Monday 28 April 2008

Hvernig San Moriglio kryddolía varð að pizzu fritta, ljúffengu brauði og hamborgurum með sæt kartöflufrönskum

útsýni Var á vaktinni í gærkvöldi. Það var talsvert að gera þannig að ég svaf aðeins fram eftir degi. Fór í ræktina þegar ég vaknaði og þegar heim var kominn fórum við hjónin með Villa í hjólatúr. Skruppum í búðir og svoleiðis. Ég er aftur á vakt á morgun þannig að þetta mun verða rólindiskvöld.

Á miðvikudaginn fór í þrítugsafmælisveislu hjá Gísla Bergmann og vini hans Gunna. Veislan var haldin í Flugröst í Nauthólsvík. Þeir veittu ansi vel og maður var ansi lúinn daginn eftir. Ég vaknaði með nautasteik á heilanum og hjólaði alla leið í Melabúðina til að kaupa steikina. Hún var ekki gefins, 3490 kall kílóið af ribeye nautakjöti. Um leið og heim var komið heyrði ég auglýsingu frá Gallerí kjöt og Hagkaup með lægra verð - þúsund kalli ódýrara. Damn it!!!

Ég bjó til San Moriglio kryddolíu með matnum; Búnt af steinselju, basil, 1/3 búnt timian, hálft búnt salvía, salt, pipar, 50 ml jómfrúarolía og safi úr einni sítrónu. Hún var ansi höst - svona þegar þessu var snarað saman svona rétt fyrir matinn. Ég geymdi samt allan afgang ti að nota næstu daga...ekki sé ég eftir því. Daginn eftir hafði hún jafnað sig mikið og var orðin alveg ljúffeng.

brauðið

Daginn eftir fékk ég mér steikarsamloku með kartöflum og smávegis San Moriglio og sætu sinnepi. Ljúffengt. Brá mér svo á vaktina sæll, glaður og mettur.

Átti ansi mikið af San Moriglio eftir þannig að ég ákvað að baka brauð og nota kryddolíuna einhvern veginn saman við. Brauðið var einfal og hef oft sett þessa uppskrift inn áður; 600-800 ml af hveiti, 20 gr af góðu salti, 2 msk af jómfrúarolíu er sett í skál. Í könnu er ger vakið; 250 ml af volgu vatni, 1 pk þurrgeri og 2 msk af sykri er hrært saman. Þegar gerið er farið að freyða er því hellt saman við hveitið og hnoðað vandlega saman. Leyft að hefast í rúma klukkustund.

Pizza Fritta með steik og tómötum 

Þegar deigið var búið að hefa sig vel tók ég handfylli af deiginu og flatti út í ca 15 cm í þvermál - svona flatbrauð. Hitaði eina matskeið af hvítlauksolíu á pönnu og setti svo deigið út á. Þegar það var að taka lit snéri ég kökunni; setti 2 msk af Hunt roasted garlic tomato sauce, nokkrar sneiðar af steikinni sem var afgangs frá því um daginn (nýting 100%), fimm sneiðar af góðum tómötum, smávegis af afgangs piparosti og svo pizzaosti og leyfði þessu svo að steikjast í nokkrar mínútur þar til deigið fór að brúnast að neðan. Þá skellti ég pönnunni undir heitt grill í ofninum í nokkrar mínútur þar til osturinn varð gullinbrúnn. Þvílíkur miðaftansverður!!!

sætar kartöflur

San Moriglio kryddbrauð

Þegar ég bjó til pitsuna lamdi ég deigið niður og leyfði því svo að hefast aftur í rúman klukkutíma. Þá flatti ég það út í ferning og smurði afganginum af kryddolíunni á ferninginn og rúllaði honum svo upp eins og rúllutertu. Penslaði svo deigið með hrærðu eggi, saltaði og pipraði og bakaði í ofni í 40 mínútur við 180 gráðu hita. Brauðið var svo notað í hamborgarana.

Hamborgarar með sæt kartöflufrönskum

Venjulega bý ég til mína eigin hamborgara, en mér hafði láðst að taka nautahakk úr frystinum þannig að ég varð að kaupa tilbúna og krydda eftir smekk. Þeir voru grillaðir eins og lög gera ráð fyrir og bornir fram á San Moriglio kryddbrauðinu með Gullosti, basil, tómötum, salati og Alloli (hvítlauksmayonaise). meðlætið var sætkartöflufranskar. hammari

Tvær meðalstórar sætar kartöflur voru flysjaðar og skornar niður í fremur stórar franskar. Settar í skál og 3-4 msk af jómfrúarolíu hellt yfir, laufum af tveimur rósmaríngreinum, 2 smátt skornir og kjarnhreinsaðir chillibelgir, 3 smáttskorinn hvítlauksrif og svo salt og pipar. Bakað við 180 gráður í sirka 30 mínútur.

Með matnum fengum við hjónin okkur rauðvín - sama og við fengum okkur um daginn. Rosemount Estate - Show reserve - Coonawarra frá 2002. Virkilega gott vín - sveik svo sannarlega ekki frekar en áður.  Þetta var dökkt og þykkt vín - bragðmikið, með langt og þungt ávaxtabragð, talsverða eik.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment