Showing posts with label Marokkó. Show all posts
Showing posts with label Marokkó. Show all posts

Sunday, 25 August 2019

Þrusugóð kjúklingatagína með besta kúskússaltatinu með steiktum lauk, rúsínum og haloumiosti


Þessi réttur er innblásin frá Norður Afríku, Marokkó nánar tiltekið, en þangað á ég eftir að fara. En ég hef oft ferðast þangað á bragðlaukunum. 

Það hefur lítið verið um að vera á síðunni minni um nokkurt skeið en það stafar hreinlega af því að við fjölskyldan höfum verið á faraldsfæti liðinn mánuð. Ég hef ekki tekið mér svona langt frí í meira en áratug. Og það var löngu kominn tími til að fara í frí. Og nú er maður kominn til baka fullur af orku til að takast á við verkefni haustsins. Og það verður nóg á döfinni. 

Fyrst þessi réttur. Þetta er auðveld uppskrift, sem byrjar í pönnu og klárast í ofni og er borinn fram með ótrúlega ljúffengu tabbuleah sem er salat sem er oftast gert úr bulgur, en þegar það er ekki til má nota kúskús. Og fyrir þá sem eru á ketómataræði má auðveldlega skipta korninu út fyrir hakkað blómkál. Það er alls ekki síðra. 

Þrusugóð kjúklingatagína með besta kúskússaltatinu með steiktum lauk, rúsínum og haloumiosti
1,4 kg kjúklingalæri
1/2 butternut grasker
1 kúrbítur
5 litlar gulrætur
10 hakkaðar döðlur
4 hvítlauksrif
1 dós kjúklingabaunir
handfylli kalamata ólívur
5 msk marókósk kryddblanda (við gerðum þessa úr broddkúmeni, kóríander, túrmerik, papríkudufti, kanel, salti og pipar)
salt og pipar
jómfrúarolía til steikingar

300 g kúskús
1/2 agúrka
2 tómatar
1 laukur
1 haloumiostur
handfylli rúsínur
handfylli ferskt mynta
góð jómfrúarolía
salt og pipar



Fyrsta skrefið var einfalt. Skola kjúklinginn og þerra og salta svo vel og pipra.


Svo var kjúklingurinn steiktur í jómfrúarolíu þangað til að húðin var orðin gullinbrún, stökk og girnileg. Kjúklingurinn var svo settur til hliðar.


Næsta skref var að skera niður allt grænmetið; butternut grasker, gulrætur og kúrbít og steikja um stund í heitri olíunni.


Þá bættum við hökkuðum döðlum og hvítlauk saman við.


Brósi bjó til þessa ljúffengu kryddblöndu - setti öll kryddin í mortél og steytti saman vandlega og bætti svo saman við grænmetið. Ilmurinn í eldhúsinu ætlaði alla að æra.


Þá röðuðum við kjúklingnum ofan á grænmetið og bættum kalamata ólívum samanvið. Helltum einnig heitu kjúklingasoði saman við, upp að miðjum kjúklingalærum.


Það var svo á þessum tímapunkti að við áttuðum okkur á því að pannan, þó stór væri, var alltof lítið fyrir allan matinn sem við vorum að útbúa.

Þá tók við smá handavinna að færa réttinn yfir í stærri ofnskúffu, bæta kjúklingabaunum saman við og baka í 180 gráðu heitum ofni í um tvö til þrjú kortér.


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum skar brósi niður lauk og steikti með rúsinum.


Svo steiktum við haloumiostinn þangað til að hann var fallega gullinn.


Svo var lítið annað að gera en að raða tabbuleah salatinu saman. Fyrst var að hella sjóðandi kjúklingasoði yfir kúskúsið og hylja í fimm mínútur. Látið kólna um stund og tyllið skorinni agúrku og tómötum yfir ásamt steikta lauknum, rúsínum, haloumi. Skreytið með ferskri myntu.


Kjúklingurinn ilmaði dásamlega þegar hann var tekinn út úr ofninum.


Með matnum nutum við Valiano 6.38 Gran Selezione Chianti Classico frá 2010. Þetta vín er að mestu unnið úr Sangiovese þrúgum (90%) eins og flest vín frá Toskana. En til að gefa því en meira fútt er það blandað með Merlot þrúgu. Og þetta er kraftmikið vín, næstum sultað - með kirsuberjum og ögn kryddað. Virkilega ljúffengur sopi.


Þetta var sannarlega vel heppnuð máltíð sem kitlaði alla bragðlaukanna.

Bon appetit!

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 19 February 2019

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri jógúrtósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati


Það eru fleiri þjóðir en Íslendingar sem gera lambakjöti hátt undir höfði. Þá er ég sérstaklega að hugsa um löndin sem liggja sunnan við Miðjarðarhafið, í Norður Afríku, sem hafa langa hefð fyrir því að snæða lambakjöt. Þar er neysla þess gjarnan tengd ýmsum trúarhefðum. En lambakjöt hefur jafnvel meiri þýðingu - sauðfé - eru skepnur sem þurfa ekki mikið til að komast af - og þrífast vel þar sem skilyrði eru erfið. 

Þó að ég kunni sérstaklega vel við hvernig við Skandínavar og þá sérstaklega Íslendingar eldum lambakjöt þá finnst mér norður afríska eldhúsið koma einkar vel fram við það. Krydd eins og broddkúmen, pipar og túrmerik passa vel með lambakjöti, hvort sem það er eldað á grilli, eins og í þessari uppskrift, en ekkert síður þegar það er langeldað. Fitan sem gjarnan fylgir lambinu lyftir þessu bragði hærra en ella og gefur djúpan keim sem allir ættu að geta notið. 

Magnaðar marókóskar lambakótilettur með einfaldri taizikisósu, bulgursalati og tómat- og lauksalati

Þegar á að grilla lambið er gott að leyfa því að marinerast um stund - yfir nótt er auðvitað kjörið, en fæst okkar hafa rænu á slíkri fyrirhyggju, allra síst ég, sem fæ hugmyndir að matseld kvöldsins um morguninn og beygi af sporinu um leið og ég sé eitthvað sem hugurinn girnist í matvörubúðinni. 

Þetta er matur sem mér finnst auðvelt að elda - enda hef ég gert eitthvað þessu líkt nokkrum sinnum áður og greint frá á blogginu mínu. Það er kannski ekkert svo undarlegt þar sem mér finnst þessi matur sérstaklega ljúffengur. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 þykkar lambakótilettur
Norður afrísk kryddblanda að eigin vali (ég átti marókóska drauma frá því í fyrra sem vonandi kemur á markað aftur fljótlega) 
1 tsk broddkúmen
1 msk papríkuduft
1 tsk túrmerik
3-4 msk jómfrúarolía
sítrónusafi og sneiðar af heilli sítrónu
salt og pipar 

2 stórir tómatar
2 rauðlaukar 
jómfrúarolía
1 msk steinselja
edik
salt og pipar

200 ml grísk jógúrt
1/2 agúrka, kjarnhreinsuð
2 msk jómfrúarolía
1 msk hunang
1 hvítlauksrif
handfylli fersk mynta
Dala-feti að vild

250 g bulgur
1/2 rauðlaukur
1 papríka
handfylli fersk mynta og steinselja
4 msk jómfrúarolía
safi úr 1/2 sítrónu
salt og pipar


Ég hafði þó rænu á því að setja lambakjötið í marineringu áður en fjölskyldan og ég ókum af stað upp í sumarbústað. Þannig tryggði ég að kjötið fengi allaveganna 2-3 tíma í marineringu. 

Ég lagði lambakótiletturnar í fat og hellti jómfrúarolíu yfir. 


Næst handfylli af maróskóskri kryddblöndu - sem er sérstaklega ljúffeng. Hún hefur verið ófaánleg um nokkurt skeið en ef allt gengur eftir verður hún seld í verslunum aftur fljótlega. 


Þar sem kryddblandan var frá því í fyrra skerpti ég aðeins á henni með smá papríkudufti.


Teskeið af broddkúmeni sem mér finnst gefa ótrúlega magnað bragð - eiginlega mitt uppáhaldskrydd. 


Og auðvitað smá túrmerik. Og svo salt og pipar. 


Þvínæst setti ég meiri jómfrúarolíu og safa úr tveimur sítrónum. Lokaði fatinu og lét marinerast eins og áður sagði í nokkrar klukkustundir. 


Aðgengi að ferskum kryddjurtum hefur stórbatnað undanfarin ár og nú er hægt að finna ferskar íslenskar kryddjurtir í öllum betri verslunum. 


Skar myntuna gróflega niður og notaði bæði í bulgur salatið og í jógúrtsósuna.


Sósan er eins einföld og hægt er að hugsa sér. Setja jógúrt í skál. Skera agúrku í tvennt, kjarnhreinsa. Brytja niður hvítlauk og blanda saman við ásamt kryddjurtum, hunangi og olíu. Salta og pipra eftir smekk.


Bulgursalatið er líka ofureinfalt. Sjóðið vatn og bragðbætið með kjúklingasoði (teningur eða duft).
Hellið bulgurnu í skál og hyljið með soðinu. Látið plastfilmu eða viskastykki yfir. Hellið svo á disk. Raðið svo niðurskornu grænmetinu ofan á, ásamt fetaostinum. Sáldrið svo ferskum kryddjurtum ofan á. Saltið og piprið.


Þetta er svo eitt einfaldasta salat í manna minnum. Sneiðuð tómata og rauðlauk þunnt niður með mandólíni og leggið á disk á víxl. Hellið jómfrúarolíu og ediki yfir. Saltið og piprið. Skreytið með ferskum kryddjurtum.


Máltíð eins og þessi kallar á gott vín. Ég var með Sasso al Poggio frá Toscana. Þetta er vín sem ég hef notið áður. Ég hef meira að segja drukkið það á vínekrunni þar sem það er framleitt. Þetta er vín sem flokkast til Super Toskan vína - gert úr blöndu af Merlot, Sangiovese og Cabernet þrúgum. Það tryggir því ríkulegt bragð - smá anís og sultaður ávextur. Langt og milt eftirbragð með miklum ávexti.


Þetta var sannkölluð veislumáltíð sem þið ættuð að prófa nú um helgina. 


Verði ykkur að góðu - ég sannarlega naut þess að elda og snæða þessa máltíð!
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 30 January 2017

Dásamleg kjúklingatagína með tómötum, lauk og kjúklingabaunum með ljúffengu kúskús með feta og döðlum og gufusoðnu grænmeti


Ég var á vaktinni á sunnudaginn og í fyrsta skipti í langan tíma var heldur lítið um að vera, bæði á deildinni minni, bráðalyflækningadeildinni, sem og á bráðamóttökunni. Og það verður að segja að það var hálf skrítið, hálf einkennilegt - því síðustu vikur hafa verið mjög kaótískar á sjúkrahúsinu sem er fyrir löngu sprungið. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu gerir kraftaverk á hverjum degi við þessar ótrúlega bágbornu aðstæður; endalaust pláss- og úrræðaleysi. En það er gott að vinna með svona góðu fólki á hverjum degi - og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt!

Á laugardaginn var líka viðburður á hinum vinnustaðnum mínum, Klíníkinni í Ármúla, en þar rek ég sjálfstæða læknastofu þar sem ég reyni að hjálpa gigtveiku fólki. Það var skemmtilegt hvað margir komu í heimsókn og voru forvitnir um reksturinn hjá okkur. Það var sérstaklega skemmtilegt að sýna gestum og gangandi hversu vandað hefur verið til verka á þessari læknastöð. Þetta er gott umhverfi til að vinna í. 

Svo er það áhugamálið mitt, matreiðslan. Þar er líka nóg um að vera. Í febrúar mun ég byrja aftur með sjónvarpsþætti og að þessu sinni verða þeir á ÍNN. Við erum byrjuð í tökum og munu efnistök þáttanna byggja dálítið á bókunum mínum; Tíma til að njóta, Veislunni endalausu og þegar fer að vora Grillveislunni. Auðvitað verður líka heilmikið af nýjum uppskriftum - þetta er allt í vinnslu. Þættirnir verða teknir upp heima hjá mér í nýja eldhúsinu mínu sem ég er afar stoltur af! 

Dásamleg kjúklingatagína með tómötum, lauk og kjúklingabaunum með ljúffengu kúskús með feta og döðlum og gufusoðnu grænmeti

Ég hef mjög lengi verið hrifinn af matargerð Norður Afríku og sérstaklega frá Marokkó - ég hef meira að segja eldað á marókóskum veitingastað í Lundi sem vinkona mín, Latifa átti. Til Marokkó hef ég því miður aldrei komið, nema í gegnum sjónvarpsþætti, matreiðslubækur og kannski má segja að ég hafi ferðast þangað á bragðlaukunum. 

Með þessari uppskrift kemst maður langleiðina til Marokkó. 

Fyrir sex til átta.

Hráefnalisti:

1,5 kg kjúklingaleggir
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 litlir laukar
1 lítil dós tómatpúré
1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
1 tsk kóríanderfræ
1 tsk broddkúmenfræ
1 tsk papríkuduft
1 tsk túrmerik
1 tsk engiferduft
1 tsk súmac
1 kanilstöng
börkur af einni sítrónu
1/2 sítróna
1 tsk kjúklingakraftur
4 msk jómfrúarolía (til marineringar og steikingar)
salt og pipar
steinselja til skreytingar - eða mynta - en hún var bara ekki til í búðinni :( 

2 kúrbítar
10 gulrætur
2 msk sítrónuolía
salt og pipar

250 g kúskús
500 ml kjúklingakraftur
10 döðlur
1/2 rauð papríka
1/2 krukka dalafetaostur

250 ml jógúrt
2 hvítlauksrif
1 tsk hunang
1/2 agúrka
salt og pipar
safi úr hálfri sítrónu
steinselja - þar sem myntan var ekki til :(


Snædís, eiginkona mín, var nýlega í Englandi og hún færði mér talsvert af kryddi úr búðinni Taj sem er í Brighton. 


Ristið kóríander- og broddkúmenfræin og steytið í mortéli.


Hellið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið kryddið; steyttu færin auk papríkudufts og túrmeriks, salt og pipar. Ég notaði helminginn af kryddunum í kjúklingamarineringuna.


Rétt til að lífga réttinn við þá setti ég börk af sítrónu og safa saman við. 


Þessu var svo leyft að marinerast í ísskáp í klukkustund eða svo. Auðvitað hefði lengri tími verið aðeins betra - en maður verður bara að láta duga það sem býðst.


Svo var að vinda sér í sósuna. Ég steikti fyrst laukinn, skorinn í fjórðunga ásamt hvítlauknum í nokkrar mínútur í heitri olíu. Svo setti ég sama krydd og ég setti á kjúklinginn. Látið steikjast um stund áður en þið bætið tómötunum og og tómatpuré saman við. 

Í margar marókóskar uppskriftir notar maður marineraðar sítrónur. Ég átti engar slíkar eins og stendur en setti í staðinn hálfa ferska sítrónu. 


Ég notaði líka súmac - sem er krydd sem hefur svona jarðarkennt sítrónubragð.


Og svo eina kanilstöng. Látið krauma við lágan hita í 20-30 mínútur.


Á meðan maður er að bíða þá er ágætt að fá sér smá hvítvínstár. Ég átti Brancott Estate Sauvignion Blanc frá 2014. Þetta er vín frá Marlborough frá Nýja Sjálandi. Konan mín hafði dálæti á Chardonnay í mörg ár en hefur núna lagt það á hliðina og um þessar mundir er Sauvignion Blanc málið - sem er sko í lagi af minni hálfu. Þetta vín er fallega gult á litinn, með kröftugan ávöxt í nefi, fína fyllingu og krispí bragð á tungu.



Öllu var svo komið fyrir í eldföstu móti.


Inn í 180 gráðu heitan ofn í eina klukkustund.


Á meðan bjó ég til sítrónuolíu: Safi úr einni sítrónu og svo 3 hluta af olíu á móti. Notaði einnig börkinn sem ég skar fínt niður. Saltaði aðeins og hristi vel upp.


Skar niður kúrbít og flysjaði gulrætur og setti í þar til gerða ofnskúffu til að gufusjóða. Bosch ofninn minn, er með svona gufufúnksjón er ákaflega hentug.


Smurði sítrónuolíu á grænmetið, saltaði aðeins og pipraði og gufusauð í 20 mínútur.


Bjútíful!


Raitan var eins einföld og hefðbundin og hugsast getur; Jógúrt, maukuð hvítlauksrif, kjarnhreinsuð smátt skorin gúrka, salt, pipar, hunang og sítrónusafi. Hrært og látið standa.


Eftir klukkustund tók ég kjúklinginn út úr ofninum. Ilmurinn var magnaður. Fyllti allt eldhúsið.


Skreytti með steinselju - hefði vilja nota myntu en hún var ekki til í búðinni (hvað er það eiginlega)


Gerði síðan eldsnöggt kúskús salat með kjúklingasoði (í stað vatnsins). Blandaði síðan við kúskúsið ferskri papríku, steinselju, smátt skornum döðlum og fetaosti.


Raðaði grænmetinu á disk. Ég stóðst ekki mátið að setja smá hunang á gulræturnar.


Svo er bara að bera herlegheitin á borð. Og njóta.

Umfram allt að njóta!