Monday 26 August 2013

Grilluð ribeye steik með kraftmikilli chillibernaise


Þessi færsla er eiginlega meira um sósuna en kjötið. Það kemur kannski ekki á óvart - þeir sem lesa bloggið mitt vita um ást mína á Bernaise sósu og smjöri. Ég elska smjör. Ég segi bara eins og Julia Childs "the only thing that is better than butter is more butter"! Og ég tek undir hvert orð. Og margir stynja við að lesa þessi orð. Hvernig getur maður sem er læknir að mennt ýtt undir smjörneyslu. Og mitt svar er: Ég held bara að smjör sé ekkert óhollt - þvert á móti - ég held hreinlega að það sé hollt. Eins og flestur matur sem maður eldar heima hjá sér frá grunni!

Ég veit ekki alveg hvaðan ég fékk þessa hugmynd. Kannski er það vegna þess að ég hef verið einkar sólginn í sterkan mat upp á síðkastið! Ég hef verið að hella tabaskó sósu ofan á næstum hvað sem er. Og á laugardagsmorguninn stakk dóttir mín, Valdís Eik, upp á því að við myndum gera steik og bernaise - en fjandinn, stundum verður maður bara að prófa að gera eitthvað nýtt! Og úr varð þessi ljúffenga uppskrift.

Á myndinni hér að ofan er hvítvínsedik en þegar hafist var handa við eldamennskuna var augljóst að henni þyrfti að skipta út fyrir rauðvínsedik til að fá kröftugara bragð. Svona er þetta við nánast "live" eldamennsku.

Gordon Ramsey var að byrja með nýja þáttaröð, í þessum þætti fjallar hann um chili!

Grilluð ribeye steik með kraftmikilli chillibernaise 


Hráefnalisti

Chilli bernaise 

1/2 bolli rauðvínsedik
1 grein estragon
2 msk skarlottulaukur
10 piparkorn
1 rauður chilli
2 tsk  sambal olek
1 tsk  sætchillisósa

1,2 kg ribeye steik
Salt og pipar

Fyrst er að byrja á því að gera bernaise "essence-inn" (bragðbætinn). Setti hálfan bolla af rauðvínsediki í pott, eina grein af estragoni, tvær matskeiðar af skarlottulauk, tíu piparkorn og svo að sjálfsögðu heilan rauðan chilli sem ég skar eftir miðjunni. Sjóðið niður þangað til að tvær matskeiðar eru eftir af vökva. Síið. 



Ég keypti 1,2 kg af fallegu nautakjöti - ribeye - sem kallast svo vegna fitunnar sem finnst inn í miðjum vöðvanum. Ekki skera þetta í burtu - þetta er dásamlega bragðgott!



Skorið í fjórar fallegar sneiðar. Tveggja og hálfs sentimetra þykkar. 


Grillað á funheitu grilli í tvær mínútur á hvorri hlið og látið svo standa í 15 mínútur áður en þið skerið í kjötið. 



Setjið sex eggjarauður í skál, eina matskeið af rjóma og þeytið saman. Setjið yfir vatnsbað og hrærið. Þegar eggin fara að hitna og þykkna bætið niðurskornu smjöri saman við - bita og bita í senn; þrjú hundruð grömm. Þannig kekkist sósan ekki. Gætið þess að hita ekki sósuna um of annars verður þetta bara að að ommilettu.



Þegar allt smjörið hefur verið blandað saman við eggin, hellið bragðbætinum saman við ásamt chillinum af bragðbætinum (niðurskornum), tveimur teskeiðum af sambal olek og svo einni teskeið af sætri chillisósu.





Berið fram með spergilkáli og einföldu salati. 



Með matnum drukkum við Wolf Blass Shiraz Cabernet frá því árið 2011. Þetta er kröftugt vín með ágætri fyllingu. Kryddað og berjaríkt vín sem ég var afar ánægður með að hafa með þessum mat. Passaði vel við!




Skreytið með ferskum chilli og kóríander. 

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment