Wednesday 7 August 2013

Dásamlega Toskana: Veisla á grillinu; rósmarín stjaksettur kjúklingur og fjölbreytt meðlæti!



Við komum frá Íslandi í júlílok og pökkuðum í bílinn og lögðum land undir fót og ókum sem leið lá til Ítalíu. Nánar tiltekið til Toskana - þar sem við höfðum leigt hús á lítilli vínekru - Castello di Starda. Upp á lítilli hæð stendur kastali frá því 1100 sem áður hýsti fangelsi. Þarna hefur verið vínrækt í mörg hundruð ár. Þarna er framleitt Chianti Classico úr mestmegnis Sangiovese þrúgum. Frábær vín. 


Við lögðum af stað með fjölskylduna frá Lundi á miðvikudegi. Gistum á prýðisgóðu gistiheimili - Fritz's Goldener Stern í Breitenbach. Þar var kantarelluþema á veitingastaðnum mér til mikillar ánægju. Pantaði mér snitsel með steiktum kantarellum, lauk og beikoni. Daginn eftir keyrðum við í gegnum Alpana og gistum á pensionati - Haus Alpenflora í litlum bæ, Flirsch, sem er rétt hjá St. Anton sem margir skíðamenn þekkja vel. Þaðan keyrðum við til Flórens - þar sem við hittum Tomma og Önnu Margréti og frábæru strákana þeirra - Sólvin og Marínó, eineggja tvíbura sem plata mig í sífellu! Hvor er hvor? Við röltum um Flórens og skoðuðum dómkirkjuna og svæðin í kringum hana. Daginn eftir komum við til Castello di Starda þar sem vörðum viku í fallegri rústik íbúð! 

Dásamlega Toskana: Veisla á grillinu; rósmarín stjaksettur kjúklingur og fjölbreytt meðlæti!

Meðfram veginum upp að húsinu okkar var mikiðaf ferskum kryddjurtum. Ég fann bæði timian, myntu, salvíu, rósmarín og lárviðarlauf.


Ég var ekki lengi að ná mér í hnífinn minn og fara á stúfana eftir kryddjurtum til að hafa í matinn! 


Það er ótrúlega gaman að elda ú fersku hráefni. Og grænmetisúrvalið í ítölskum matvöruverslunum er ótrúlegt. Ég hugsa að grænmetisdeildin hafi verið þrisvar sinnum stærri en allar aðrar deildir búðarinnar sem við fórum í! Og það var enginn nammibar!


Skar niður eitt stórt eggaldin sem ég drekkti í jómfrúarolíu (4 msk), tróð síðan einni sítrónu í bátum, handfylli af rifinni steinselju og svo auðvitað salt og pipar.


Skar niður tvo kúrbíta, velti upp úr matskeið af jómfrúarolíu og saltaði og pipraði. Skar síðan niður salvíuna sem ég hafði fundið og lagði með.


Ítalir fara seint í sögubækurnar fyrir sósur með mat! En við vildum ólm hafa eina slíka með matnum. Því var prófað að gera sveppasósu á grillinu. Skar niður 200 gr af sveppum og setti í bakkann, ásamt einum smátt skornum rauðlauk, þremur hvítlauksrifjum, nokkrum lárviðarlaufum, 50 gr af smjöri og svo salt og pipar. 


Skar líka niður 300 gr af kartöflum í bita, velti upp úr olíu, saltaði og pipraði og reif niður ríkulegt magn af rósmaríni. 


Ég hafði sótt löng spjót (greinar) af rósmaríni sem ég tálgaði aðeins og stakk síðan í gegnum kjúklingabringurnar. Nuddaði síðan með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og lét standa í ísskápnum í þrjú kortér með haug af söxuðum hvítlauksrifjum. 


Svo var bara að kynda undir kolunum, setjast niður og bíða eftir að þau hitni. Kannski fá sér einn bjór. Og, já - vera með hatt! :)


Við grilluðum einnig pylsur - salsiccia - sem voru alveg ljúffengar. 


Það vantar ekki einbeitingarsvipinn á lækninn í eldhúsinu. Tómas kom færandi hendi með rjómann í sósuna.


Sósan var einföld. Setti glas af hvítvíni - og sauð upp áfengið. Setti síðan 200 ml af rjóma sem ég hitaði að suðu.



Með matnum drukkum við vín sem er framleitt á staðnum. Malaspina Toscana Rosso frá því 2009. Þetta er vín að mestu gert úr Sangiovese þrúgum og svo 2% colorino. Þetta er fallega rautt vín með miklu ávaxtabragði og kirsuberjatónum. Fæst því miður ekki á Íslandi. 



Kjúklingurinn heppnaðist fullkomlega. Rósmarínkeimurinn smitaðist í hvern bita! 

Tími til að njóta! 





No comments:

Post a Comment