Sunday 18 August 2013

Nýjar kartöflur úr garðinum steiktar í andafitu og rósmaríni

Ég er með lítinn kálgarð í bakgarðinum mínum. Hann er ekki stór - kannski sjö til átta fermetrar. Á þessum litla reit hef ég síðustu þrjú til fjögur árin ræktað nokkrar tegundir af kartöflum og líka salat. Mér finnst eitthvað sérstaklega huggulegt við að rölta útí garð og tína upp nokkur salatlauf í salatið og toga upp tvö til þrjú kartöflugrös og sækja splunkunýjar kartöflur. 

Ég hef verið að rækta nokkrar tegundir af kartöflum - núna er ég með aspas-kartöflur, möndlu- og svo fjólublátt afbrigði sem mér finnst nokkuð spennandi. Að þessu sinni sótti í möndlukartöflur. 


Nýjar kartöflur úr garðinum steiktar í andafitu og rósmaríni

Hráefnalisti

1 kg kartöflur
3 msk andafita
Handfylli rósmarín
Salt og pipar

Þetta er á mörkunum að vera uppskrift. En hvað sem þeim vangaveltum líður þá er þetta afbragðs leið til að elda kartöflur. Þetta er heldur ekki svo langt frá uppskrift sem ég birti fyrir nokkrum misserum síðan - Hin fullkomna ofnsteikta kartafla. 


Fyrsta skrefið var að skjótast út í garð að sækja kartöflur. Lítið mál. Þær voru skolaðar. Sumar kartöflurnar voru með svona bletti á hýðinu. Mér segir svo hugur að þetta sé einhverslags sveppasýking í hýðinu. En það ætti ekki að koma að sök - einhverjar aðrar kenningar?


Ég pantaði nýlega fitu á netinu. Fann á Amazon bæði anda og gæsafitu og pantaði nokkrar krukkur. Ekki slæm kaup verð ég að segja. Og fátt er betra en að steikja kartöflur upp úr andafitu!


Byrjaði á því að forsjóða kartöflurnar í sex mínútur í söltuðu vatni. Vatninu var síðan hellt frá. Setti tvær til þrjár kúfaðar matskeiðar af andafitu sem ég setti í ofnskúffu og setti yfir eldinn þannig að fitan bráðnaði alveg.


Setti svo kartöflurnar útí. Saltaði og pipraði og setti eina matskeið af fersku rósmaríni. Steikti í nokkrar mínútur. Setti svo inn í 180 gráðu heitan ofn og bakaði í þrjú korter.


Setti svo smáræði af sjávarsalti til viðbótar!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment