Saturday 7 July 2007

Pastasalat með ofnbökuðum kjúkling og hvítvínssteiktum sveppum

Næturvaktaseríu undanfarnar tvær vikur er lokið í bili. Lof sé ... Ég er reyndar að fara að vinna um helgina en dagvinna á einhvern veginn betur við mig heldur en nokkurn tíma næturvinna. Ég held að það eigi við um flesta. Næturvinna hentar bara örfáum - svona næturhröfnum - það verður alltaf hálfundarleg stemming á næturvöktum. Undir morgun er starfsfólkið oft orðið hálf galsakennt og þá er oft stutt í grínið og sömuleiðis stutt í pirringinn.

Mágkona mín, konan hennar, sonur þeirra og tengdapabbi komu í mat í kvöld. Kolbrún mágkona var búin að biðja sérstaklega um matinn sem var í boði í kvöld. Einhvern tíma - ætli það hafi ekki verið fyrir um ári síðan, þá um vetur - bauð ég þeim í mat og var með svona svipað pastasalat. Það var nokkuð frumlegt að ég held með kjúkling, kartöflum, rúsínum, ferskum kryddjurtum og svoleiðis. Heppnaðist vel og hún hefur verið að skora á mig að bjóða sér aftur í sama matinn. Mér fannst fyrri atrennan að þessum rétt vera full vetrarleg með kartöflunum, þannig að í þetta skiptið var reynt að gera þetta aðeins sumarlegra - eða allavega aðeins léttara - við átum samt öll yfir okkur.

Nigella Lawson, eldhúsgyðja með meiru, hefur einhvern tíma gert líkan rétt, þannig að hugmyndin er að einhverju leyti sótt til hennar - kannski þá ekki svo frumlegt hjá mér eftir allt saman. Ég man þó ekki í hvaða bók það var - gæti hafa verið How to eat. Eiginlega allt sem frá þeirri konu kemur er frábært. Svo skemmir ekki að það er gott að horfa á hana á sama tíma. Maður veit eiginlega ekki hvort maður er að slefa yfir henni eða matnum sem hún er að elda, það gildir einu!

Pastasalat með ofnbökuðum kjúklingi og hvítvínssteiktum sveppum

Fyrst var 1,5 kg ferskur kjúklingur þveginn og þurrkaður og svo lagður í eldfast mót. Svo var tveimur msk af jómfrúarolíu nuddað yfir haminn og fuglinn svo saltaður og pipraður. Smá þurrkuðu oregano og timian var svo sáldrað yfir. Bakaður í ofni við 180 gráður í sirka klukkustund eða þartil kjarnhiti er kominn í 84 gráður. Þegar kjúklingurinn er svo tekinn úr ofninum er heilmikið af olíukenndu soði í kringum fuglinn - mjög mikilvægt að henda þessu ekki. Kjötið af fuglinum er svo losað af beinunum og látið liggja í soðinu á meðan klárað er að setja réttinn saman.

Maður á eiginlega að vera byrjaður á eftirtöldum skrefum þegar kjúklingurinn kemur úr ofninum til að vera snöggur að raða réttinum saman. Ég held að það skipti máli.

Næst eru 250 gr af sveppum skornir í tvennt. Jómfrúarolíu og 1 muldum garlic noble (eins og eitt stórt kúlulaga hvítlauksrif) hitað á pönnu og þegar laukurinn er farinn að svitna er sveppunum bætt á pönnuna og steiktir í smástund. Þegar sveppirnir eru farnir að taka lit er hálfu til einu glasi af hvítvíni hellt út og soðið niður um tvo þriðju.

Ein handfylli af furuhnetum eru ristuð á þurri pönnu og þegar þær eru farnar að taka lit er handfylli af sultanas bætt á pönnuna og steikt aðeins áfram. Tekið af hitanum. Svo er 50 gr af parma osti raspað niður ásamt 30 gr af venjulegum goudaosti og lagt til hliðar. Heilt búnt af basil og hálft búnt af steinselju er skorið niður og lagt til hliðar.

700 gr af góðu pasta (ég notaði Rustichella d´abruzzo- sem er alltaf að verða sjaldséðara pasta í hillum verslanna - skandall!!!) er soðið skv. leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni þar til al dente. Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt frá og sett í skál - núna skiptir máli að hafa hraðar hendur á meðan pastað er funheitt - það mun soga í sig allt það góða bragð sem bætt er samanvið - kjúklingi, sveppunum, ferska kryddinu, ostinum, hnetunum og rúsínunum er blandað saman við og hrært vel saman. Látið standa í skamma stund áður en það er borið fram.

Borið fram með fersku salati; græn lauf, bláber, niðurskornir kirsuberjatómatar og mulin fetaostur lagt á flatan disk. Í lokin er nokkrum graskersfræjum sáldrað yfir. Einnig var heitt brauð með heimagerðu hvítlaukssmjöri.

Í desert var svo gerður samkvæmt pöntun creme brulée, ekki svo ólíkur og ég gerði fyrir nokkrum vikum síðan. Læt þá færslu með núna með smá breytingum.

Dásamlegur jarðaberja og bláberja creme brulée

Fyrst er ein og hálf vanillustöng klofin í tvennt og fræjunum skrapað út. Fræin og belgirnir er því næst sett í pott ásamt 600 ml af rjóma. Rjóminn er hitaður nærri því upp að suðu og svo er slökkt undir og rjómanum leyft að standa í 15 mínútur. Þá er vanillubelgurinn veiddur upp úr og hent. Svo er átta eggjarauðum og 80 gr af hvítum sykri blandað vel saman. Rjóminn er hitaður aftur og þegar hann er orðin vel heitur er honum hellt rólega saman við eggjablönduna. Hrært vel saman og svo er rjóma-eggja-sykur blöndunni hellt í gegnum sigti ofan í pottinn á nýjan leik. 150 gr af jarðaberjum eru þvegin og þurrkuð og svo skorin í fjórðunga. 100 gr af bláberjum eru einnig skoluð og þurrkuð. Þá er þeim raðað fallega í 8 lítil eldföst mót. Því næst er eggjablöndunni hellt varlega ofan. Eldföstu mótin eru sett í bakka og heitu vatni er hellt útí bakkann þannig að vatnið nái upp á miðju eldföstu mótanna.

Bakað í heitum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Þegar bruléeinn er bakaður er hann tekin úr ofninum og leyft að kólna rólega í vatnsbaðinu. Eldföstu mótin eru svo sett í ísskáp og leyft að kólna í 3-4 klukkustundir. Rétt áður en eftirrétturinn er borin fram er perlusykri stráð yfir bruléeinn og sykurinn svo bræddur með brennara.

 Bon appetit


No comments:

Post a Comment