Saturday 10 August 2013

Peposo - kraftmikil nautakássa að hætti Toskanabúa


Eins og fram kom í síðustu færslu þá vorum við á ferðalagi um Ítalíu í síðustu viku. Fyrsta kvöldið í húsinu stóð til að elda veislumáltíð en við komum svo seint heim úr verslunarferðinni að í staðinn var ákveðið að slá þessu upp í kæruleysi og snæða á veitingahúsinu - Osteria di Starda - sem er einnig á landareigninni.

Þar fékk ég tvo rétti ljúffenga rétti sem ég á lengi eftir að minnast! Ég var svo hrifinn af þessum réttum að ég smellti myndum af þeim og skellti á Facebook síðuna mína. Nokkrir lesendur skoruðu á mig að koma með uppskrift af þessari nautakássu! Þegar heim var komið var því lítið annað að gera en að verða við þeirri bón.

Til eru tvær útgáfur af þessum einfalda rétti, með og án tómata. Þessi réttur er ennþá vinsæll í Toskana - í bænum Impruneta, smábæ sem liggur nokkra kílómetra suður af Flórens, er meira að segja haldin árlega hátið til heiðurs þessum ljúffenga en kraftmikla rétti. Þessi réttur er frábrugðinn mörgum öðrum kássum af því að hann inniheldur ekki hið hefðbundna soffrito sem leggur grunninn að flestum langelduðum réttum (soffrito er laukur, hvítlaukur, sellerí steikt í olíu - svipað mirepoix í franskri matargerð). Einnig er ekki vaninn að brúna kjötið á undan. Eins og ég nefndi áður var upprunalega uppskriftin gerð án tómata - en eftir fimmtándu öld þegar tómatar höfðu hafið innreið sína til Evrópu frá Suður Ameríku - fóru Toskanabúar að bæta þeim við í uppskriftina, og varla var það til vansa.

Ég bregð aðeins útaf hefðinni og brúna kjötið lítillega í minni útgáfu þar sem það eykur kraftinn og bragðdýptina af matnum, sem og að ég bæti lárviðarlaufum - sem gefur afar góðan keim þegar réttir eru langeldaðir!

Peposo - kraftmikill nautakássa að hætti Toskanabúa 


Hráefnalisti

1 hvítlaukur
20 gr piparkorn
3 lárviðarlauf
1,5 kg nautaframpartur
2-3 msk jómfrúarolía
500 gr kirsuberjatómatar
1 l rauðvín
Salt og pipar

Meðlæti

1 eggaldin
1 kúrbítur
150 gr hallumi ostur
Handfylli af kalamata ólífum


Þau eru ekki mörg hráefnin í þessari ljúffengu kássu.


Nóg af heilum piparkornum - annars væri þetta ekki Peposo!


Heill hvítlaukur er skorinn í grófa bita. 


1,5 kg feitur nautaframpartur er skorinn í heldur stóra bita og brúnaður í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu.

Einn heill hvítlaukur er skorinn gróft niður og bætt útí pottinn ásamt þremur lárviðarlaufum.


Fullt af fallegum kirsuberjatómötum - 500 gr eru sett saman við ásamt þremur lárviðarlaufum.


20 gr af piparkornum er bætt saman.



Að lokum er einum lítra af rauðvíni bætt við - helst Chianti - en ég notaði bara vín úr búkollu. Saltaði rækilega - með eins og einni matskeið af salti.



Falleg mynd af kássunni.


Þegar suðan var komin upp var lokið sett á og potturinn færður inn í ofn þar sem hann fékk að dvelja við 160 gráðu hita í 5 klukkustundir.


Og úr varð dásamleg ilmrík og bragðgóð kássa.


Ég skar síðan niður einn kúrbít og eitt eggaldin og steikti í jómfrúarolíu. Saltaði og pipraði. 

Færði yfir í eldfast mót og bætti 150 gr af niðurskornum halloumi osti saman við (fetaostur hefði líka gert gagn) og svo handfylli af góðum kalamataólífum.

Bakaði í ofni í 20 mínútur við 180 gráðu hita.


Með matnum drukkum við ítalskt rauðvín - að sjálfsögðu. Vín sem við höfðum haft með okkur frá Ítalíu. Um var að ræða Valiano Chianti Classico frá því árið 2009. Þetta er ljómandi gott rauðvín sem er fallega rúbínrautt að lit. Góð fylling á tungu - heldur þurrt eins og mörg Chianti vín með ágætum tannínum og góðum berjabragði. Eikað vín.  


Frábær matur! Og ég hvet ykkur til að prófa þessa einföldu kássu.

Tími til að njóta!

2 comments:

  1. Prófaði þessa með svínakjöti og fannst of mikill vökvi í henni, hefði látið duga 1-2 glös af rauðvíni. Mér fannst hún heldur ekki alveg nógu
    bragðmikil, vantaði svolítið kikk í hana.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Nanna

      Vökvinn hjá mér sauð niður um rúman helming og varð að heldur þykku soði sem ég notaði sem sósu! Soðið má síðan þykkja eða sjóða niður enn frekar eftir að kjötinu hefur verið lyft úr pottinum.
      Ég notaði pipar frá Sri Lanka - Fair Trade - og hann reif í eins og ég veit ekki hvað!

      Vona að þér gangi betur næst!

      mbk,
      Ragnar

      Delete