Tuesday 19 February 2013

Ljúffengir ostborgarar með truffluaoli og tartiflette kartöflum


Það hefur verið ládeyða á blogginu mínu og á Facebook síðunni minni síðastliðna vikuna og á því eru fullkomlega löglegar skýringar. Við fórum núna fyrir helgina suður til Austurríkis í okkar árlegu Alpaferð. Þetta er í sjötta sinn þar sem við tökum hús hjá Dodda og Þurý á Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau héraði rétt sunnan við Salzburg. Við fórum hingað í fyrsta sinn á því herrans ári 2007 - þá þegar við Íslendingar trúðum ennþá að við værum snillingar og ættum nóg af peningum! Ég man að evran kostaði um 80 krónur og mikið djöfull fannst manni við vera efnuð, þó að ég hafi bara verið aðstoðarlæknir á þeim tíma! Þetta var dásamleg ferð - við hjónin lærðum að skíða eftir áralangt hlé - ferðin var svo góð að við höfum komið hingað aftur og aftur, á sama staðinn og í sama herbergið. Hérna höfum við alltaf verið sérstaklega ánægð og notið gestrisninnar sem hérna er veitt!

Maturinn sem er í blogginu tengist þó Ölpunum ekkert - ekki nema að maturinn var orkuríkur með eindæmum eins og tíðkast í Ölpunum. Maður þarf að vera duglegur í brekkunum til að geta þolað viku af tírólamat og alpabjór. Þetta er full vinna - frábær vinna.

Bróðir minn fékk gefins trufflur frá Umbriu héraði í Ítalíu nýverið og við höfum upp á síðkastið verið að skipuleggja hvernig best væri að nota þær. Þessi réttur var einn af niðurstöðunum. Við gerðum líka risotto með villisveppum og trufflum, spaghetti með trufflueggjum og svo Tornados Rossini, sem er sennilega mest "decadent" matur sem ég hef eldað síðastliðin misseri - hvítlaukssteikt brauð, smjörsteikur biti af nautalund, steikt foie gras, sneiddar trufflur og svo madeira sósa... geðveikt!

Ljúffengir ostborgarar með truffluaoli og tartiflette kartöflum

Sumir myndu kannski segja að það að nota trufflur á hamborgara sé eins og að setja varalit á svín en hamborgarar eru auðvitað herramanns matur sé gott hráefni valið. Skyndibitastaðir hafa margir dregið hamborgarann niður í svaðið!



En meðlætið var svo eiginlega líka aðalréttur. Hugmyndin að þessum er fengin frá Rachel Khoo sem var nýverið með sjónvarpsþætti á RÚV sem voru alveg ljómandi góðir. Hún mælir með því að nota Rauchoblon ost sem er frá frönsku ölpunum en hann fékkst ekki í ostabúðinni sem ég fór í (og þar með fóru tengslin við Alpana fyrir róða) en ég fékk þennan ljómandi ost frá Alsace - Altesse sem var svona ljúffengur á bragðið.



Tartiflette er réttur þar sem maður rífur niður kartöflur og blandar beikoni, lauk, hvítlauk og svo þessum ljúffenga osti. Ég átti til þetta heimagerða beikon - hunangslegið og kaldreykt - alveg sérdælisljúffengt! Hægt er að lesa meira um beikongerð hérna


150 gr af beikoni var skorið niður í bita og steikt á pönnu ásamt heilum stórum niðurskornum rauðlauk, þremur hvítlauksrifjum og tveimur lárviðarlaufum.


Þegar laukurinn er farinn að glansa er 800 gr af rifnum kartöflum bætt á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur og um leið reynt að blanda vel saman við laukinn og beikonið. 

Því næst er ostinum bætt saman við, niðurskornum. Hrært vel saman - og fært yfir í muffinsofnskúffu. 


Hvert mót er barmafyllt og síðan sett inn í forhitaðan ofn - 180 gráður - og bakað þangað til gullinbrúnt.


Lyktin af þessum rétt er hreinlega tryllingslega góð! 


Nærmynd af þessari dásemd! Oft er einfaldleikinn það besta - beikon, laukur, kartöflur og ostur!!!



Bjuggum til 160 gramma hamborgara og steiktum á grillpönnum þangað til medium rare. Settum líka cheddarost, sem hafði fengið að þroskast í 12 mánuði, á borgarana.

Truffluaoli er auðvelt að gera. Auðvitað er hægt að gera aoli frá grunni - og slíkt er afar létt, djion, hvítlaukur, eggjarauða og svo olía! En við létum okkur 6 kúfaðar msk af Hellmans mayonaise og við það blandaði ég einni teskeið af kröftugri truffluolíu, salti & pipar og að lokum raspaði ég heila svarta trufflu saman við.



Síðan var ekkert annað en að raða hamborgaranum saman. Truffluaoli, salat, tómatur, hamborgari, smá sinnep, tómatsósa og svo meira aoili.


Með maturm drukkum við þetta rauðvin. Pata Negrasem  er Spánskt Tempranillo vín - dökkt og þykkt í glasi. Ilmar af dökkum berjum - smávegis tannín. Passaði ágætlega með öllum þessum heita mat. Gott eftirbragð.



Þessi hamborgari hefði getað unnið til verðlauna - og tartiflette kartöflurnar voru alveg frábærar. Þær hefðu alveg getað verið aðalréttur með góðu salati og góðri baguette!

Bon appetit!



3 comments:

  1. Myndi það drepa þig að setja myndir af fjölskyldumeðlimum í bland við þetta matarkjaftæði???

    ReplyDelete
  2. Mikið lítur þetta vel út. Hvað notarðu til að rífa kartöflurnar?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Hildur

      Ég notaði rifjárnstólið sem fylgir með magimix matvinnsluvélinni minni. En hvaða rifjárn sem er hefði dugað!

      mbk, Ragnar

      Delete