Sunday 27 May 2012

Seiðandi súkkulaðimús með heimagerðri karmellu og hindberjum

Bestu veislurnar eru alltaf þær sem verða óvænt. Laugardaginn fyrir tveimur vikum vöknuðum við hjónin bæði með þá hugmynd í kollinum að við yrðum að halda smá veislu. Ég hafði kvöldið áður eitthvað verið að glugga í matreiðslubækur og hripaði niður nokkrar uppskriftir sem gaman væri að elda á næstunni. Daginn eftir rölti ég síðan á milli húsa hérna í götunni og bauð nokkrum nágrönnum mínum í mat!

Við vorum með heilgrillaða nautasteik með rauðvínssósu og ofnsteiktum kartöflum í aðalrétt sem ég hef einhvern tíma gert áður og sennilega gert grein fyrir á blogginu þá. Rauðvínssósuna hef ég allavegana bloggað um áður núna nýverið þegar ég eldaði dádýrssteik!

Eins og ég nefndi hafði ég verið að kíkja í gegnum gegnum matreiðslubækur kvöldið áður. Þar rakst ég á þessa uppskrift - í bókinni Súkkulaði eftir hinn danska Morten Heiberg - sem kom út 2004 á Íslandi í þýðingu Nönnu Rögnvaldsdóttur. Þetta er afar eiguleg bók og er í raun óður til súkkulaðsins. Annars hef ég smakkað nokkuð líka útgáfu af þessari súkkulaðimús hjá vinum okkar hjóna - Viggu og Bassa. Og hún var alveg gómsætt. Þannig það var bara að láta slag standa.

Seiðandi súkkulaðimús með heimagerðri karmellu og hindberjumÉg var með nokkuð marga í mat - þannig að ég þurfti að tvöfalda uppskriftina. Ég var líka með 70% súkkulaði ekki 64% eins og uppskriftin kvað á um. Síðan bætti ég við smá sírópi til að fá meiri sætu þar sem súkkulaðið skorti aðeins aðeins upp á sætuna!Í þessa uppskrift þarf semsagt; 400 gr af dökku súkkulaði, 4 matarlímsblöð, 320 ml af nýmjólk og síðan 640 ml af rjóma (jams...þú last rétt!)Ég var með ágætis súkkulaði frá Maribou. Þeir eru með svona "lúxus" línu sem er alveg ágæt. 70% súkkulaðið þeirra er þó ögn beiskt þannig að ég bætti síðan 2 tsk kúfuðum teskeiðum af Golden sírópi:En við getum tekið þetta í skrefum.

1. Fyrst á að leggja matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur.

2. Hitaðu mjólkina næstum því upp að suðu. Kreistu síðan vatnið úr matarlíminu og leystu upp í heitri mjólkinni.

3. Helltu síðan heitri mjólkinni, þriðjungi í senn, á meðan þú hrærir rösklega í súkkulaðiblöndunni.

4. Eins og fyrr nefndi þá setti ég 2 kúfaðar teskeiðar af golden sírópi saman við.5. Þeytti rjómann og hrærði hann svo varlega saman við súkkulaðið ekki þannig að hann blandaðist alveg heldur að það væru svona rjómadropar á víð og dreif í súkkulaðinu.6. Þá var ekkert annað en að hella búðingnum yfir í bollann.Framhaldið er síðan gerólíkt því sem Morten gerði. Ég ákvað að prófa að búa til karmellu. Ég hef aldrei prófað að gera karmellu áður en las mér aðeins til á netinu og fékk góðar leiðbeiningar. Það er lygilega einfalt en það krefst þess að maður passi að brenna ekki karmelluna. Fyrst er að setja sykur á pönnu - kannski hálfsentimetra djúpt lag og setja yfir meðalhita.

Sykurinn fer síðan að bráðna - fyrst út í köntunum á pönnunni og þá dregur maður uppleystan sykurinn inn að miðju. Þegar allur sykurinn var bráðinn hellti ég 100 gr af heslihnetum saman við og vellti upp úr karmellunni. Hellti á bökunarpappír og leyfði að storkna.Þá braut ég hneturnar í bita og setti í matvinnsluvél og malaði niður í mylsnu.

Síðan lék ég leikinn með karmelluna aftur - alveg eins og áður - og setti helminginn af mylsnunni saman við karmelluna (í staðinn fyrir heslihneturnar) ásamt 50 gr af smjöri (setti smjörið í þeirri von að karmellan yrði aðeins mýkri - eftir á að hyggja hefði ég þurft að setja aðeins meira smjör þar sem seinni karmellan varð talsvert hörð.Súkkulaðimúsina setti ég eins og áður sagði í bolla og geymdi inni í ísskáp þangað til 20 mínútum áður en það átti að bera þá fram. Stráði síðan mylsnunni yfir bollann. Braut seinni karmelluna niður í fleyga og stakk í músina. Snædís stakk upp á því að bera fram nokkur hindber með - mjög góð hugmynd - þar sem súkkulaði og hindber passa mjög vel saman.


Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment