Wednesday 2 April 2008

Frábært steikt hrísgrjónasalat með kúrbít, chilli og rækjum

Þessi hugmynd er kominn frá Teppanyaki stað sem ég fór á úti á Calpe, sem er svona sumarleyfisstaður á Spáni á Costa Blanca ströndinni svona 30 km norðar en Benidorm. Við höfum farið tvívegis á þennan stað, fyrst með Sverri og Bryndísi ásamt börnum og svo fyrir tveimur árum síðan með Elvu Brá og Óla Hólm. Þetta var svo sannarlega ljúf sumarfrí. Í bæði skiptin fór ég á þennan stað sem veitti mér innblástur fyrir þennan mat - Sapparo (eins og bjórinn) sem var veitingastaður við smábátahöfnina sunnanvert í bænum.

Það var alveg ævintýralegt að horfa á þessa kokka elda fyrir mann. Fyrir þá sem ekki hafa farið á svona stað þá stendur kokkurinn við borðið og eldar á stórri járnplötu. Einhver sagði mér að það væri það sem teppanaki stæði fyrir - heit járnplata. Hvað um það þá eru þeir ekki bara að elda heldur leika þeir ýmsar listir með matnum og þeim áhöldum sem þeir eru með. Þannig að ekki er bara um máltíð að ræða heldur heilmikið sjónarspil. Mjög gaman.

Ég er ekki að segja að ég sé að neinu leiti líkur þessum ágæta herramanni í eldhúsinu, því miður - en hugmyndin spratt þaðan og þessi réttur heppnaðist sérlega vel. Mjög hollur - fullt af grænmeti, eggjum og rækjum. Ég braut aðeins út af því sem ég lærði og bætti nokkrum hráefnum við svona til þess að gera þetta eins og ég vildi hafa það.

Frábært steikt rækjuhrísgrjónasalat með kúrbít, chilli og gómsætu papríku salati

Til að gera þetta allt hratt og örugglega var ég búinn að undirbúa hráefnið vel- hrísgrjónin voru soðin, grænmetið skorið, rækjurnar tilbúnar og allt reddí. Fyrst voru 2 gulrætur, 2 litlar stangir af seljurót, einn rauðlaukur, einn lítill skarlottulaukur, 3 hvítlauksrif, hálfur kúrbítur, hálfur rauður chilli pipar og ein rauð papríka skorinn niður í fallega litla bita. Tvær matskeiðar af grænmetisolíu voru hitaðar á stórri wok pönnu og grænmetið svo steikt; fyrst gulræturnar, svo selleríið, laukarnir, kúrbíturinn og paprikan. Þá var þremur eggjum bætt saman við og steikt um stund. Þegar eggin voru farin að eldast var 3 bollum af soðnum hrísgrjónum bætt útí og blandað vel saman. Þá var 3-4 msk af góðri soya sósu bætt útí, saltað og piprað. Þá var rækjunum - ca. 250 gr. bætt saman við og steikt áfram í 4-5 mínútur. Rétt undir lokin var fersku kóríander bætt útí ásamt nokkrum skvettum af nam pla (thai fiskisósa). Lagt á disk og skreytt með nokkrum laufum af fersku kóríander.

Borið fram með einföldu salati; nokkur græn lauf og þykk skorinn rauð paprika. Með matnum fengum við okkur Rosemount Chardonnay 2006. Ansi ávaxtaríkt vín miðað við Chardonnay en með mjúku og góðu eftirbragði.


No comments:

Post a Comment