Tuesday 19 February 2019

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri jógúrtósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati


Það eru fleiri þjóðir en Íslendingar sem gera lambakjöti hátt undir höfði. Þá er ég sérstaklega að hugsa um löndin sem liggja sunnan við Miðjarðarhafið, í Norður Afríku, sem hafa langa hefð fyrir því að snæða lambakjöt. Þar er neysla þess gjarnan tengd ýmsum trúarhefðum. En lambakjöt hefur jafnvel meiri þýðingu - sauðfé - eru skepnur sem þurfa ekki mikið til að komast af - og þrífast vel þar sem skilyrði eru erfið. 

Þó að ég kunni sérstaklega vel við hvernig við Skandínavar og þá sérstaklega Íslendingar eldum lambakjöt þá finnst mér norður afríska eldhúsið koma einkar vel fram við það. Krydd eins og broddkúmen, pipar og túrmerik passa vel með lambakjöti, hvort sem það er eldað á grilli, eins og í þessari uppskrift, en ekkert síður þegar það er langeldað. Fitan sem gjarnan fylgir lambinu lyftir þessu bragði hærra en ella og gefur djúpan keim sem allir ættu að geta notið. 

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri taizikisósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati

Þegar á að grilla lambið er gott að leyfa því að marinerast um stund - yfir nótt er auðvitað kjörið, en fæst okkar hafa rænu á slíkri fyrirhyggju, allra síst ég, sem fæ hugmyndir að matseld kvöldsins um morguninn og beygi af sporinu um leið og ég sé eitthvað sem hugurinn girnist í matvörubúðinni. 

Þetta er matur sem mér finnst auðvelt að elda - enda hef ég gert eitthvað þessu líkt nokkrum sinnum áður og greint frá á blogginu mínu. Það er kannski ekkert svo undarlegt þar sem mér finnst þessi matur sérstaklega ljúffengur. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 þykkar lambakótilettur
Norður afrísk kryddblanda að eigin vali (ég átti marókóska drauma frá því í fyrra sem vonandi kemur á markað aftur fljótlega) 
1 tsk broddkúmen
1 msk papríkuduft
1 tsk túrmerik
3-4 msk jómfrúarolía
sítrónusafi og sneiðar af heilli sítrónu
salt og pipar 

2 stórir tómatar
2 rauðlaukar 
jómfrúarolía
1 msk steinselja
edik
salt og pipar

200 ml grísk jógúrt
1/2 agúrka, kjarnhreinsuð
2 msk jómfrúarolía
1 msk hunang
1 hvítlauksrif
handfylli fersk mynta
Dala-feti að vild

250 g bulgur
1/2 rauðlaukur
1 papríka
handfylli fersk mynta og steinselja
4 msk jómfrúarolía
safi úr 1/2 sítrónu
salt og pipar


Ég hafði þó rænu á því að setja lambakjötið í marineringu áður en fjölskyldan og ég ókum af stað upp í sumarbústað. Þannig tryggði ég að kjötið fengi allaveganna 2-3 tíma í marineringu. 

Ég lagði lambakótiletturnar í fat og hellti jómfrúarolíu yfir. 


Næst handfylli af maróskóskri kryddblöndu - sem er sérstaklega ljúffeng. Hún hefur verið ófaánleg um nokkurt skeið en ef allt gengur eftir verður hún seld í verslunum aftur fljótlega. 


Þar sem kryddblandan var frá því í fyrra skerpti ég aðeins á henni með smá papríkudufti.


Teskeið af broddkúmeni sem mér finnst gefa ótrúlega magnað bragð - eiginlega mitt uppáhaldskrydd. 


Og auðvitað smá túrmerik. Og svo salt og pipar. 


Þvínæst setti ég meiri jómfrúarolíu og safa úr tveimur sítrónum. Lokaði fatinu og lét marinerast eins og áður sagði í nokkrar klukkustundir. 


Aðgengi að ferskum kryddjurtum hefur stórbatnað undanfarin ár og nú er hægt að finna ferskar íslenskar kryddjurtir í öllum betri verslunum. 


Skar myntuna gróflega niður og notaði bæði í bulgur salatið og í jógúrtsósuna.


Sósan er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Setja jógúrt í skál. Skera agúrku í tvennt, kjarnhreinsa. Brytja niður hvítlauk og blanda saman við ásamt kryddjurtum, hunangi og olíu. Salta og pipra eftir smekk.


Bulgursalatið er líka ofureinfalt. Sjóðið vatn og bragðbætið með kjúklingasoði (teningur eða duft).
Hellið bulgurnu í skál og hyljið með soðinu. Látið plastfilmu eða viskastykki yfir. Hellið svo á disk. Raðið svo niðurskornu grænmetinu ofan á, ásamt fetaostinum. Sáldrið svo ferskum kryddjurtum ofan á. Saltið og piprið.


Þetta er svo eitt einfaldasta salat í manna minnum. Sneiðuð tómata og rauðlauk þunnt niður með mandólíni og leggið á disk á víxl. Hellið jómfrúarolíu og ediki yfir. Saltið og piprið. Skreytið með ferskum kryddjurtum.


Máltíð eins og þessi kallar á gott vín. Ég var með Sasso al Poggio frá Toscana. Þetta er vín sem ég hef notið áður. Ég hef meira að segja drukkið það á vínekrunni þar sem það er framleitt. Þetta er vín sem flokkast til Super Toskan vína - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Það tryggir því ríkulegt bragð - smá anís og sultaður ávextur. Langt og milt eftirbragð með miklum ávexti.


Þetta var sannkölluð veislumáltíð sem þið ættuð að prófa nú um helgina. 


Verði ykkur að góðu - ég sannarlega naut þess að elda og snæða þessa máltíð!
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment