Showing posts with label Svínasíða. Show all posts
Showing posts with label Svínasíða. Show all posts

Saturday, 29 February 2020

Svínasíða sousvíduð í andafitu, borin fram með madeirasósu, karmelliseruðu fennel og ofnbökuðum rósmarínkartöflum


Það er heldur langt síðan að ég notaði sousvide tækið mitt - en ég byrjaði kannski fyrr en flestir. Ég held að ég hafi eldað með þessari aðferð einhvern tímann árið 2012 - en þá fetaði ég í fótspor Úlfars Finnbjörnssonar meistarakokks með þessari uppskrift, sjá hérna. Í bókinni minni Veislan endalausa sem kom út fyrir jólin 2014 voru líka þó nokkrar uppskriftir þar þessari aðferð var beitt. 

Það var svo fyrir jólin 2017 að ég tók þátt í að skrifa handbók, Dr. Sousvide - sem fylgdi með sousvide tæki sem Margt Smátt lét framleiða - en um það leyti tröllreið sousvide eldamennska yfir íslenskt samfélag. Allir voru að sousvida þessi jól. Eitthvað hefur nú dregið úr þessu æði - kannski eins og eðlilegt er. Sousvide tækin eru þó varla eins og fótanuddtækin forðum. En hvað veit ég. 

Svínasíða sousvíduð í andafitu borin fram með madeirasósu frá grunni, karmelliseruðu fennel og ofnbökuðum rósmarínkartöflum

Eins og ég nefndi hafði ég ekki sousvidað um nokkurt skeið. Ég fékk þessa hugmynd þegar ég var einmitt að glugga í gegnum Veisluna endalausu - og rakst á uppskrift að konfíteraðri svínasíðu - þar sem ég notaði umtalsvert magn af andafitu - um tvö kíló. Þetta var ein ljúffengasta uppskriftin í bókinni og mig langaði svo til að gera þetta aftur - nema að ég átti ekki þetta magn af andafitu. Ég átti kannski 500 g í krukku sem hafði komið af confit du canard sem ég hafði keypt í Frakklandi í nóvember í fyrra. Og núna voru góð ráð dýr. En lausnin varð mjög ljúffeng. Sousvide!


Fyrir svínasíðuna

1,5 kg svínasíða
250 g andafita
2 greinar af fersku rósmaríni
nýmalaður pipar

Fyrir fennelinn

2 hausar af fennel
3 msk jómfrúarolía
salt og pipar 
smjör til steikingar

Fyrir kartöflurnar

700 g kartöflur
100 g andafita
salt og pipar 
2 greinar af rósamaríni

Fyrir madeira-sósuna

150 ml madeira-vín
500 ml kjötsoð
salt og pipar
20 g smjörbolla – beurre manié
sojasósa (eftir smekk)
sulta (eftir smekk)



Fyrst er að byrja á því að verka svínasíðuna. Ég náði mér í beittan hníf og skar rifin frá. Þau lagði ég til hliðar til að nota í sósuna.

Puran var líka fjarlægð. Þurrkuð í ísskáp í eina klukkustund, skorin, söltuð og svo bökuð í ofni við 200 gráður þangað til að hún fór að poppast upp. Lögð til hliðar.


Eini síðunni rúllaði ég upp í pylsu eins og þessa á myndinni og batt með streng. Lagði rósmaríngreinar undir strenginn. Pipraði ríkulega.

Hina síðuna hafði ég flata. Kryddaði eins og þá sem ég rúllaði upp.


Því næst setti ég 250 g af andafitu í pott og bræddi og lét kólna um stund. 


Setti svo síðurnar í hvorn sinn pokann ásamt andafitunni, um 125 g í hvorn poka. Innsiglaði með vakúmvél. 


Setti í 70 gráðu heitt vatnsbað í þrjár og hálfa klukkustundir. 


Næst var að huga að fennelinu. Fennel passar fullkomlega með svínakjöti. Hugmyndina að þessu einfalda meðlæti kom úr þáttum Thomas Keller sem er með kennslueldhús hjá Masterclass. Skar hann í báta og velti upp úr jómfrúarolíu og salti og pipar. 


Fennelið eldaði ég við 85 gráður í 40 mínútur.


Það hjálpaði að eiga tvö sousvide tæki við þessar aðstæður.


Rifin voru vel nýtt. Þeim var velt upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og brúnuð inn í ofni.


Kjötsoðið var svo útbúið frá grunni. Fyrst var niðurskorið sellerí, laukur og gulrót steikt í olíu þangað til mjúkt. Svo var beinunum bætt saman við. Þá skvetta af madeira sem var flamberað. Þá bætti ég við einum lítra af vatni. Soðið niður um helming. 

Útbjó svo sósuna á eftirfarandi hátt. Sauð niður 150 ml af madeira víni um nær helming. Bætti svo soðinu saman við. Sauð upp og svo niður aftur um 1/3. Þykkti með smjörbollu og bragðbætti þangað til að sósan varð alveg einstaklega ljúffeng.


Kartöflunum var velt upp úr andafitu, salti, pipar og rósmaríni sáldrað með. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í rúm þrjú kortér eða þangað til að þær verða svona fallega gullinbrúnaðar.


Fennelið var tekið úr pokunum, þurrkað með viskustykki og svo steikt á pönnu þangað til það varð fallega karmelliserað.


Kjötið var lungamjúkt. Og safaríkara verður það varla.


Þessi mynd er eiginlega bara til að monta sig.

Kjötið var svo steikt upp úr smjöri til að brúna það vel að utan.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá Suður Ameríku. Marques de Casa Concha Etiqueta Negra frá því 2017. Þetta vín er blanda úr Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc, Petit Verdot - og er sérlega ljúffengt. Þétt vín með miklum ávexti, mikilli fyllingu - eikað með löngu eftirbragði. 


Loka "touchið" var svo að skreyta með purunni. 

Hvílík veisla. Sousvide snýr aftur. 

Verði ykkur að góðu!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sunday, 17 February 2019

Matarboð Freysanna - Djúpsteikt sushi, humar og maki í forrétt, Bao-Bao bollur með langeldaðri grísasíðu, grilluðu ribeye, snöggpækluðu meðlæti og súkkulaðimús í eftirrétt - allt parað við ljúffenga bjóra


Nafni minn og kollegi, Ragnar Freyr Rúnarsson, er mikill matgæðingur og bjóráhugamaður. Og það að segja að hann sé bjóráhugamaður - það fangar ekki alveg þessa ástríðu hans. Síðan hann komst á legg hefur hann lagt sig fram við að smakka allt sem kallast gæti bjór. Og ekki bara smakka, heldur líka skrá niður væntingar sínar og niðurstöður bjórsmökkunar í dagbækur. Okkur til happs þá skráði hann athuganir sínar á rafrænu formi, fyrst á bjórbók.net og svo nú seinna á einni girnilegustu bloggsíðu á Íslandi - bjorogmatur.is

Ég kynntist þessum mæta herramanni fyrir mörgum árum þegar hann starfaði hjá Decode sem líffræðingur. Eiginkonur okkar stunduðu nám í sálarfræði við Háskóla Íslands og það var eiginlega ljóst frá upphafi að við ættum skap saman. Hvernig er annað hægt en að elska mann sem elskar mat og vín jafnmikið og ég sjálfur?

Við erum líka heppnir að vera giftir nautnaseggjum, sem hafa þolinmæði fyrir uppátækjum eins og þessum. Hugmyndin varð til fyrir nokkrum vikum. Við hittumst heima hjá öðrum vinahjónum og slógum því föstu að fleiri skemmtileg matarkvöld yrðu að vera á næstunni. Og léttkenndir slógum við þessu föstu - nokkrum vikum síðar kæmum við saman og byðum sameiginlegum vinum okkar í Matarboð Freysanna!


Freyr gerði sér lítið fyrir og pósaði fyrir Ragnar Frey.

Matarboð Freysanna - Djúpsteikt sushi, humar og maki í forrétt, Bao-Bao bollur með langeldaðri grísasíðu, grilluðu ribeye, snöggpækluðu meðlæti og súkkulaðimús í eftirrétt - allt parað við ljúffenga bjóra

Og þetta var samvinnuverkefni - við hentum hugmyndum á milli okkar vikuna á undan. Ljóst var í upphafi að þarna yrði bjórpörun höfð í hávegum. Þar skarar Freysi frammúr. Hann vissi vel hvaða bjór ætti að hafa með hverjum og einum rétti. Freyr sagði jafnframt að saman værum við góðir, hann með athyglisbrest og ég með ofvirkni - sannkallað ADHD teymi að störfum.

Forréttur - klassískt sushi / djúpsteikt sushi

500 g sushi hrísgrjón - elduð með hefðbundnum hætti
Majó-wasabe (þrír hlutar majónes á móti einum hluta wasabe)
Lax
Humar
Stökkt laxaroð (roðið af laxinum steik í olíu þangað til að það er stökkt eins og kex)
Agúrka (kjarnhreinsuð í þunnum lengjum)
Avacadó (í þunnum sneiðum)
gulrætur (í þunnum lengjum)
Nori blöð
Pæklaður engifer


Það er einfalt að búa til sushi. Mörgum vex það í augum en það er í reynd ofureinfalt. 


Hrísgrjónunum er dreift yfir nori blöðin og svo er fyllingin valin. Í eina rúlluna fór wasabe-mæjó, lax, steikt laxaroð, gulrætur og svo pæklaður engifer. 

Í hina wasabe-mæjó, humar, gulrætur og avakadó. 


Svo voru lengjurnar útbúnar með því að rúlla þeim upp með því að nota lítin bambus fleka. Svo fengu rúllurnar að taka sig í 30 mínútur í kæli áður en þær voru sneiddar niður. 

Útbjó svo fljótlegt tempúradeig; 

Einn bolli af hveiti
1 msk matarsódi
1 msk kartöflumjöl
1 tsk sykur 
1 tsk salt
ískalt sódavatn (breytilegt magn eftir hveiti, en bætt saman við þangað til að deigið minnir á þykkt lím). 

Velti svo nokkrum laxa- og humarrúllum upp úr tempúradeiginu og djúpsteikti þangað til deigið var gyllt að utan. 

Þar sem smávegis af humar var afgangs velti ég honum líka upp úr tempúradeigi og djúpsteikti með saman hætti. 


Svo var sushinu raðað á disk með wasabe, soya og pækluðum engifer. 



Með sushi-inu bárum við fram Borg bjórinn Esju. Þetta er villiöl - gert úr náttúrulegu geri, brettanomyces, og er bjór í belgískum stíl. Esja er saison bjór - sem er súröl - en heldur mildur sem slíkur. Hann hefur fengið að þroskast í þrjú ár á Chardonnay hvítvínstunnum sem gefur bjórnum ögn smjörkenndan keim. Passaði vel með sushi-inu, bæði því ferska og því djúpsteikta. Algert sælgæti og kom mér verulega á óvart.


Fyrir aðalréttinn;

Fyrir bao-bao bollurnar

2 og ½ bolli hvítt hveiti (364g)
1 og ½ tsk þurrger
¾ bollar hitað vatn, ca 25 gráður eða svo
3 msk matarolía
2 tsk lyftiduft
2 msk sykur

Fyrir fyllinguna

2 bitar af grísasíðu á beini
1 rauðlaukur
2 gulrætur
1 chilli pipar
2 kanilstangir
2 stjörnuanís
10 rauð kampot piparkorn
1 flaska Garún-bjór
3 msk hlynsíróp
4 msk soyasósa

3 ribeye nautasteikur
3 msk jómfrúarolía
3 msk soya sósa
1 lime
1 chilli pipar
5 cm engifer 
2 hvítlauksgeirar
1 msk fersk steinselja

Meðlæti og sósa kemur neðar!


Skar gulræturnar, laukinn og chilli piparinn gróflega og setti í ofnskúffu ásamt kanil, pipar og stjörnuanís.


Þetta voru ansi stæðilegir grísasíðubitar - á beini. Kosturinn við að hafa síðuna á beini er að soðið sem verður til og leggur grunninn í sósuna verður einkar ljúffeng. 


Þá var að hella heillri flösku af Garúnu stout saman við, ásamt soyasósu og hlynsírópi. Lokið var svo sett á fatið og svo sett í 160 gráðu heitan ofn í þrjár klukkustundir.


Næsta skref var að huga að nautakjötinu. Og það var líka einfalt. Skar rauðan chili, engifer og hvítlauk niður.


Lagði steikurnar í skál, nuddaði með jómfrúarolíu, soya og lime safa. Blandaði hvítlauk, engifer og chilli saman við ásamt smáræði af niðurskorinni steinselju. Þetta fékk svo að marinerast í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum meðlæti og annað sem er að finna í þessari færslu. 


Þessi texti er fenginn frá heimasíðunni Bjór og Matur sem Freysi heldur úti. Hann sá líka alveg um bao-bao bollurnar. 

5 bolli hvítt hveiti
3 tsk þurrger
1,5  bollar hitað vatn, ca 25 gráður eða sv
6 msk matarolía
4 tsk lyftiduft
4 msk sykur

1) Hitið vatn örlítið, ca 20-25 gráður. Bætið gerinu út í og látið blotna aðeins í svona mínútu. Því næst bætið þið tveimur matskeiðum af matarolíu og hrærið aðeins í. Látið standa.

2) Setjið hveiti, lyftiduft og sykur í hrærivél með hnoðara haus. Blandið aðeins saman og stillið svo á hægan gang. Hellið gervatninu hægt saman við. Aukið aðeins hraðan á hrærivélinni. Látið ganga þar til myndast hefur klumpur eða kúla. Takið þá deigið út og hnoðið afganginn saman við. Deigið á að vera aðeins klístrað, en ekki þannig að þurfi hveiti á borðið, ef hins vegar það er of klístrað bætið smá hveiti við. Ef of þurrt, þá vætið hendur aðeins og hnoðið rakanum inn deigið.

3) Pennslið skál með olíu og setjið deigið í hana og plastfilmu yfir. Látið standa í a.m.k klukkustund eða þar til orðið tvöfalt stærra. Nú er góður tími til að undirbúa fyllinguna.

4) Hnoðið svo deigið létt saman og myndið lengju og skiptið svo upp í átta jafn stóra búta.


5) Takið hvern bút og formið disk í lófanum, setjið svo á borð og fletjið út með rúllu í sporöskuljaga köku, stærðin er dálítið smekksatriði, gott að hafa um það bil þriggja til fjögura mm þykkt. Pennslið svo helminginn með olíu og leggið saman í hálfmána.


6) Setjið hálfmánana á bökunarpappírsbút, einn á hvern bút og látið svo standa á volgum stað með þurru viskastykki yfir í ca klukkustund. Fylgist með þessum elskum bólgna út og þroskast … svo fallegt.

7) Best er að gufusjóða brauðin í bambusgrind, en ef maður á það ekki þá er vel hægt að nota grænmetissuðugrind í potti með vatni. Það virkaði hjá mér alla vega. Setjið brauðin á smjörpappírnum í gufugræjuna, t.d. tvö í einu, fer eftir stærð, en það þarf að vera pláss á milli þeirra. Gufusjóðið svo í ca sjö mínútur eða þar til brauðin eru orðin bólgin og þurr.


Þegar grísasíðan var tilbúið skar ég puruna af og poppaði inn í blússheitum ofni, 250 gráður í nokkrar mínútur - maður má helst ekki taka augun af því.


Síaði svo soðið og setti í pott, bætti hálfri flösku af Garúnu við og sauð niður um helming þangað til sósan varð hnausþykk. Bætti svo skvettu af Garúnu saman við ásamt 100 g af smjöri og þeytti vandlega saman við. Til að sæta sósuna settum við fjórar kúfaðar matskeiðar af hunangi. 


Og ég er að segja ykkur það sósan sló alveg í gegn. 


Við gerðum þrjár tegundir af pækluðu meðlæti. Skar niður smáræði af rauðkáli, raspaði fimm cm af engifer saman við og huldi með hvítvínsediki. Bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar. 

Skar svo niður eitt grænt epli og eina peru og huldi með hvítvínsediki. Bætti svo hálfum rauðum chilli saman við og bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. 

Svo var það rauðlaukurinn. Einn rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, huldi með hvítvínsediki, bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar. 

Allt þetta lét ég standa út á borði í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum allt annað sem er að finna í þessari færslu. 

Auk þess að vera með pæklað meðlæti vorum við einnig með ferska næfurþunnt skorna agúrku, papríku og ferskan kóríander (fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi). 

Muldum niður puruna til að hafa með. 


Nautakjötið var svo grillað á pönnu í þrjár mínútur á hvorri hlið. Ég hefði grillað það úti en mér tókst ekki að moka út grillið í tæka tíð.


Skar svo grísinn af beininu og lagði í eldfast mót, penslaði með sósu og grillaði í eina til tvær mínútur undir blússandi grilli. Sneiddi í þunnar sneiðar. 


Nautakjötið var einnig sneitt niður í þunnar sneiðar. Sáldraði svo ferskri steinselju yfir kjötið áður en það var borið fram. 


Svo var bara veisla.


Með bao bao bollunum nutum við Úlfs sem er India Pale öl frá Borg. Þetta er ákaflega vel heppnaður bjór, hoppaður og bragðgóður, sem stóð sig afar vel með aðalréttinum. 


