Thursday 29 March 2012

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum!

Það gerist stundum að maður gengur í gegnum svona tímabil, þ.e.a.s. í eldhúsinu - ég hef síðustu daga verið að ganga í gegnum svona pönnukökutímabil. Og það er ekki að ástæðulausu - pönnukökur eru alveg hreint ljúffengur matur. Og þá er það sama hvort maður eldar þær sem máltíð eða sem eftirrétt - niðurstaðan virðist bara vera ein; það er veisla framundan! Í síðustu viku gerði ég pönnukökur fylltar með heimagerðum rikottaosti og spínati, sem birtist í seinustu færslu og svo um helgina gerði ég galette með skinku, osti og steiktu eggi og hafði í sunnudagsmorgunverð.

Eins og svo oft áður gerði ég aðeins of mikið af deigi svo ég stakk því inn ísskáp svona til öryggis! Seinna um daginn varð mér síðan hugsað til ferðar okkar hjónanna til Parísar snemma síðastliðið sumar og þar gæddum við okkur einn eftirmiðdaginn á þunnri pönnuköku fylltri með nutella súkkulaði og bönunum - algerlega ljúffengt. Kannski hefði ég átt að nota eitthvað flottara súkkulaði til að rísa upp úr meðalmennskunni en það var eiginlega bara óþarfi - þetta var nógu ári gott!

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum! 
Ég gerði nákvæmlega sömu uppskrift og í síðustu færslu nema að ég bætti við smá sykri. Ég setti einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg, 2 tsk sykur og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikti á pönnu.



Þegar búið var að steikja pönnukökuna á annarri hliðinni var henni snúið og Nutella súkkulaðinu smurt á í þykku lagi. Þarna mætti auðvitað nota bráðið súkkulaði af hvaða gerð sem var - ég átti nutella og það var það sem við fengum í París og því var það notað. Síðan nokkrar sneiðar af sneiddum bönunum.



Þá var kökunni lokað með því að brjóta ósmurða hlutann yfir þann súkkulaðismurða. Steikt í smá stund og svo snúið aftur og steikt á hinni hliðinni.

Sett á disk og borið fram með tveimur vanilluískúlum og smáræði af myntu.
Borðað með áfergju og stunið reglulega á með (þetta er ekki leiðbeining heldur það sem gerist þegar maður gæðir sér á öðru eins sælgæti)!

Tími til að njóta!

P.s. Minni aftur á - The Doctor in the Kitchen - hlekkinn á Facebook. Áhugasamir eru velkomnir að kíkja í heimsókn - glugginn er hérna til hægri. Mbk, Ragnar

5 comments:

  1. Girnileg uppskrift en ég stenst ekki smá besserviss.

    Vinur minn Guðni Kolbeinsson, íslenskufræðingur og þýðandi, sagði mér eitt sinn að hann hefði hugleitt að skrifa greinina:

    "Tröðum þessum bönönum í rössgöt!"

    Bananar í þágufalli fleirtölu eru "banönum".

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson30 March 2012 at 20:16

    Sæll Helgi

    Hárrétt hjá þér - mun breyta þessu eftir þínum ráðlegginum. Mun þó ráðfæra mig við yfirlesara minn áður en við stígum þetta skref til fullnustu? Hvernig fannst þér annars uppskriftin?

    mbk, Ragnar (going bananas?)

    ReplyDelete
  3. Uppskriftin lítur vel út en ég hef ekki prófað hana ennþá. Hún er á biðlistanum hjá mér og bíður eftir hentugu tækifæri.

    ReplyDelete
  4. Þorbjörn Giswlason5 April 2012 at 17:14

    Ég biðst afsökunar ef spurningin er heimskuleg en ég bara verð. Þegar maður er búinn að steikja aðra hliðina, á maður þá að smyrja Nutella á ósteiktu hliðina eða steiktu hliðina.

    Stefnan er sett á að prófa á sunnudaginn og ég vil helst ekki klúðra þessu of mikið.

    ReplyDelete
  5. Ragnar Freyr Ingvarsson6 April 2012 at 13:30

    Sæll Þorbjörn

    Ekkert að afsaka! Deigið sett á pönnu, dreift um pönnuna og svo er umfram deilgi hellt af. Þegar kakan er elduð næstum í gegn þá er henni snúið. Þá er súkkulaðinu smurt á og bönunum raðað á. Þá er hún brotin saman. Og steikt í smá stund á báðum hliðum. Svo er bara að sleikja útum!

    Gleðilega páska! Ragnar

    ReplyDelete