Friday 19 July 2013

Chablis kjúklingur á grillinu í LækjarkotiÞetta er einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttum og hef ég eldað hann oft upp á síðkastið. Hann er sérlega ljúffengur. Og ætli það sé ekki vegna þess að ég held að þetta sé mín eigin "orginal hugmynd". Ég gerði hann fyrst þegar við vorum í húsbílaferð um Frakkland haustið 2010. Þá leigðum við forlátan húsbíl og fjölskyldan, ásamt bróður mínum, lagði land (réttara sagt hjól) undir fót. Við ókum um Bruges í Hollandi, síðan til Champagne héraðs, þá til Búrgúndar, til Júra og svo Sviss og loks tilbaka í gegnum Alsace. Dásamleg ferð. Hægt er að sjá upprunalegu færsluna hérna.

Eitt kvöldið dvöldum við á vínekru Jean Marc Brochard rétt utan við Chablis. Um daginn höfðum við gert okkur ferð í bæinn og verslað sitt lítið af hverju - kjúkling, sýrðan rjóma og splunkunýjar kantarellur. Og úr varð þessi réttur.

Núna erum við stödd í sumarbústað foreldra minna við Meðalfellsvatnið - stemmingin ljúf og góð þrátt fyrir veðrið. Náðum meira að segja í smá sólarglætu á miðvikudaginn þegar við elduðum þennan frábæra rétt!Chablis kjúklingur á grillinu í Lækjarkoti


Hráefnalisti

3 heilir kjúklingar
Salt og pipar
3 msk jómfrúarolía
2 tsk hvítlaukskrydd
2 laukar
500 gr sveppir
100 gr smjör
250 ml hvítvín
3 dósir sýrður rjómi
4 msk Djion sinnep
Salt og pipar

Meðlæti - steiktar kartöflur

800 gr kartöflur
Salt og pipra
1 msk smjör
Kjúklingafita

Ég byrjaði á því að úrbeina þrjá kjúklinga. Lagði vængina til hliðar og notaði bara bringurnar og leggina. Velti þeim upp úr smá olíu, salt og pipar og svo hvítlaukskryddi.Skar svo tvo lauka í sneiðar, 500 gr af sveppum og steikti í 100 gr af smjöri. Saltaði og pipraði. 


Þegar sveppirnir voru vel karmelliseraðir voru þeir settir til hliðar og kjúklingurinn brúnaður.


Þegar hann var búinn að taka lit á öllum hliðum þá setti ég sveppina saman við og hitaði í gegn. Hellti svo yfir þetta 250 ml af hvítvíni og sauð upp. Þá setti ég þrjár dósir af sýrðum rjóma og 4 kúfaðar matskeiðar af Djion sinnepi útí. Þessu var öllu blandað vel saman og eldað á grillinu í 20 mínútur.


Með matnum vorum við með kartöflur í sneiðum, saltaðar og pipraðar og svo steiktar í smjöri og kjúklingafitunni þangað til fallega gullinbrúnar.Ég keypti þessa búkollu í Ríkinu á leiðinni út úr bænum. Þetta er uppáhalds hvítvínið hennar mömmu minnar. Þetta vín hef ég drukkið margoft áður - og kannski ekki svo skrítið þar sem það er ansi ljúffengt. Þetta er fallega sítrónugult vín með góðan ávaxtakeim.


Borið fram með góðu salati. Allir sáttir, saddir og glaðir!

Og jafnvel þó að Chablisvín hafi hvorki verið sett í réttinn né drukkið með honum, fór ég samt í huganum suður til Frakklands - til Chablis héraðs í Búrgúnd og rifjaði upp dásamlega kvöldið sem við áttum þar saman fjölskyldan!

Tími til að njóta.

No comments:

Post a Comment