Svo var bara að fara að matast. Allir gátu raðað saman eins og þeir vildu. Þessi var með grísakjöti, pækluðum eplum og perum, rauðkáli, ferskum kóríander og garúnarsósu. 


Þessi bao bao bolla var með nautakjöti, gúrku, pækluðum rauðlauk og siracha mæjó. Sælgæti. 


Fyrir þá sem ekki vildu fá Úlf með bao bao bollunum þá sló Barrabas dubbel öl, sem páskabjórinn þeirra frá Borg í fyrra, algerlega í gegn.  Ljúffengt og dökkt öl sem sómdi sér ekkert síður vel en Úlfur.

Og svo var eftirréttur; 


Þetta er allt frá R. Freyr Rúnarsyni á Bjór og Matur

Besta súkkulaðimús í heimi með fersku hindberjamauki. Það besta við þessa mús er að það er fljótlegt að gera hana og auðvelt.

250 g gæðasúkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
150 g sykurpúðar
50 g smjör
60 ml heitt vatn (soðið vatn)
285 ml rjómi, þeyttur.
1 tsk vanilludropar

Sykurpúðar, smjör og saxað súkkulaði er sett í stóran pott og svo er 60ml heitu vatni bætt við. Látið svo malla á mjög lágum hita, rétt til að bræða súkkulaðið og púðana. Hrærið reglulega þar til allt er bráðnað og látið svo kólna. Þeytið rjómann með vanilludropunum og blandið varlega saman við rest.

Hindberjamaukið:

300 g hindber (frosin er algjörlega í lagi)
1/4 bolli sykur
1 mtsk súrbjór eða bara sítrónusafi
1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa samt)

Setjið þetta allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana og svo sjóða í ööörlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.

Fyrir meiri aðferðafræði, sjá hérna!

Eins og lesendur sjá var þetta veisla frá upphafi til enda! Bjór var paraður við mat og matur við bjór!



Gestirnir okkar voru glaðir og við vorum glöð!

Hvílíkt kvöld! Ég er enn að jafna mig!

Bon appetit!

-------

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Tuesday, 24 April 2018

Mögnuð svínasíðuflétta með puru með sírópsgljáðum eplum og karmelliseruðum fennel

Ég sit á Keflavíkurflugvelli og bíð eftir flugi til Kaupmannahafnar. Leið mín liggur eins og oft áður til Lundar þar sem ég er að fara að sitja námskeið sem er hluti af doktorsnámi mínu - Vísindaleg samskipti - heitir námskeiðið ef ég reyni að þýða heiti þess á íslensku. Þar á að kenna nemendum að leita að heimildum, skrifa vísindagreinar, taka við gagnrýni og svo framvegis. Þetta á án efa eftir að verða lærdómsríkt.

Ég á nokkra kúrsa eftir þannig að ég verð á faraldsfæti komandi misseri. Vonandi hefst þetta á endanum.

Ég fæ að gista hjá vinum okkar í Lundi. Að þessu sinni verð ég hjá Jóni og Álfu sem búa fyrir aftan húsið þar sem við áttum heima meðan við bjuggum í Annehem í Lundi. Það kom svo á daginn að ég hafði einnig tryggt mér gistingu hjá Jónasi og Hrund sem búa við hliðina - en ég hafði eitthvað ruglast í ríminu. Svona getur þetta farið þegar maður hefur margt á sinni könnu. En það hlýna nú hjartaræturnar að vera velkominn á nokkrum stöðum.

Mögnuð svínasíðuflétta með sírópsgljáðum eplum og karmelliseruðum fennel

Fyrir 8

Svínasíða (um 3,5-4 kg)

2 msk Edmont Fallot Djion sinnep
2 tsk hunang
1 tsk jómfrúarolía
salt og pipar

3 msk jómfrúarolía
1 msk salvía
nokkir fenneltoppar
safi úr hálfri sítrónu
3 msk hvítlauksolía
salt og pipar

2 fennel
6 epli
100 g smjör
2 msk síróp
salt og pipar

salat eftir smekk


Mér tókst að kaupa svínasíðu á laugardegi. Fór í Krónuna á Höfðanum - og þar var til óvenjulega mikið af svínasíðum sem ég lét skera niður eftir mínu höfði. 


Þegar heim var komið var síðan svo skoluð og þerruð og svo skar ég húðina af með beittum hníf og setti inn í ísskáp á disk til að þorna - þannig verður puran stökkari við eldun. 

Ég hef áður eldað puruna sér - en fyrir jólin prófaði ég að gera purusteik með sous vide aðferð - sjá hérna - en betri puru er varla hægt að ímynda sér. 


Svo var það verkefni að útbúa þessa fléttu. Ég fann mér góðar leiðbeiningar.


Endaði með því að skera niður í fjóra bita, og svo hvern bita niður í 3 strimla - hver um sig fastur á öðrum endanum. 


Svo var kjötinu bara fléttað saman. Lítur ansi sjarmerandi út. Og heldur sér mjög vel við eldun.

Þó að ég hafi eldað kjötið í ofni - þá hentar þetta líka einkar vel á grillið. Bitinn heldur sér alveg.


Til að tryggja að kjötið haldi sér - stakk ég grillspjóti í gegnum endann - sem ég annars hefði bara bundið með snæri, en það var búið. Spjótið dugði mjög vel.


Þetta sinnep er því miður illfáanlegt í verslunum í Reykjavík - en þetta er sinnep að mínu skapi. Rétt er að benda á það að sinnepið er fáanlegt í Ísbúðinni á Laugalæknum - sem er líka jafnframt besta pylsusala Reykjavíkur!


Ég blandaði sinnepinu, hunanginu og olíunni saman við og smurði ríkulega yfir tvær svínasíðufléttur. Saltaði og pipraði.


Hinar tvær flétturnar penslaði ég með hvítlauksolíu og saxaði síðan salvíu smátt og dreifði yfir. Salvía og svínakjöt finnst mér alltaf passa einstaklega vel saman.


Eins er það með fennel. Ég tók ofan af fennelnum og notaði toppana sem krydd ofan á svínaflétturnar.

Svínaflétturnar voru svo bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur og síðan við 150 gráður í tvær klukkustundir.


Fennelinn sjálfan skar ég svo í þunnar sneiðar. 



Og steikti upp úr 50 g af smjöri. Saltaði og pipraði. 

Það tekur tíma að karmellisera fennelinn - það er best gert á heldur lágum hita. Þannig lokkar maður best fram sætuna í honum. 


Flysjaði fimm epli og setti í skál með sítrónubættu vatni. Það kemur í veg fyrir að þau oxist og taki á sig brúnan lit.


Eplin voru svo skorin í báta og steikt upp úr restinni af smjörinu. Saltaði og pipraði. 


Þegar eplin voru farin að mýkjast hellti ég skvettu af hlynsírópi á pönnuna og sauð upp sírópið þannig að eplin hjúpuðust vandlega. 



Puran verður fullkomin með þessari aðferð. Fyrst eru hún geymd í ísskáp í nokkrar klukkustundir til að þorna vel. Svo eru hún skorin með oddhvössum hníf - ekki alveg í gegn og salti nuddað í sárin. 



Því næst eru puran sett inn í 200 gráðu heitan ofn í þrjú til fjögur kortér þangað til að hún poppast fallega og verður eins og kex.


Kjötið kemur ótrúlega fallegt út úr ofninum. Fléttan sem var pensluð með olíunni varð fallegri á að líta. Sinnepsgljáða varð dekkri, ekki brennd en sinnepið varð svarbrúnt á lit - nánast eins og það væri innbakað. 


Kjötið varð fullkomlega lungamjúkt og safaríkt. 


Með matnum drukkum við síðustu flöskuna sem ég átti af Masi Corbec. Þetta vín smakkaði ég í fyrsta sinn á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Masi fyrir tæpu ári síðan. Ég varð mjög hrifinn af þessu víni og stakk upp á því að það yrði flutt inn til landsins og selt í ÁTVR. Það var selt til veitingastaða fyrir jólin og fór mjög vel í landann og til stendur að það komi í vínbúðir nú um næstu mánaðarmót. Það fær svo sannarlega mín meðmæli enda kraftmikið vín sem á rætur að rekja til Argentínu. Það er gert úr blöndu af ítölsku þrúgunni Corvina sem er ræktuð á Ítalíu og svo Malbec sem er ein aðalþrúgan í rauðvínum frá Argentínu. Þið ættuð bara að prófa. 


Þessi matur rann ákaflega ljúfflega niður - eina sem vantaði var sósan.  Alltént sagði konan mín það! Ég mun ekki klikka á því næst1

Verði ykkur að góðu.