem kemur honum yfir strikið - en hrísgrjón eru auðvitað ekkert nema kolvetni sem síðan er drekkt í dásamlegu smjöri og fullt af parmaosti (parmesan). 

En svo getur maður alltaf fengið sér lítið á diskinn - og bara einu sinni, borðað þar til maður er mettur og látið þar við sitja? 

Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran  - sælgæti! 

Fyrir 8 

2 kg ossobuco í sneiðum 
hveiti 
2 hvítir laukar
4 sellerísstangir
5 gulrætur í heldur stórum bitum
1/2 flaska gott hvítvín
1 l kjúklingasoð
kryddvöndull (timjan, rósmarín, steinselja) 
salt og pipar 

Fyrir gremolata 

sítrónubörkur af hálfri sítrónu
2 msk fersk steinselja
2 hvítlauksrif
salt og pipar 

Fyrir risotto alla milanese

1 gulur laukur
1 sellerístangir
4 hvítlauksrif
600 g arboriohrísgrjón
250 ml hvítvín 
1 1/2 L kjúklingasoð
1 g saffran
75 g burro acido (sjá neðar)
100 g parmaostur
salt og pipar


Mér hafði áskotnast þetta fallega nautakjöt - vel fitusprengt. Það hafði verið skorið í þykkar sneiðar sem mér finnst passa svo vel í ossobuco. Vissulega eru flestar uppskriftir af ossobuco með kálfakjöti - en stundum þarf að leika fingrum fram.


Ég notaði að sjálfsögðu íslenskar gulrætur. 


Þær voru flysjaðar og skornar í veglega bita. Steiktar með skornum lauk, sellerí og hvítlauk í smjöri þangað til að grænmetið er orðið mjúkt. Saltið og piprið.


Kjötinu er velt upp úr bragðbættu hveiti. Hveitið er bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti.


Takið grænmetið til hliðar, brúnið kjötið að utan og bætið svo grænmetinu saman við


Ég notaði ríflega hálfa flösku af hvítvíni - sauð upp áfengið, skellti kryddvöndli saman við og bætti svo við kjúklingasoði. Náði upp suðunni og setti svo inn í 150 gráðu heitan ofn í rúma þrjá tíma. Þá má bara slaka á. Þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þar til það kemur að risottoinu. Það er ekki flókið - en það þarf að hræra í því stöðugt - til að fá það sem best. 



Ég notaði Rustichella d'abruzzo Arborio hrísgrjón. Þó að það standi suðutími á pakkanum þá gildir það ekki alveg um risottogerð, hún tekur aðeins lengri tíma. 

Byrjið á því að steikja smátt skorinn lauk og sellerí í smjöri og þegar grænmetið er mjúkt og glansandi bætið þá grjónunum saman við og steikið þangað til að það fer að glansa á jöðrunum. Þá hellir maður hvítvíni saman við og sýður upp. Svo er bætt við ausu eftir ausu af kjúklingasoði og soðið niður á meðan stöðugt er hrært í. 


Saffran er dýrasta krydd sem selt er - en sem betur fer fer lítið magn langt í matargerð. Mér skilst að verðið fyrir kílóið í fyrra hafi verið í kringum 500.000 krónur. Það er oft hærra - en það er háð uppskerunni. Það er vandasamt að tína saffran. Á hverju blómi vaxa einvörðungu nokkrir þræðir - og þeir eru afar viðkvæmir og það þarf að týna þá hvern fyrir sig.


Mér finnst gott að láta saffranið liggja í heitu vatni áður en ég bæti því saman við risottoið. Þegar hrísgrjónin eru orðin "al dente" - þá eru þau tilbúin fyrir lokaskrefið. 


Ég fékk þetta smjör að gjöf frá ítölskum kokki, Marco Fadiga, sem er yfirkokkur hjá Moet & Chandon. Burro acido - sem á íslensku myndi kallast súrsmjör. Og þetta er frekar einfalt. Vín er hitað í potti með ediki og fínt skornum skalottukauk. Sjóðið upp vínið svo áfengið gufi upp. Sjóðið svo vínið, edikið og laukinn áfram þangað til að laukurinn er mjúkur. Skerið kalt smjörið niður í kubba og bætið varlega saman við og hrærið með písk. Þegar allt smjörið er uppleyst er því hellt í gegnum sigti. Þrýst á eftir með sleikju. Vökvinn sem rennur af er svo settur í poka í hæfilegum skömmtum og fryst. Notað eftir þörfum. 


