Saturday 5 April 2008

Fyrsta grillið; pæklaðar og marineraðar kjúklingabringur með heitukartöflusalati og kaldri sýrðrjómasósu






Þetta blasti bara við þegar ég hjólaði á milli húsa í hádeginu, - að grilla í kvöld. Fyrir hádegi var ég að sinna verkefni á ónæmisfræðideildinni en eftir hádegi þurfti ég að vera í Fossvoginum. Að hjóla Bústaðarveginn á milli húsa er engin eldraun en umferðin getur verið rosaleg. Það var glampandi sól - vor í lofti - og þá verður maður bara að taka fram grilltangirnar.

Grillið hefur veðrast talsvert yfir vetrarmánuðina. Það verður talsverð vinna að koma því aftur í samt lag - þó var ég með það undir klæðum í vetur. Lét mér nægja að blússhita grillið í þetta sinn. Að þrífa það allt að utan verður að bíða einhvers góðviðrisdagsins þegar ég er í helgarfríi.

Þessi fyrsti réttur var kjúklingabringur. Ég átti fremur ódýrar kjúklingabringur í frystinum sem ég greip með mér í einhverri búðarferð. Ég hef ekki oft áður keypt innfluttar kjúklingabringur þannig að ég á erfitt með að gera mér í hugarlund hvort mikill gæðamunur sé á ferðinni. Þær litu ágætlega út. Ég hef lesið nokkrum sinnum um að leggja kjúkling (og reyndar svínakjöt) sem á að grilla í pækil. Það er afar einfalt og byggir hugmyndin á því að koma vökvaástandi fuglsins í sem best lag. Þetta er gert með því að útbúa salt/sykur lausn sem kjötið er látið liggja í 1-2 klukkustundir eða lengur. Þetta er svo hægt að bragðbæta eins og við á.


Fyrsta grillið; pæklaðar og marineraðar kjúklingabringur með heitu kartöflusalati og kaldri sýrðrjómasósu


Þrjár kjúklingabringur voru lagðar í salt/sykurpækil. Hann er einfaldur. 1/2 bolli af fínu borðsalti, 1/2 bolli af púðursykri (eða venjulegum sykri), 10 allspice korn, 10 piparkorn sett út í einn lítra af vatni. Kjúklingurinn var látinn liggja í þessu á meðan ég brá mér í ræktina. Þær fengu að liggja í þessu í eina og hálfa klukkustund. Teknar úr pæklinum, þurrkaðar og hunangs/oliu/dijon marineringu penslað á. Hunangssinnepið var gert úr 2-3 msk af sinnepi, 2 msk af hunangi, 1 msk af olíu, salti og pipar. Bringurnar voru svo lagðar á álbakka og settar á grillið og grillaðar í 10 mínútur á hvorri hlið við óbeinan hita (þannig eldast kjúklingurinn fyrst). Til að ljúka grilluninni voru svo bringurnar færðar á beinan hita til að fá litinn/bragðið og grillaðar ca mínútu á hvorri hlið.



Átta meðalstórar kartöflur voru skornar í báta og lagðar í eldfast mót. Heill hvítlaukar í pappírnum var tekin í sundur og dreift með. 1 msk af jómfrúarolíu er dreift yfir og svo saltað og piprað. Hálfum kjarnhreinsuðum chilli var svo dreift yfir og þessu blandað vel saman. Þessu er svo skellt inn í ofn og bakað í 10 mínútur við 200 gráðu hita (aðeins að forvinna þetta fyrir grillið). Á meðan þetta bakaðist skar ég niður hálfan kúrbít, heilan púrrulauk, og hálfa rauða papriku. Bökuðu kartöflurnar voru svo færðar yfir í álpappír og paprikunni, púrrulauknum og kúrbítnum bætt saman við. Ca. matskeið af olíu er bætt við og saltað vel og pipar. Blandað vel saman og sett á efri hilluna á grillinu og haft þar í 25 mínútur á meðan kjúklingurinn eldaðist.

Sósan var afar einföld. Ein dós af 10% sýrðum rjóma, 1 tsk dijon sinnep, 2 tsk af hunangi, salt, pipar, smávegis af smáttsöxuðum chilli og 1 smátt saxað hvítlauksrif. Saltað og pipar. Mig rekur minni til að sósan hafi verið á þessa leið - það þurfti þó aðeins að djassa hana til og frá til að fá ballans í hana. Aðeins meira hunang, salt, smá sykur - þá var allt í góðu lagi.



Með matnum fengum við okkur Beringer Napa Valley Fumé Blanc frá 2006. Afar ljúffengt vín. Þetta vín sé gert úr Sauvignion Blanc þrúgu sem er látið liggja á eik. Þurrt en bragðmikið ávaxtaríkt vín sem hentaði matnum vel.



Bon appetit

No comments:

Post a Comment