Friday 13 July 2007

Fylltar kjúklingabringur vafðar beikoni með couscous og hvítlauksbrauði

Veðrið er þvílíkt - maður veit eiginlega ekki alveg hvað maður á að segja. Það er búið að vera bongóblíða í nærri tvær vikur. Þegar það er sumar, gott veður og hlýtt þá langar mann bara til að grilla og njóta lífsins. Einhvern veginn rímar hvítvín alltaf við sól og blíðu - og því kaldara því betra. Það er í raun fátt betra en að drekka kalt hvítvín í sólinni, setjast í mjúkan stól á svölunum og spá í spilinn meðan maður fylgist með matnum á grillinu.

Konan mín, Snædís, er að fljúga og bróðir minn kom og hélt mér félagsskap og borðaði með mér og börnunum. Það er alltaf gaman þegar að við erum að elda saman (þetta hljómar eins og kvæði úr grunnskóla) en bróðir minn er afar góður kokkur og kemur með frábærar hugmyndir. Ég hafði keypt fyrir nokkru kjúklingabringur sem ég hafði geymt í frysti og hef verið að spekúlera hvað ég ætti að gera við þær. Deginum áður hafði ég vaðið fyrir neðan mig og tók þær út úr frystinum til undirbúnings (það er nefnilega merkilegt hvað maður gleymir að nota þennan frysti).

Þegar ég átti afmæli - og varð 31 árs (fo%&$ng devistating hvað maður er að eldast) gáfu mamma og pabbi mér matreiðslubók eftir Lesley Waters sem heitir Healthy. Frábær bók og í henni er margar girnilegar uppskriftir. Ég held að það sé hægt að fá þessa bók í Kokku, einni dýrustu búð Íslands, ásamt mörgum öðrum frábærum vörum. Ég fíla flest við verslunina Kokku - gott úrval af öllu milli himins og jarðar sem áhugakokka gæti hugnast, nema verðið sem er algerlega yfirgengilegt ... yfirgengilegt! Nóg um Kokku ... í bókinni Healthy var uppskrift sem var ekkert svo ósvipaðri þeirri sem ég er að blogga hér. Það er ekki eins og þetta hafi verið hugmynd höfundar bókarinnar heldur - það er allt krökt af uppskriftum svipaðri þessari - þannig að segja má að þessi uppskrift sé komin úr nokkrum áttum.

Fylltar kjúklingabringur með couscous og hvítlauksbrauði

Fjórar kjúklingabringur eru þvegnar og þurrkaðar. Bringurnar eru svo "butterflied", þannig að þær eru skornar á þverveginn (þó ekki alveg í gegn) og opnaðar eins og bók. Svo er 1/2 dós af fetaosti í kryddolíu (frá Mjólku), 7-9 átta sólþurrkaðir tómatar og 1/3 búnt af basil skorið niður og blandað gróflega saman. Fetaosturinn/tómatarnir/basil blandað er þvínæst lögð ofan á kjúklingabókina og bókinni síðan lokað. Til að innsigla söguna er beikoni vafið utan um, svona 4-5 sneiðar utan um hverja bringu og hún svo skorðuð með nóg af tannstönglum. Grillað á heitu grilli þar til kjarnhiti var um 82 gráður.

Með matnum var couscous. Ég keypti lífrænt couscous sem var útbúið samkvæmt leiðbeiningum. Heimagert hvítlaukssmjör var hitað á pönnu og svo var couscousinu hellt útá og steikt um stund. Svo var niðurskorinni grænni papriku, gúrku og koríander bætt saman við og saltað aðeins og piprað - og svo steikt um stund.

Með matnum var svo salat; klettasalat, 10 kirsuberjatómatar helmingaðir, 1/4 niðursneiddur rauður laukur, ristaðar furuhnetur, nokkrar sultanas, safi úr hálfri sítrónu, smá jómfrúarolíu og svo salt og pipar. Einnig bjó ég til hvítlauksbrauð úr baguette sem ég keypti og skar niður og setti heimagert hvítlaukssmjör á milli. Brauðinu pakkaði ég inn í álpappír og grillaði á efri grind á sama tíma og ég grillaði kjúklinginn.

Með kjúklingnum ætlaði ég svo að hafa jógúrtsósu en sá í ísskápnum tilbúna sósu úr búð, með basil og hvítlauksbragði - alveg hreint ágæt. Máltíðin heppnaðist sérstaklega vel - kjúklingurinn alveg lungamjúkur.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment