Sunday 5 January 2020

Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran - sælgæti!


Þetta er einstaklega ljúffengur réttur - en eins og allt sem er svona ljúffengt þá tekur eldamennskan dálítinn tíma. Og ekki að hún sé neitt sérstaklega flókin - það tekur bara drykklanga stund að umbreyta seigum bita eins og kálfaskanka (ossobuco) yfir í kjötbita sem bráðnar í munni. 

Þessi réttur er frá nítjándu öldinni og var fyrst borinn á borð á svæðunum í kringum Milanó á Norður Ítalíu. Hann ber öll helstu kenniteikn matargerðar frá Lombardy - sem er heldur frábrugðin hefðbundinni ítalskri matargerð þar sem hún einkennist af nautakjöti, hrísgrjónum og smjöri. 

Og fyrir þá sem hafa verið að strengja einhver sérstök heit um þessi áramót til dæmis um almenna hófsemi eftir nautnir jólahátíðarinnar - þá ögrar þessi réttur þeim aðeins. Hann er, það sem við myndum kalla, "rich" eða ríkulegur. Ætli risotto-ið sé ekki það sem kemur honum yfir strikið - en hrísgrjón eru auðvitað ekkert nema kolvetni sem síðan er drekkt í dásamlegu smjöri og fullt af parmaosti (parmesan). 

En svo getur maður alltaf fengið sér lítið á diskinn - og bara einu sinni, borðað þar til maður er mettur og látið þar við sitja? 

Langeldað og ljúffengt Ossoboco með gremolata borið fram með Risotto Milanese með beurre acido og saffran  - sælgæti! 

Fyrir 8 

2 kg ossobuco í sneiðum 
hveiti 
2 hvítir laukar
4 sellerísstangir
5 gulrætur í heldur stórum bitum
1/2 flaska gott hvítvín
1 l kjúklingasoð
kryddvöndull (timjan, rósmarín, steinselja) 
salt og pipar 

Fyrir gremolata 

sítrónubörkur af hálfri sítrónu
2 msk fersk steinselja
2 hvítlauksrif
salt og pipar 

Fyrir risotto alla milanese

1 gulur laukur
1 sellerístangir
4 hvítlauksrif
600 g arboriohrísgrjón
250 ml hvítvín 
1 1/2 L kjúklingasoð
1 g saffran
75 g burro acido (sjá neðar)
100 g parmaostur
salt og pipar


Mér hafði áskotnast þetta fallega nautakjöt - vel fitusprengt. Það hafði verið skorið í þykkar sneiðar sem mér finnst passa svo vel í ossobuco. Vissulega eru flestar uppskriftir af ossobuco með kálfakjöti - en stundum þarf að leika fingrum fram.


Ég notaði að sjálfsögðu íslenskar gulrætur. 


Þær voru flysjaðar og skornar í veglega bita. Steiktar með skornum lauk, sellerí og hvítlauk í smjöri þangað til að grænmetið er orðið mjúkt. Saltið og piprið.


Kjötinu er velt upp úr bragðbættu hveiti. Hveitið er bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti.


Takið grænmetið til hliðar, brúnið kjötið að utan og bætið svo grænmetinu saman við


Ég notaði ríflega hálfa flösku af hvítvíni - sauð upp áfengið, skellti kryddvöndli saman við og bætti svo við kjúklingasoði. Náði upp suðunni og setti svo inn í 150 gráðu heitan ofn í rúma þrjá tíma. Þá má bara slaka á. Þetta eldar sig eiginlega sjálft. Þar til það kemur að risottoinu. Það er ekki flókið - en það þarf að hræra í því stöðugt - til að fá það sem best. 



Ég notaði Rustichella d'abruzzo Arborio hrísgrjón. Þó að það standi suðutími á pakkanum þá gildir það ekki alveg um risottogerð, hún tekur aðeins lengri tíma. 

Byrjið á því að steikja smátt skorinn lauk og sellerí í smjöri og þegar grænmetið er mjúkt og glansandi bætið þá grjónunum saman við og steikið þangað til að það fer að glansa á jöðrunum. Þá hellir maður hvítvíni saman við og sýður upp. Svo er bætt við ausu eftir ausu af kjúklingasoði og soðið niður á meðan stöðugt er hrært í. 


Saffran er dýrasta krydd sem selt er - en sem betur fer fer lítið magn langt í matargerð. Mér skilst að verðið fyrir kílóið í fyrra hafi verið í kringum 500.000 krónur. Það er oft hærra - en það er háð uppskerunni. Það er vandasamt að tína saffran. Á hverju blómi vaxa einvörðungu nokkrir þræðir - og þeir eru afar viðkvæmir og það þarf að týna þá hvern fyrir sig.


Mér finnst gott að láta saffranið liggja í heitu vatni áður en ég bæti því saman við risottoið. Þegar hrísgrjónin eru orðin "al dente" - þá eru þau tilbúin fyrir lokaskrefið. 


Ég fékk þetta smjör að gjöf frá ítölskum kokki, Marco Fadiga, sem er yfirkokkur hjá Moet & Chandon. Burro acido - sem á íslensku myndi kallast súrsmjör. Og þetta er frekar einfalt. Vín er hitað í potti með ediki og fínt skornum skalottukauk. Sjóðið upp vínið svo áfengið gufi upp. Sjóðið svo vínið, edikið og laukinn áfram þangað til að laukurinn er mjúkur. Skerið kalt smjörið niður í kubba og bætið varlega saman við og hrærið með písk. Þegar allt smjörið er uppleyst er því hellt í gegnum sigti. Þrýst á eftir með sleikju. Vökvinn sem rennur af er svo settur í poka í hæfilegum skömmtum og fryst. Notað eftir þörfum. 


Bætið saman við 75 g af súrsmjöri og 100 g af rifnum parmaosti og hrærið saman við. Látið standa í tvær mínútur áður en það er borið fram. 


Og þá er bara að bera herlegheitin á borð.


Með matnum nutum við þessa ítalska rauðvíns Sasso al Poggio frá 2015. Þetta er vín sem flokkast með Super Toskan vínum - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Þetta vín er í talsverðu uppáhaldi hjá mér. Vorið 2017 heimsótti ég þessa vínekru og naut dásemdar hádegisverðar á hæð á miðri ekrunni. Ég fer alltaf þangað í huganum þegar ég tek sopa af þessu ljúffenga víni sem er pakkað af bragði - dökkum kirsuberjum - gott og langt eftirbragð í góðu jafnvægi.


Þetta var unaðsleg veisla. 

Gleðilegt ár. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment