Showing posts with label vanilla. Show all posts
Showing posts with label vanilla. Show all posts

Wednesday, 3 July 2019

Ótrúlega ljúffengur eftirréttur með íslenskum berjum, vanillubættum rjóma og pekankarmellumulningi


Þetta er meiriháttar eftirréttur - og gerist eiginlega ekki sumarlegri. Ég verð þó eiginlega að játa að þessi uppskrift er aðeins meira en bara innblásin af annarri uppskrift - hún er næstum því stolin. Ég reyndi þó að breyta nokkrum smáatriðum til að reyna að gera hana að minni.

Ég hef undanfarið verið að horfa á þættina The Chef Show þar sem Jon Favreau (leikari og leikstjóri) fer með aðalhlutverkið ásamt kokkinum Roy Choi þar sem þeir endurgera marga rétti úr bíómyndinni Chef sem kom út árið 2014 og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar leikur hann kokkinn Carl Caspar sem endurvekur feril sinn með því að reka Food Truck ásamt syni sínum og vini. Þessi mynd ber þess glögglega merki að fagmenn í eldhúsinu eru á bakvið tjöldin en kokkurinn Roy þjálfaði Jon í eldhúsinu svo að aðferðir hans og matur bæri fagmannlegan blæ. Og það gerir hann svo sannarlega.

Myndin er full af dásamlega girnilegum mat - meðal annars eftirrétti sem þessi er byggður á.

Ótrúlega ljúffengur eftirréttur með íslenskum berjum, vanillubættum rjóma og pekankarmellumulningi

2 box af jarðaberjum
2 box af hindberjum
2 box af brómberjum
handfylli af bláberjum
2 msk sykur
2 dl Grand Marnier
250 ml rjómi
1 msk sykur
2 tsk vanilludropar
100 g sykur
15 pekanhnetur
mynta til skreytingar



Byrjið á því að útbúa sykurbráðina. Hellið sykrinum á þurra pönnu og hitið upp. Sykurinn fer að leysast upp í jöðrunum fyrst og þá er hann dreginn inn að miðju. Þegar sykurinn er bráðinn er hnetunum bætt saman við og sykurinn látinn brúnast lítillega. Þá er sykurhnetubráðinni hellt í ofnskúffu og látin kólna og við það harðnar hún og verður eins og gler.


Þá er hún mölvuð niður og sett í matvinnsluvél og tætt niður.


Hún er tætt niður þangað til að hún er orðin að fínni mylsnu.


Næst er að huga að berjunum. Skolið þau undir köldu vatni og setjð í skál.


Sjáið þessa dásamlega fallegu liti. Það gleður mann einstaklega að vinna með svona fallegt hráefni. Berin voru öll í heilu lagi, nema jarðaberin sem ég sneiddi í þrjár sneiðar. 


Ég bætti sykri við berin og einum sjúss af Grand Marnier. Grand Marnier er ljúffengur og sætur appelsínulíkjör. Vilji maður sleppa áfenginu mætti nota skvettu af appelsínusafa og börkinn af hálfri appelsínu - smátt saxaðri.


Ég handþeytti rjómann og bætti við smá sykri og vanilludropum og þeytti áfram þangað til að rjóminn var eins og mjúkir koddar. Tyllti svo kúfaðri matskeið í hverja skál.


Sáldraði að lokum sykur- og pekanmylsnunni yfir. Og skreytti svo með myntulaufi.



Þetta var geggjaður eftirréttir - og allt var borðað upp til agna. 

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 30 December 2017

Dásemd allra eftirrétta - klassískur cremé brulée sous vide!


Mér skilst að bæst hafi mjög ríkulega í hóp sous vide eldandi kokka núna um jólin. Samkvæmt fréttum munu þúsundir Íslendinga hafa fengið sous vide hitajafnara í jólagjöf, af ólíkum gerðum.  Og það finnst mér virkilega skemmtilegt - sér í lagi þar sem þessi eldamennska er afar aðgengileg og auðvelt að slá í gegn í eldhúsinu með þessari aðferð. 

Mörgum hugnast hún þó ekki. Og það er að vissu leyti skiljanlegt - það er auðvitað ekkert voðalega "sexí" að elda mat í plastpokum. Sértaklega þegar við erum að reyna að draga úr plastnotkun eins og framast er kostur. Þá er ágætt að benda á að til eru fjölnota sílikonpokar sem hægt er að nota aftur og aftur frá fyrirtækjum eins og stasher bags

Sumir hafa kallað þessa eldunaraðferð - plastsuðu - en það orð hugnast mér engan veginn og lýsir ákveðinni fáfræði um hvað sous vide eldamennska snýst. Engin eiginleg suða á sér stað. Eldamennskan fer fram í vatnsbaði þar sem heitt vatn leiðir varmann inn í hráefnið og eldar það upp að hita vatnsbaðsins. Ég var í útvarpsviðtali í gær þar sem þessi aðferð var skýrð nánar - spjallið við mig byrjar á 56 mínútu, sjá hérna

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa eldunaraðferð má lesa hérna, og svo má auðvitað ganga í hóp sous vidara á Íslandi

Dásemd allra eftirrétta - klassískur cremé brulée sous vide!

Þeir sem enn hafa efasemdir um sous vide ættu að prófa þennan eftirrétt - en hann er guðdómlegur með þessari aðferð. 

Fyrir fjóra

300 ml rjómi
1-2 vanillustangir
100 g sykur
8 eggjarauður
1-2 msk perlusykur


SSetjið rjómann og sykurinn í skál og blandið varlega saman. Færið í pott.


Kljúfið vanillustöngina eftir miðjunni og skafið út vanillufræin og setjið saman við rjómann ásamt vanillinustönginni. Hitið rjómann að suðu og slökkvið þá undir og látið standa í 10 mínútur til að rjóminn hafi tækifæri til að soga upp allt bragðið af vanillufræjunum.

Brjótið eggin og skiljið rauðurnar frá og setjið í skál og hrærið sykurinn saman við. Blandið rjómablöndunni varlega saman við eggin. Blandið vel saman og hellið svo blöndunni í vakúmpoka. Innsiglið. 



Eldið í vatnsbaði við 82,5 gráðu í 30 mínútur. Þegar 15 mínútur eru liðnar takið þið pokann úr baðinu og hristið til að blanda eggjunum vandlega. Eldið áfram í 15 mínútur.



Hellið blöndunni í mót og kælið í 4-8 stundir.


Stráið perlusykri yfir mótin og brennið svo með gasbrennara þangað til að sykurinn bráðnar. Látið sykurinn harðna og njótið.



Niðurstaðan mun verða dásamlega falleg.


Svo er bara að ná sér í skeið og njóta besta cremé brulée sem þið hafið nokkru sinni gætt ykkur á - einfaldara gætið það ekki verið! 



Ég leyfi mér að setja þessa færslu hér aftur - en ég birti svipaða uppskrift fyrir ári þar sem ég elda cremé brulée með þessum hætti og sló algerlega í gegn! 

Tuesday, 6 June 2017

Seiðandi vanillupannacotta með íslensku jarðaberjacoulis og ferskum jarðarberjum


Það er ekki á hverjum degi sem ég blogga um eftirrétti eða sætmeti. Ég verð eiginlega að viðurkenna að það kemur heldur sjaldan fyrir að ég bjóði upp á eftirrétti. Yfirleitt upplifi ég að það sé hreinlega nóg að bera fram forrétt og aðalrétt þegar maður er með gesti í mat. En það eru ekki allir sammála því - og stundum brýt ég út af vananum.

Og þá finnst mér best að gera klassíska eftirrétti; pavlovu, creme brulée, sabayon, eplaköku með vanilluís, heimagerðan ís, perur Helenu fögru - eða eitthvað eins og í þessum dúr - Pannacotta.
Þetta er lygilega einfaldur eftirréttur - sem er hreint út sagt ótrúlega ljúffengur!

Hann byggir auðvitað á einföldum hráefnum - sem verða að vera í toppformi. Auk rjómans sem er auðvitað í forgrunni skiptir máli að nota góða vanillu - þá bestu fær maður í Krydd og tehúsinu í Þverholtinu - kraftmikil og ljúffeng, pökkuð af bragði.

Seiðandi vanillupannacotta með íslensku jarðaberjacoulis og ferskum jarðarberjum

Þetta er ítalskur eftirréttur eins og nafnið gefur til kynna, en það fór ekki að bera á þessum rétti í matreiðslubókum á Ítalíu fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Eitthvað þessu líkt var þó eldað löngu fyrr en þá undir öðru nafni, Latte Inglese. Þessi uppskrift á rætur að rekja til Piedmonte héraðs og er þar skráð sem einn af þeim réttum sem einkenna svæðið.

Fyrir sex

Fyrir pannacotta

5 dl rjómi
3 dl nýmjólk
100 g sykur
5 gelatínblöð
1 stór vanillustöng

Fyrir jarðaberjacoulis

700 g jarðaber
1/2 krukka ósæt jarðarberjasulta
100 ml vatn


Byrjið á því að leggja gelatínblöðin í kalt vatn í nokkrar mínútur svo þau verði mjúk. 


Hellið rjómanum í pott ásamt nýmjólkinni og hitið.


Næst er að kljúfa vanillustöngina og hreinsa út fræin. Setjið þau saman við rjómann og mjólkina og hrærið vel.


Það er ágætt að setja sjálfa vanillustöngina með, einnig á meðan rjóminn er hitaður þar sem það gefur aukið bragð.


Hitið að suðu, lækkið undir og látið standa í nokkrar mínútur til að vanillan bragðbæti rjómann eins mikið og unnt er.


Hrærið svo gelatínplötunum saman við þannig að þær leysist alveg upp í vanillurjómanum.


Látið svo kólna í smástund og hellið svo yfir í mót eða glös. Setjið í kæli í 4 klukkustundir svo að búðingurinn nái að stífna. 


Næst eru það jarðarberin. Skolið þau, skerið laufin af, saxið gróflega og setjið í pott með vatninu. Hleypið upp suðunni.


Bætið sultunni saman við og og sjóðið niður (í 20-30 mínútur við lágan hita) þannig að úr verði þykkur grautur. Látið kólna aðeins og hellið honum svo í gegnum sigti þannig.


Þá eruð þið búin að útbúa coulis sem má í raun nota í hvað sem er. Með skeið setjið þið coulisinn varlega ofan á stífann búðinginn.


Svo er bara að skreyta með sneiddu jarðarberi og njóta.

Njóta fram í fingurgóma.

Bon appetit!