Bætið saman við 75 g af súrsmjöri og 100 g af rifnum parmaosti og hrærið saman við. Látið standa í tvær mínútur áður en það er borið fram. 


Og þá er bara að bera herlegheitin á borð.


Með matnum nutum við þessa ítalska rauðvíns Sasso al Poggio frá 2015. Þetta er vín sem flokkast með Super Toskan vínum - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Þetta vín er í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Vorið 2017 heimsótti ég þessa vínekru og naut dásemdar hádegisverðar á hæð á miðri ekrunni. Ég fer alltaf þangað í huganum þegar ég tek sopa af þessu ljúffenga víni sem er pakkað af bragði - dökkum kirsuberjum - gott og langt eftirbragð í góðu jafnvægi.


Þetta var unaðsleg veisla. 

Gleðilegt ár. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 19 February 2019

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri jógúrtósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati


Það eru fleiri þjóðir en Íslendingar sem gera lambakjöti hátt undir höfði. Þá er ég sérstaklega að hugsa um löndin sem liggja sunnan við Miðjarðarhafið, í Norður Afríku, sem hafa langa hefð fyrir því að snæða lambakjöt. Þar er neysla þess gjarnan tengd ýmsum trúarhefðum. En lambakjöt hefur jafnvel meiri þýðingu - sauðfé - eru skepnur sem þurfa ekki mikið til að komast af - og þrífast vel þar sem skilyrði eru erfið. 

Þó að ég kunni sérstaklega vel við hvernig við Skandínavar og þá sérstaklega Íslendingar eldum lambakjöt þá finnst mér norður afríska eldhúsið koma einkar vel fram við það. Krydd eins og broddkúmen, pipar og túrmerik passa vel með lambakjöti, hvort sem það er eldað á grilli, eins og í þessari uppskrift, en ekkert síður þegar það er langeldað. Fitan sem gjarnan fylgir lambinu lyftir þessu bragði hærra en ella og gefur djúpan keim sem allir ættu að geta notið. 

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri taizikisósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati

Þegar á að grilla lambið er gott að leyfa því að marinerast um stund - yfir nótt er auðvitað kjörið, en fæst okkar hafa rænu á slíkri fyrirhyggju, allra síst ég, sem fæ hugmyndir að matseld kvöldsins um morguninn og beygi af sporinu um leið og ég sé eitthvað sem hugurinn girnist í matvörubúðinni. 

Þetta er matur sem mér finnst auðvelt að elda - enda hef ég gert eitthvað þessu líkt nokkrum sinnum áður og greint frá á blogginu mínu. Það er kannski ekkert svo undarlegt þar sem mér finnst þessi matur sérstaklega ljúffengur. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 þykkar lambakótilettur
Norður afrísk kryddblanda að eigin vali (ég átti marókóska drauma frá því í fyrra sem vonandi kemur á markað aftur fljótlega) 
1 tsk broddkúmen
1 msk papríkuduft
1 tsk túrmerik
3-4 msk jómfrúarolía
sítrónusafi og sneiðar af heilli sítrónu
salt og pipar 

2 stórir tómatar
2 rauðlaukar 
jómfrúarolía
1 msk steinselja
edik
salt og pipar

200 ml grísk jógúrt
1/2 agúrka, kjarnhreinsuð
2 msk jómfrúarolía
1 msk hunang
1 hvítlauksrif
handfylli fersk mynta
Dala-feti að vild

250 g bulgur
1/2 rauðlaukur
1 papríka
handfylli fersk mynta og steinselja
4 msk jómfrúarolía
safi úr 1/2 sítrónu
salt og pipar


Ég hafði þó rænu á því að setja lambakjötið í marineringu áður en fjölskyldan og ég ókum af stað upp í sumarbústað. Þannig tryggði ég að kjötið fengi allaveganna 2-3 tíma í marineringu. 

Ég lagði lambakótiletturnar í fat og hellti jómfrúarolíu yfir. 


Næst handfylli af maróskóskri kryddblöndu - sem er sérstaklega ljúffeng. Hún hefur verið ófaánleg um nokkurt skeið en ef allt gengur eftir verður hún seld í verslunum aftur fljótlega. 


Þar sem kryddblandan var frá því í fyrra skerpti ég aðeins á henni með smá papríkudufti.


Teskeið af broddkúmeni sem mér finnst gefa ótrúlega magnað bragð - eiginlega mitt uppáhaldskrydd. 


Og auðvitað smá túrmerik. Og svo salt og pipar. 


Þvínæst setti ég meiri jómfrúarolíu og safa úr tveimur sítrónum. Lokaði fatinu og lét marinerast eins og áður sagði í nokkrar klukkustundir. 


Aðgengi að ferskum kryddjurtum hefur stórbatnað undanfarin ár og nú er hægt að finna ferskar íslenskar kryddjurtir í öllum betri verslunum. 


Skar myntuna gróflega niður og notaði bæði í bulgur salatið og í jógúrtsósuna.


Sósan er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Setja jógúrt í skál. Skera agúrku í tvennt, kjarnhreinsa. Brytja niður hvítlauk og blanda saman við ásamt kryddjurtum, hunangi og olíu. Salta og pipra eftir smekk.


Bulgursalatið er líka ofureinfalt. Sjóðið vatn og bragðbætið með kjúklingasoði (teningur eða duft).
Hellið bulgurnu í skál og hyljið með soðinu. Látið plastfilmu eða viskastykki yfir. Hellið svo á disk. Raðið svo niðurskornu grænmetinu ofan á, ásamt fetaostinum. Sáldrið svo ferskum kryddjurtum ofan á. Saltið og piprið.


Þetta er svo eitt einfaldasta salat í manna minnum. Sneiðuð tómata og rauðlauk þunnt niður með mandólíni og leggið á disk á víxl. Hellið jómfrúarolíu og ediki yfir. Saltið og piprið. Skreytið með ferskum kryddjurtum.


Máltíð eins og þessi kallar á gott vín. Ég var með Sasso al Poggio frá Toscana. Þetta er vín sem ég hef notið áður. Ég hef meira að segja drukkið það á vínekrunni þar sem það er framleitt. Þetta er vín sem flokkast til Super Toskan vína - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Það tryggir því ríkulegt bragð - smá anís og sultaður ávextur. Langt og milt eftirbragð með miklum ávexti.


Þetta var sannkölluð veislumáltíð sem þið ættuð að prófa nú um helgina. 


Verði ykkur að góðu - ég sannarlega naut þess að elda og snæða þessa máltíð!
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 16 December 2018

Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og heimagerðu hvítlauksbrauði með einföldu vínberjasalati


Maður gleymir því eiginlega á milli ára hvað það er dimmt í desember. Sólin lætur ekki sjá sig fyrr en undir hádegi og hverfur áður en að vinnudegi lýkur. Fyrir marga er myrkrið ansi þrúgandi og þá skiptir máli að reyna að létta sér lífið eitthvað. Sem betur fer býður desember upp á heilmikið af uppákomum sem geta létt manni lundina. Margir hittast í jólaglöggi, en okkur hjónunum var einmitt boðið í eitt slíkt til Arnfríðar og Guðmundar, vina okkar. Þar var margt um manninn og mikil gleði. 

Dagurinn í gær var líka ansi eftirminnilegur, en þá söng jólakórinn okkar á tvennum tónleikum. Síðan í október höfum við nokkur saman hist og sungið jólalög undir mildri en faglegri stjórn Hildigunnar Einarsdóttir söngdívu. Forsprakki hópsins, Eyrún Baldursdóttir, fékk þá hugmynd fyrir nokkrum árum síðan, að stofna jólakór og að sá kór ætti að syngja fyrir sjúklinga Landakotsspítala. Í gær gerðum við það, og gott betur því við tróðum líka upp á Líknardeild spítalans. Þetta hefur verið sannarlega ánægjuleg helgi. 

Auk þess að hitta vini og ættingja og syngja og gleðjast þá má líka létta sér lundina með því að njóta ljúffengs matar og drykkjar. Sumar uppskriftir eru hreinlega betur til þess fallnar en aðrar að létta manni lundina í svartasta skammdeginu. Þessi kemur klárlega til álita sem meðferð við vetrarrökkrinu. 

Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og einföldu ostahvítlauksbrauði

Það eru margir sem eru svo heppnir að eiga hreindýrahakk í frystinum en fyrir þá sem ekki eiga slíkt má vel nota nautahakk.

Hráefnalisti fyrir sex

500 g hreindýrahakk
hálfur rauður laukur
1 sellerístöng
1 gulrót
2 hvítlauksrif
250 ml hvítvín
3 lárviðarlauf
vöndull af ferskum kryddjurtum (rósmarín, timjan, steinselja)
1 stór pakki rjómaostur
150 ml rjómi
3 msk Worcherstershiresósa
250 ml vatn
1 msk villikraftur
Nóg af parmaosti

salt og pipar

600 g penne pasta
ríkulega saltað vatn

blönduð salatlauf
1/2 rauð papríka
1/2 gul papríka
200 g vínber

6 brauðsneiðar
Smjör 
hvítlauksduft
Rifinn ostur 


Eins og allir góðir pottréttir eða súpur þá byrjar maður á sama máta - með þrenndinni, mirepoix, sem er laukur, sellerí og gulrót - nema ég bæti alltaf við hvítlauk þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill.

Svo er grænmetið steikt upp úr olíu eða smjöri þangað til að það er orðið mjúkt og farið að ilma dásamlega. Saltið og piprið. Svo er það tekið til hliðar.


Næst er svo að brúna hakkið þar til að hefur tekið á sig lit. Þá er grænmetinu bætt saman við ásamt nokkrum lárviðarlaufum og þetta steikt saman í nokkrar mínútur.


Næst er að bæta við víninu - suðunni hleypt upp og svo látið sjóða niður þangað til að lítið sem ekkert er eftir af vökva í kássunni.


Svo setti ég vatn og kraft og sauð áfram í 10-15 mínútur. 


Svo var kássan bragðbætt með því að láta þennan fallega kryddvönd sjóða með nokkra stund. 


Þar á eftir setti ég heila öskju af rjómaosti. Þessi uppskrift er ekkert léttmeti - og til að tryggja að ég gengi yfir öll velsæmismörk þá setti ég líka smá rjóma. 


Svo fékk ragú-ið að krauma í þrjú korter eða svo við lágan hita. Smakkað til með salti, pipar og Worchestershire sósu.


Sauð pasta í nóg af söltuðu vatni. 


Þegar pastað var tilbúið var vatninu hellt frá og ragúinu blandað saman við. Raspaði svo heil ósköp af parmaosti við pastað. 


Færði svo pastað yfir á disk, og sáldrði smáræði af steinselju yfir. 


Kristján Kristjánsson, leikstjóri og meðframleiðandi minn, kom í mat og hann fékk það hlutverk að útbúa salat sem varð afar ljúffengt; með grænum laufum, gulri papríku, tómötum og vínberjum.


Með matnum nutum við svo þessa ljúffenga víns, Sasso Al Poggio, sem er framleitt í Toscana. Framleiðandann hef ég heimsótt og meira að segja snætt hádegisverð úti á vínökrunum þar sem þessar þrúgur vaxa. Þetta er oft kallað Super-Toscana vín - blanda úr Sangiovese þrúgunni og svo Cabernet og Merlot. Þetta er "stórt" vín - pakkað af ilmi og bragði - ávöxtur, pínu sultað - smá lakkrískeimur. Dásamlegur sopi.

Með matnum útbjuggum við einnig einfalt hvítlauksbrauð. Smurðum brauðsneiðar með smjöri, hvítlauksdufti og röspuðum svo Ísbúa óðalsost yfir. 


Þessi matur var hreinasta sælgæti. 

Svartnættið í desember er auðsigrað með svona veislumat! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa