Thursday 18 July 2013

Grilluð langa og eggaldin með gremolata og kraftmiklu salati að hætti Magga og Hafdísar

Það hefur verið nóg að gera síðastliðna daga eins og oft er þegar við komum til landsins. Það er fullbókað prógramm frá morgni til kvölds á meðan við erum í bænum að hitta vini og ættingja. Við erum vön að hefja daginn á því að skella okkur í sund. Erum búinn að prófa allar laugarnar nær miðbænum - Laugardalslaugina, Sundhöllina og svo Vesturbæjarlaugina. Þó svo að þær tvær síðastnefndu séu gamaldags þá er alltaf jafn huggulegt að svamla þarna um. Sér í lagi í Sundhöllinni - það er einhvern veginn svo nostalgískt. Sennilega er það vegna þess að ég var alltaf á sundnámskeiðum þar á meðan ég var í grunnskóla.

Okkur var boðið til vinahjóna okkar, Magnúsar og Hafdísar. Þau hjónin eru nýflutt í Álfheimana í fallega íbúð með fallegri rauðri innréttingu í eldhúsinu sem mun vera frá því að húsið var byggt í lok sjötta áratugarins. Það er langt síðan við hittumst og því nóg að spjalla um.

Gremolata er blanda af kryddjurtum, sítrónuberki og hvítlauk og er ljúffengt meðlæti með löngu - en því fer fjarri að bara sé hægt að nota það á fisk. Gremolata er fyrirtak með flestum grilluðum mat en kannski er það best með osso buco þar sem það lyftir þeim rétti í hæstu hæðir.

Grilluð langa og eggaldin með gremolata og kraftmiklu salati að hætti Magga og Hafdísar

Hráefnalisti

Gremolata

Handfylli steinselja
1 hvítlauksrif
Börkur af heilli sítrónu

1 kg langa
Salt og pipar

Meðlæti - Eggaldin

3-4 eggaldin
Jómfrúarolía
Salt og pipar
Rauður chilli
Ferskar kryddjurtir

Þetta er einföld matseld - en þannig er besti maturinn. Þá reiðir maður sig á góð hráefni - nýveidda löngu og ferskar kryddjurtir (sem Hafdís og Maggi rækta sjálf) og þá getur niðurstaðan ekki verið annað en ljúffeng.


Langa er afbragðs matfiskur - og hentar sérlega vel á grillið þar sem hann er þéttur í sér og heldur sér vel við eldun. Ég var svo innblásin af þessum rétt að daginn eftir fór ég beint út í fiskbúðina á Sundlaugaveginum og verslaði meira sjávarfang sem ég ætla að elda í kvöld í bústaðnum. Greini betur frá því á næstu dögum! 


Maggi skar niður eggaldinið í sneiðar og saltaði. Við það dregur maður vökva úr eggaldininu og beiskjuna. Kokkar og mataráhugamenn deila þó um þetta. Sumir segja að beiskjan verði til við oxun þegar eggaldinið er skorið og því eigi að elda það strax og það hefur verið skorið í heitri olíu. Sumir segja að beiskjan komi þegar eggaldinið þroskast og þá sé hægt að greina það á svörtu kornunum (fræjunum) sem sjást þegar eggaldinið er skorið. Hvað sem þessum deilum líður þá geri ég alltaf eins og Maggi og salta eggaldinið og læt það svitna í 30 mínútur. Svo er vökvinn þurrkaður burt og það eldað að vild. 

Magnús penslaði eggaldinið með olíu og saltaði og pipraði og grillaði á funheitu grilli. 


Langan var skorin í bita, pensluð með gremolata og svo grilluð þangað til elduð í gegn. Gremolata er einfalt að útbúa; Það þarf bara að saxa niður eina handfylli af steinselju, eitt hvítlauksrif og börk af heilli sítrónu og hræra vel saman. Einfalt, ekki satt?


Sett á fallegt bretti og svo meira gremolata bætt á. 


Loks var eggaldinu raðað með á brettið, ferskum kryddjurtum og ferskum smátt skornum chilli stráð yfir.



Við nutum hvítvíns með sem hefur verið lengi í uppáhaldi hjá mér. Náði mér í það í Fríhöfninni á leiðinni til landsins. Þetta er ástralskt hvítvín frá því 2010 og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ávöxtum, þykkt og smjörkennt og frískandi á tungu.

Með matnum var borið fram ferskt salat sem Magnús og Hafdís rækta sjálf á lítilli spildu í Laugardalnum.

Takk fyrir okkur Magnús og Hafdís!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment