Sunday 20 May 2012

Afgangar par excellence: lambalærissneiðar, himneskt kartöflusalat og flatbrauð!

Í seinustu færslu var ég með úrbeinað fyllt lambalæri með döðlum og gráðaosti sem var alveg stórgott. Við vorum ekki nema fjögur sem gæddum okkur á lærinu og þá varð auðvitað talsvert afgangs. Sjálfur er ég mikið fyrir að elda "pytt i panna" á mánudögum úr veisluafgöngum helgarinnar. Þá sker maður niður kjötmeti og grænmeti sem varð afgangs og steikir á pönnu, ber fram með steiktu eggi og fjölbreyttum sinnepstegunum. Sem mér finnst í sjálfu sér vera veislumáltíð.

En að þessu sinni hafði Snædís verið að glugga í matreiðslubók Ottolenghi og þar finnur hún þetta dásemdar kartöflusalat sem við ákváðum að bera fram! Og þetta trompaði "pytt i panna" margfalt. Við reyndum að skapa svolitla miðjarhafsstemmingu í kringum afgangana. Svona til að reyna að minna á eitthvað sem að gæti hafa verið frá Norður Afríku.

Þetta varð síðan að hreinni dásemdarmáltíð - eiginlega betri en það sem höfðum borið fram tveimur dögum áður!

Afgangar par excellence: lambalærissneiðar, kartöflusalat og flatbrauð!Fyrst var að undirbúa flatbrauðið. Ég hef oft gert einhverskonar grillbrauð og það er einstaklega auðvelt. 600 gr af hveiti eru sett í skál, teskeið af salti og 2 msk af jómfrúarolíu. 25 gr af þurrgeri eru vakin í volgu vatni með 30 gr af sykri. Þetta er síðan hrært saman í góðri hrærivél. Þá setti ég eina dós af niðursoðnum kjúklingabaunum sem ég hafði skolað með vatni saman við og svo 1 msk af kúmeni sem ég hafði ristað á pönnu til að vekja kryddið!. Látið hefast í klukkustund og svo lamið út í þunnar sneiðar. Penslað með olíu, saltað og piprað og svo grillað á blússheitu grilli.Kartöflusalatið var eiginlega aðalréttur þessarar málítiðar. 700 gr af möndlukartöflum voru soðnar í söltuðu vatni þangað til tilbúnar. Þá voru þær settar í skál og hrært saman við 6 msk af heimagerðu pestói, 200 gr af soðnum grænum baunum og síðan brutum við sex linsoðin egg yfir kartöflusalatið.Það er einfalt að gera pestó...Lambalærið var skorið niður í sneiðar og penslað með olíu og síðan hitað á grillinu og borið fram með nokkrum sneiddum ferskum döðlum rétt til að lífga uppa á réttinn.


Með matnum vorum við einnig með einfalda hvítlaukssýrðrjómasósu sem er svona: 6 msk af sýrðum rjóma, salt og pipar, 2 hökkuð hvítlauksrif og svo msk af góðu hlynsírópi. Bragðbætt eftir smekk.Tími til að njóta!

1 comment:

  1. Þetta lítur vel út fylta lærið ætla ég að bjóða uppá um hvítasunnuna og ætli afgangurinn fylgi ekki næsta dag á eftir, lýst rosalega vel á kartöflusalatið. með góðrikveðju
    Heiðar Kristinsson

    ReplyDelete