Tuesday 30 July 2013

Fiskiveisla í Lækjarkoti; humar, blálanga og klaustursbleikja - ég elska íslenskan fisk!


Á meðan við vorum á Íslandi síðastliðna viku dvöldumst við lengst af í Lækjarkoti í Kjósinni.. Þessi staður er mitt uppáhald á Íslandi! Foreldrar mínir, Ingvar og Lilja, keyptu þetta hús 2001 og hafa síðan þá nostrað við það og gert það dásamlegt. Fyrst var húsið 35 fm en á síðastliðnum árum hefur bæst við miðhús, nýja hús, heitur pottur og núna seinast gufubað. Hjónakornin deila með sér verkum, mamma sér um það mesta að innan og faðir minn sér um allt að utan. Þarna eiga allir sitt fleti og þarna deilum við saman okkar bestu stundum.

Ég hafði komið við í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - og spjallaði þar við Steingrím fisksala. Ég gekk þaðan út með dásamlegan humar, löngu og klaustursbleikju. Það varð því auðséð að úr ætti að fiskiveisla á grillinu.


Þessir kátu frændur sáu um að gera salatið. Og voru ekkert smá stoltir!

Fiskiveisla í Lækjarkoti; humar, blálanga og klaustursbleikja - ég elska íslenskan fisk!

Þegar unnið er með gott hráefni þarf lítið að hafa fyrir hlutunum. Það á sérstaklega við sjávarfang!
Fátt er betra en ferskur íslenskur fiskur - og hans sakna ég mikið í Svíþjóð.


Valdís var liðtæk að hjálpa mér í eldhúsinu. Ég kenndi henni að opna humarinn og leggja hann ofan á skelina eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan.


Og þetta er afar einfaldur humarréttur - bara pensla humarinn með hvítlauksolíu. Salta og pipra og svo setja nokkrar smjörklípur ofan á. Grilla á blússheitu grilli í nokkrar mínútur. Bera svo fram með ristuðu brauði og einfaldri hvítlaukssósu. Ein dós af sýrðum rjóma og svo tvö til þrjú smátt hökkuð hvítlauksrif, salt og pipar og ein matskeið af hlynsírópi. Ekki væri til vansa að setja smátt saxaða steinselju með.


Svo grillaði ég líka þessa ljúffengu Klaustursbleikju á grillinu. Fyrst skar ég niður einn gulan lauk, tvær gulrætur, tvö hvítlauksrif og eina púrru í sneiðar og steikti í tveimur matskeiðum af smjöri. Saltaði vel og pipraði.


Síðan lagði ég bleikjuna ofan á og saltaði og pipraði. Að lokum fór svo eitt glas af hvítvíni með grænmetinu og sauð upp og gufusauð bleikjuna. Ljúffengt. 


Þrátt fyrir að hafa bæði humar (sem ég elska) og svo ljúffenga bleikjuna þá var þessi ofureinfaldi réttur sigurvegari kvöldsins. Fyrst var blálöngunni velt upp úr bragðbættu hveiti. Setti bolla af hveiti í skál, matskeið af papríkudufti, salti og pipar og blandaði saman. Velti svo fiskinum upp úr þessu og dustaði af. Bræddi síðan matskeið af smjöri á pönnu og steikti fiskinn á báðum hliðum. Setti síðan 30 ml af hvítvíni - sauð upp og svo 150 ml af rjóma á pönnuna og hitaði af suðu. Rjóminn þykknaði (vegna hveitisins) og myndaði þessa ljúffengu sósu.


Dásamlegur humar.


Ljúffeng blálanga.


Og svo gómsæta bleikjan. 




Með matnum fengum við okkur Beringer Napa Valley Sauvignion Blanc frá 2010 - sem ég smakkaði síðast í haust um það leyti sem litlan mín, Ragnhildur Lára, var nýfædd. Ljúffengt vín. Þetta vín er gert úr Sauvignion Blanc þrúgunni og hefur fengið ágæta dóma á Wine Spectator, um 85 púnta. Þetta er þurrt hvítvín með bragðmikið ávöxt sem er einnig létt eikaða tóna.

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment