Wednesday 19 September 2012

Kröftugur Coq au vin með baguettu, hrísgrjónum og rauðvínssopa


Þetta er einn af þessum klassísku réttum sem allir áhugakokkar ættu einhvern tímann að prófa. Þessi réttur er af sama kalíber og Beuf Borgnioun - og þegar maður les í gegnum uppskriftir eru þær mjög keimlíkar hverri annarri. En þetta er ein af þessum grand kássum sem er nauðsynlegt að reyna við. Og það er ekki flókið - en við svona uppskriftir þarf alltaf að gefa sér góðan tíma. 


Sögur herma að þessi uppskrift muni eiga rætur að rekja til Júlíusar Sesars keisara í Róm þegar hann sigraði Gaulverja. Hinir sigruðu Gaulverjar munu hafa gefið keisaranum seigan afdankaðan hana sem "þakklætisvott"! Og kokkar Sesars fundu upp þessa uppskrift. Fyrsta skráða uppskriftin af þessum rétti er frá 1864 frá Búrgúnd í Frakklandi og síðan þá hafa margar aðrar uppskriftir dúkkað upp - Coq au riesling, au champagne og svo framvegis. 


Einu vandræðin við að gera þessa uppskrift er að nálgast hráefnin sem á að nota, eitt stykki hana - og helst á hann að vera gamall! Ég fann þennan á tilboði í ICA búðinni minni fyrir helgina - þetta er hani en hann er ungur! Svona er þetta - maður fær ekki alltaf allt sem maður vill. Fyrir flesta verður venjulegur kjúklingur að duga. 


Kröftugur Coq au vin með baguettu, hrísgrjónum og rauðvínssopa




Hráefnalisti


2 hanar
250 gr beikon
3 laukar
4 sellerístangir
4 gulrætur
6-7 hvítlauksgeirar
Kryddvöndull: 
Steinselja, timian og lárviðarlauf
3 msk hveiti
4 msk koníak
1 l rauðvín
30 gr smjör
15 steikar-laukar
500 gr smáir sveppir



Eins og ég nefndi þá var ég með tvo hana frá Knäred. 



Ég átti til beikon í frystinum sem ég hafði búið til fyrr í ár. Heimagert beikon er gott og einfalt að gera, sjá hér. Ég skar niður 250 gr af beikoni í bita. Beikonið er afar mikilvægt í þessum rétti og maður finnur mikið fyrir beikoninu í lokaréttinum. Mitt beikon er ögn sætt og reykt þannig að það mun gefa annað bragð en ferskt óreykt beikon úr búð!


Ég steikti beikonið í potti í 50 gr af smjöri við heldur lágan hita til þess að reyna að ná út eins mikilli beikonfitu og unnt var. Þegar beikonið var brúnað var það lagt til hliðar í skál.


Ég hlutaði kjúklingana mína niður í sex bita. Hægt er að fá leiðbeiningar um hvernig það er gert á síðunni minni, sjá hér.



Allir bitarnir eru saltaðir og pipraðir og svo brúnaðir að utan, rétt þangað til að þeir taka lit. 



Nigel Slater segir að það maður eigi að stefna að því að ná fallegum hunangskenndum lit á fuglinn - ekki að brúna hann meira en það. Það að stöðva eldunina þarna sé lykilatriði að vel heppnuðum rétt! Ég fór alltént að ráðum hans í þessu.



Næst var að steikja grænmetið. Þrír heilir laukar voru sneiddir niður í bita, fjórar sellerístangir sem og fjórar gulrætur sneiðum ásamt sex til sjö hvítlauksgeirum - steikt í fitunni þangað til að laukurinn fór að verða ljós og mjúkur. 



Undirbjó stóran kryddvöndul. Steinselja, timian og nokkur lárviðarlauf voru vafin upp og bundin með þræði.



Þegar grænmetið var steikt setti ég beikonið og kjúklinginn aftur í pottinn. Áður en ég setti vínið saman við setti ég þrjár kúfaðar matskeiðar af hveiti og velti saman við hráefnið í pottinum. Hugsuninn þarna er að þykkja sósuna.



Fann þennan pela af koníaki inn í skáp, eitthvað sem tengdafaðir minn hefur eflaust skilið eftir. Ágætis koníak. Setti fjórar matskeiðar og sauð upp.



Næst var að hella einum lítra af ávaxtaríku rauðvíni saman við kássuna og hræra vel - en þó vandlega saman við. Salta vel og pipra. 

Kryddbúntinu er núna bætt útí pottinn. 



Næst var að bræða 30 gr af smjöri á pönnu, skvettu af olíu og steikja 15 steikar-lauka og 500 gr af smáum sveppum þangað til þeir tóku lit. Saltað og piprað eins og lög gera ráð fyrir. 

Þeim var síðan bætt saman við kássuna og hún hituð að suðu. Lokið sett á og potturinn færður inn í 120 gráðu heitan ofn í tvo tíma. 



Eftir tæpa tvo tíma í ofninum - lítur kássan svona út. Og ilmar algerlega dásamlega.



Ég veiddi allt hráefnið upp og setti á disk, henti kryddbúntinu og setti svo pottinn aftur á hlóðirnar og sauð niður um kannski 1/4 - í svona 20 mínútur. 
Á þeim tíma nær maður að sjóða hrísgrjón, rífa niður baguettuna, leggja á borð og hella sér í rauðvínsglas. 

Með matnum drukkum við gott franskt vín sem ég hef bragðað áður, Chateu Teyssier Grand Cru frá því 2006. Þetta er vín frá St. Emillion sem er í Bordeauxhéraði sem liggur í suðvesturhluta Frakklands. Vínið, sem er unnið að mestu úr Merlot þrúgum og svo lítilræði af Cabernet Franc, er bragðgott vín. Dökkt, lyktar af þroskuðum ávöxtum og eik og sama er að finna í bragðinu.



Þarf ég eitthvað að taka fram hversu gott þetta var?

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment