Thursday 3 May 2012

Gómsætur djúpsteiktur skötuselur með remúlaðisósu og ofnbökuðum frönskum

Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu síðustu daganna. Það á sér einfalda skýringu. Við hjónin brugðum okkur til London síðastliðna helgi og vorum þar í nokkra daga. Við slökuðum á, fórum í langar gönguferðir, skelltum okkur á góða veitingastaði - segja má að við höfum oltið á milli veitingastaða. Við hittum góða vini, fórum meðal annars í "hats & wigs" teiti á laugardagskvöldið og ekki hægt að segja annað en að við höfum átt virkilega góða helgi með góðum vinum!

Sá veitingastaður sem stóð upp úr var Brawn. Það er ljómandi skemmtilegur staður í Shoreditch hverfinu sem er rétt norðan við City í miðri London. Þetta er staður sem einbeitir sér að laga fransk-ítalskan heimilismat með áherslu á charkuterie (kjötvinnslu). Staðurinn dregur nafn sitt af réttinum Brawn sem er þekktur víða í Evrópu. Á Íslandi kallast þessi réttur bara grísasulta. Hljómar kannski ekki merkilegt en þeir gera þessum rétti sérlega hátt undir höfði og niðurstaðan hreint út sagt alveg gómsæt! Mæli eindregið með þessum veitingastað!

Þegar heim var komið var ekki slegið slöku við og allt sett á fullt! Ég var á námskeiði á norðaustanverðum Skáni, á Hótel Torekov, þar sem áherslan var lögð á ýmisskonar samskiptafræði. Námskeiðið var hluti af því stjórnunarnámi sem ég hef verið þáttakandi í seinustu tvö misseri og mun halda áfram fram að næstu áramótum! Þar lærðum við um virk samskipti, upplýsingaflæði og æfðum okkur í að ræða við fjölmiðla!

En nóg um það! Þessi síða á að fjalla um mat! Einn af réttum helgarinnar var ekki svo ólíkur því sem ég ber á borð í þessari færslu - Fish 'n' Chips. Villi, sonur minn, var mér innan handar við matargerðina. Honum finnst ákaflega gaman að setja á sig svuntuna og hjálpa til! Hann var mjög stoltur með afraksturinn og naut matarins.

Gómsætur djúpsteiktur skötuselur með remúlaðisósu og ofnbökuðum frönskum
Skötuselur hentar einstaklega vel til djúpsteikingar (reyndar á ég erfitt að sjá fyrir mér hvítan fisk sem ekki væri gott að djúpsteikja - nema lúðu kannski?). Skötuselur er afburða ljótur fiskur en er þéttur og bragðgóður! Skelfilegt að hugsa til þess hvað mikið af þessum góða fisk var hent hér áður sökum útlitsins!Fyrst er að krydda fiskinn - salta, pipra og svo setti ég smá hvítlaukssalt. Næsta skref er að velta fisknum upp úr hveiti. Einfalt er að setja hveiti í plastpoka og síðan henda fisknum saman við og hrista. Fiskurinn er síðan lagður til hliðar á meðan næsta skref er undirbúið.
Deigið er gert á eftirfarandi hátt. Einn og hálfur bolli af hveiti, teskeið af salti, smá pipar, hvítlaukskrydd og svo tæplega hálf teskeið af lyftidufti. Síðan hrærði ég við bjór þangað til að ég var komið með þykkt en þó meðfærilegt deig. Ég held að ég hafi sett 2/3 hluta dósarinnar. Þykktin var eins og á góðu vöffludeigi.Síðan dýfir maður bara fisknum út í deigið og hjúpar hann alveg og svo beint út í 180 gráðu heita olíuna og steikt þar til gullinbrúnt - eða í um 8-10 mínútur.Sett á húsbréf til þerris.Með fisknum var ég með remúlaði var gert eftir franskri fyrirmynd - þó með breytingum þar sem ég vildi ekki notast eingöngu við mayonaise. Þetta remúlaði hef ég gert áður og verið mjög ánægður með niðurstöðuna. Blandaði saman 200 ml af léttu creme fraiche, 1 matskeið af mayonaise, 5 smáttskornum conrichons (smáar súrar gúrkur), 2 matskeiðum af söxuðum kapers, 2 tsk af sírópi, 2 smátt skorin ansjósuflök (í olíu - og verið alveg óhrædd, það verður ekki fiskibragð af sósunni - þetta er leið til að lyfta sósunni upp á annað plan, ég lofa), síðan 2 msk af smátt skorinni steinselju og graslauk, salt og pipar eftir smekk.

Með matnum bárum við fram franskar sveitakartöflur - eldaðar í ofni. Skárum kartöflur niður í sneiðar, velt upp úr olíu, saltaðar og pipraðar og síðan bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í þrjú kortér.Oftast gæðir maður sér á bjórglasi með svona máltíð en þar sem við vorum með skötusel þá fannst mér viðeigandi að hafa með gott hvítvín. Að þessu sinni var ég með vín sem ég hef smakkað einu sinni áður. Monte Ceriani Soave frá því árið 2006 sem er ítalsk hvítvín frá Venetó héraði, skammt frá Feneyjum. Vínið er alfarið gert úr Garganega þrúgum. Þetta er ljósgult í glasi. Þéttur ilmur, ávöxtur. Á bragðið tært, heldur þurrt en ávaxtaríkt og örlítið smjörkennt. Ljómandi sopi!Tími til að njóta!

P.s. Minni aftur á facebook síðu mína ef þið hafið áhuga á því að fylgjast með mér á þeim vettvangi - það þarf bara að þrýsta á like hnappinn hérna hægra megin á síðunni! Verið hjartanlega velkomin!

2 comments:

  1. En ótrúlega girnilegt og sniðugt að nota skötusel. Namm!

    ReplyDelete
  2. Flott uppskrift á skötuselnum ætla að prófa hana við fyrsta tækifæri.
    Með góðri kveðju Heiðar Kristinsson

    ReplyDelete