Tuesday 4 September 2012

Langeldaður marókóskur lambaframpartur með couscous salati og jógúrtsósu

Þetta hafa verið ljúfir dagar síðastliðna vikuna. Við höfum verið í rólegheitum heima í Púkagrandanum með nýju dóttur okkar, Ragnhildi Láru - sem drekkur og dafnar - og það mikilvægasta - hún sefur, allavega enn sem komið er, vel (sjö ... níu ... þrettán). Ég veit ekki lengur hvernig þessu er háttað á Íslandi en við fáum saman hjónin 60 daga til að taka út saman fyrsta árið með barninu. Þannig að ég verð heimapabbi núna fyrstu tvær vikurnar og svo verð ég í leyfi aðra hverja viku á meðan Ragnhildur Lára er svona lítil. Þessi tími kemur aldrei aftur þannig að það er eins gott að njóta hans. 

Þannig að mitt hlutskipti er mest að skipta á bleyjum og sinna hinni mjólkandi móður auk almennra heimilisstarfa og við þau uni ég mér ansi vel - sérstaklega þetta með að sinna eldhúsinu. Hvern hefði grunað að það ætti vel við mig? 

Aðferðafræðin sem liggur að baki þessum rétti er alveg sú sama og var notuð í þessari færslu. Nema hvað innblásturinn var sóttur annað - og að það þessu sinni var Norður-Afríka og krydd sem fengin eru þaðan að leika aðalhlutverkið í uppsetningu kvöldsins. 
Ég er ákaflega hrifinn af broddkúmeni - mér finnst það gefa ótrúlega ljúffengt bragð sem leikur algerlega við bragðlaukana.

Langeldaður marókóskur lambaframpartur með couscous salati og jógúrtsósu

Hráefnalisti

1 kg lambaframpartur2 tsk broddkúmen
2 tsk kóríander fræjum á heitri þurri pönnu í hálfa mínútu eða svo
1 tsk súmak
2  laukar
2 gulrætur
2 sellerístangir
1 msk olía
3-4 kanilstangir
3-4 hvítlauksrif
300 ml vatn
15 döðlur
Salt og pipar

Meðlæti - couscous salat 

500 gr couscous
1/2 kúrbítur
4-5 sveppir
1/2 laukur
10 döðlur
Salt og pipar
70 gr fetaostur
Fersk steinselja



Ég hef áður notað orðið "langeldaður" í þessum færslum. Spurning hvað það ágæta hugtak merkir!? Þessi frampartur tekur ekki nema 4 tíma þannig að miðað við fyrri lambauppskriftir þá ætti þetta að flokkast sem snöggeldað! 



Fyrst ristaði ég tvær kúfaðar teskeiðar broddkúmeni og tvær kúfaðar teskeiðar af kóríander fræjum á heitri þurri pönnu í hálfa mínútu eða svo. Færði svo fræin yfir í mortél ásamt grófu salti og svo eina tsk af súmak (sem er örlítið súrt á bragðið). 


Að vanda setti ég tvo heila niðurskorna hvíta lauka, tvær saxaðar gulrætur og tvær saxaðar sellerístangir í botninn á ofnpottinum. Skvetta af olíu og svo salt og pipar. Blandað saman. 
Síðan setti ég frampartinn ofan á - þurfti reyndar að skera hálsinn af til að koma bitanum ofan í fatið. Síðan nuddaði ég kjötinu upp úr jómfrúarolíu, svo kryddblöndunni, saltaði og pipraði. Bætti síðan nokkrum hvítlauksrifjum ofan á lærið og svo setti ég nokkrar kanilstangir með kjötbitanum.

Síðan setti ég 300 ml af vatni í botninn á pottinum. Setti lokið á pottinn og setti hann síðan inn í forhitaðan ofn - 170 gráður í fjórar klukkustundir. 

Þegar ein klukkustund var eftir af eldunartímanum setti ég síðan 15 döðlur í botninn með grænmetinu.



Næst var að huga að kúskús salatinu - sem var algerlega ljúffengt! Fyrst var kúskúsið sett í skál, svo var grænmetissoði hellt saman við, plastfilma sett yfir og látið standa í fimm mínútur. Þá steiktum við hálfan kúrbít, nokkra skorna sveppi og hálfan lauk sem hafði verið skorinn í smábita í hvítlauksolíu. Söxuðum síðan tíu döðlur í bita. Öllu þessu var síðan blandað saman við kúskúsið, saltað og piprað. 70 gr af fetaosti var síðan mulið saman við og hersingin síðan skreytt með ferskri steinselju.



Við gerðum svo einnig þetta ofureinfalda salat!




Lambið var síðan sótt upp úr pottinum - og ilmaði hreint út sagt dásamlega. Kjötið var svo vel eldað að það datt nánast af beinunum. 

Grænmetið og döðlurnar sem voru í botninum voru síðan maukaðar með töfrasprota og bornar fram með kjötinu sem eins konar sósa - dásamleg grænmetis - döðlusósa!

Við gerðum einnig jógúrtsósu. 200 ml af grískri jógúrt, tveir hakkaðaðir hvítlauksgeirar, salt, pipar, sítrónusafi, hálf tsk af broddkúmeni, tvær tsk af hlynsírópi. Hrært saman.


Lindemans


Með matnum fengum við okkur glas af þessu ágæta búkolluvíni. Ég sótti nokkrar svona búkollur þegar ég ók til Puttgarden í Þýskalandi í árlega bjórferð. Þetta er ástralskt rauðvín sem flestir landsmenn mínir þekkja. Unnið úr Cabernet Sauvignion þrúgum frá suðaustanverðri Ástralíu. Það fær að liggja á eikartunum í hálft ár og gefur það milda eikartóna. Annars er þetta gott vín, ilmar af dökkum berjum, vínberjum - á bragðið ögn sæt ávaxtasulta, létt eik. Passaði vel með lambinu.




Þetta reyndist verða alveg stórgóð máltíð - og kom mér eiginlega á óvart hversu góð hún varð. Hvernig broddkúmenið vann með dásamlega mjúku lambinu. Og kúskúsið - OMG - þetta verða lesendur að prófa, það var sigurvegari kvöldsins!

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment