Sunday 16 September 2012

Kraftmikið blómkáls- og kjúklingabaunakarrí með hrísgrjónum og naanbrauði


Núna er ég búinn að vera heima í þrjár vikur með litlu dótturinni minni. Það er frábært að fá þennan tíma með nýfædda barninu sínu, að geta verið heima að fylgjast með og passa upp á mjólkandi móður. En núna er ég byrjaður að vinna aftur, ég er reyndar nokkuð heppinn þar sem ég verð í ákveðnu verkefni næstu mánuði í tengslum við stjórnunarnámið sem ég er í, og hef því nokkuð frjálsan vinnutíma. Þetta verða ljúfar, og annasamar, vikur fram að jólum. 

Svona uppskriftir eru algerlega frábærar. Einfaldar og hollar - og það sem er öllu mikilvægara - ótrúlega góðar! Ég er sannfærður um að þetta kemur barninu mínu til góða í gegnum brjóstamjólkina. 

Veg everyday

Þessi uppskrift er að miklu leyti byggð á uppskrift í bók Hugh Fearnley Whittingstall sem er í miklu uppáhaldi hjá mér - River Cottage Veg Every Day! (River Cottage Every Day). Í þessari bók er að finna margar frábærar uppskriftir. Ég hef prófað þó nokkrar uppskriftir, bæði kássur og súpur sem hafa heppnast alveg stórvel. Þó að ég byggi á uppskriftinni breyti ég lítillega útaf brautinni!

Kraftmikið blómkáls og kjúklingabaunakarrí með hrísgrjónum og naanbrauði

Hráefnalisti

1 blómkálshaus
2 stóir laukar
3 hvítlauksrif
5 cm bútur engifer
2 msk broddkúmen
2 msk kóríander
2 stjörnuanís
1 msk papríkuduft
1 dós kjúklingabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar
Salta og piparFyrst er að huga að blómkálinu. Það er hlutað niður í eftir sinni náttúrulegu skiptingu og síðan forsoðið í nokkrar mínútur. Best er að setja blómkálið í kalt vel söltað vatn - hita að suðu og leyfa að sjóða í örstutta stund - 30 sekúndur og hella síðan vatninu frá. 


Næsta skref er að steikja tvo stóra lauka, niðurskorna, ásamt þremur niðurskornum hvítlauksgeirum og sirka fimm sm af smátt skornum engifer. Steikt við miðlungshita í tíu mínútur - gæta þess þó að brenna ekki hvítlaukinn eða laukinn.
Þá er að setja kryddin. Fyrst er að mala niður kóríander og broddkumin í mortéli. Setti sem nemur 2 kúfúðum teskeiðum af hvoru tveggja. Hellt saman við laukinn, ásamt tveimur stjörnuanísum, einni kúfaðri teskeið af papríkudufti (sést ekki á mynd - gert eftir að myndin var tekin).


Næst var að setja saman við eina dós af kjúklingabaunum, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Einnig eina dós af góðum niðursoðnum tómötum. Salta vel og pipra. 


Þá er að bæta við blómkálinu. Smakka til karríið og krydda eftir smekk.


Þá að gerð naan-brauðsins. Fyrsta skref er að vekja gerið; þrjár tsk sykri/hunangi eru leystar upp í 50 ml volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Þá er 500-600 ml af hveiti sett í skál, smávegis af fínu salti og svo tvær msk af olíu. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af jógúrt hrært saman við og smávegis af mjólk eða vatni. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt). 


Bitar eru svo klipnir af deiginu og flattir út og síðan steiktir á blússheitri pönnu. Ég penslaði síðan smávegis af hvítlauksolíu á brauðið og saltaði. Maturinn var borin fram með Basmati hrísgrjónum soðnum eftir kúnstarinnar reglum.

Með matnum fékk ég mér glas af rauðvíni. Hafði sótt þessa í sænska systemið nýverið. Ég hef lengi verið hrifin af Masi Campofiorin og þessi búkolla er frá sama fyrirtæki. Þetta vín kemur frá Ítalíu frá svæðunum í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr nokkrum þrúgutegundum. Ungt vín, en berjaríkt - kryddað með lakkrískeim. Gott með þessum grænmetisrétt.


Skreytt með kóríanderlaufi.

Bon appetit!


1 comment:

  1. Leit ekkert mjög vel út í fyrstu, en núna hlakka ég til að prófa..

    ReplyDelete