Thursday 23 May 2019

Mývatn og Tungulending, Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumús



Ég vona að þið hafið haft gaman af því að horfa á sjónvarpsþáttinn okkar. Við erum sannarlega stoltir af honum.

Þessar uppskriftir eru til viðmiðunar. Þeir sem fylgdust með þættinum tóku líklega eftir því að nákvæm mál voru aldrei notuð – heldur var farið meira eftir tilfinningu – og svo giskað á hversu mikið var notað.



Ég er þó nokkuð sannfærður um að ef farið verður eftir þessum uppskriftum sem hér fylgja verði úr einstaklega ljúffengar máltíðir.

Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumús

Hérna koma svo uppskriftirnar;

Gufusoðinn silungur á beði af stúfuðu spínati með snöggpæklaðri agúrku

Að elda í hver er auðvitað ekki á hvers manns færi. En fyrir þá sem eiga gufuofn er auðvitað leikur einn að herma eftir uppskriftinni. En íslensk bleikja verður ekkert síðri við að vera bökuð í heitum bakarofni. Sannið bara til.

Hráefni fyrir 4

Tvö silungsflök
1 sítróna
handfylli blandaðar kryddjurtir
50 g smjör
salt og pipar

150 g spínat
½ laukur
100 ml hvítvín
2 hvítlauksrif
skvetta af hvítvíni
50 g smjör
150 ml rjómi
handfylli ferskar kryddjurtir
skvetta sítrónusafi
salt og pipar

½ agúrka
100 ml hvítvínsedik
safi úr einni sítrónu
1 msk salt
1 msk sykur
pipar

500 g kartöflur
100 g smjör
salt og pipar
handfylli steinselja

Aðferð

1. Skerið agúrkuna í helminga og kjarnhreinsið. Skerið hana því næst í þunna strimla og leggið í skál.
2. Hellið edikinu yfir ásamt sítrónusafanum.
3. Blandið sykrinum, saltinu og piparnum saman við og látið standa í klukkustund til að mýkast.
4. Skerið sítrónu í sneiðar og leggið í ofnskúffu og leggið silungsflakið ofan á. Setjið handfylli af kryddjurtum undir flakið. Saltið og piprið, sáldrið afgangnum af kryddjurtunum ofan á.
5. Bakið í 200 gráður heitum ofni í 15 mínútur.
6. Til að útbúa spínatið byrjið þið á því að skera laukinn og hvítlaukinn og steikið upp úr heitu smjöri. Bætið víninu á pönnuna og látið sjóða upp og svo niður um helming.
7. Bætið næst við spínatinu og látið það visna á pönnunni um rúman helming áður en þið hellið rjómanum saman við.
8. Bætið kryddjurtum á pönnuna, salti og pipar og smá sítrónusafa og látið sjóða niður um helming.
9. Kartöflurnar eru soðnar á hefðbundinn hátt, velt upp úr bráðnu smjöri og kryddjurtum. Saltið og piprið.



Mývetnsk snitta

Kannski er rangt að kalla þetta snittu. Stærðin bendir heldur til þess að þetta sé opin samloka. Mér fannst þessi snitta einstaklega ljúffeng. Steinunn, móðir hans Antons, ráðlagði mér að skynsamlegra væri að skera brauðið aðeins þynnra. Næst held ég að ég geri það – hún veit, jú, hvað hún er að tala um. Svo er varla hægt að vera að tala um eldamennsku þegar maður þegar um það eitt er að ræða að raða áleggi ofan á brauð. En eggin voru, jú, elduð, þannig að það telst kannski með.

2 þykkar sneiðar gufusoðið rúgbrauð frá Mývatni
10 sneiðar af þunnt skorinni Mývatnsbleikju
3 andaregg
¼ rauðlaukur
2 msk sýrður rjómi
ferskt steinselja til skreytingar
ný ætihvönn (val)
salt og pipar

1. Brjótið eggin í skál, saltið og piprið, og þeytið saman með gaffli.
2. Steikið eggjakökuna upp úr smjöri, veltið henni á pönnunni þannig að hún verði um centimetri að þykkt. Setjið til hliðar og látið kólna.
3. Smyrjið rúgbrauðið með smjöri.
4. Leggið eggjakökuna ofan á og raðið því næst þunnt skornum silungi ofan á eggjakökuna.
5. Setjið sýrðan rjóma, smátt skorin rauðlauk, steinselju og ætihvönn (sé hún fyrir hendi).



Bryggjubollur úr kindahakki með kartöflu- og rófumús

Ég hef lengi velt vöngum yfir því af hverju þjóð sem hefur dregið fram lífið með því að ala upp sauðfé eigi ekki hafsjó af uppskriftum úr hökkuðu lambakjöti. En það er þá í okkar valdi að búa til nýjar “klassískar” uppskriftir. Eins og þessa.

Fyrir 6-8

Fyrir bollurnar

1 kg kindahakk
5-6 hafrakex
100 ml rjómi
1 msk kryddblanda að eigin vali
handfylli ferskar kryddjurtir – timjan, rósmarín, steinselja
1 tsk þurrkað blóðberg
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
2 andareggjarauður
salt og pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

250 g portobello sveppir
3 hvítlauksrif
½ hvítur laukur
1 glas rauðvín (eftir smekk)
1 msk tómatmauk
1 msk djion
salt og pipar

Fyrir kartöflu- og rófumúsina

1 kg kartöflur
1 rófa
200 g smjör
4 msk rjómaostur
salt og pipar

1. Brjótið kexið niður og bleytið upp í því með rjómanum.
2. Setjið allt hráefnið í kindabolluuppskriftinni saman í skál og blandið vel saman.
3. Hnoðið í bollur á stærð við golfbolta. Það er gott að olíubera hendurnar til að deigið klístrist ekki við mann.
4. Steikið bollurnar þangað til að þær eru brúnar að utan og takið svo til hliðar.
5. Skerið hvítlaukinn, laukinn og sveppina niður og steikið á sömu pönnu.
6. Fyrir þá sem vilja kraftmeiri sósu er um að gera að bæta rauðvíni á pönnuna. Og sjóða það niður um helming.
7. Bætið svo sýrða rjómanum á pönnuna, ásamt tómatmauki, djionsinnepi, salti og pipar. Tyllið svo bollunum ofan í sósuna til að elda þær í gegn.

Fyrir músina

1. Flysjið og sjóðið kartöflur og rófu.
2. Hellið vatninu frá og stappið svo smjör, rjómaost saman við vandlega.
3. Blandið rjómanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.


Sérstakar þakkir við gerð þessara þátta fá eftirfarandi:

Anton Birgisson
Steinunn Ósk Stefánsdótti
Birgir V Hauksson
Sveitahótelið á Skútustöðum
Egill Sigurðsson
Kokka
Land Rover á Íslandi
Sölufélag Garðyrkjubænda
Sláturfélag Suðurlands

Einlægar þakkir, 
Ragnar

No comments:

Post a Comment