Monday 14 May 2012

Ljúffengt úrbeinað og fyllt lambalæri - með döðlum og gráðaosti ogeinfaldri rjómasoðsósu




Ég hef verið staddur talsvert úti á landi síðastliðnar tvær vikur. Við hjónakornin vorum vart komin heim frá London þegar ég þurfti að fara á námskeið á norðvestanverðum Skáni eins og ég nefndi í síðustu færslu. Þessa vikuna hef ég verið staddur úti í héraði rétt suð-austan við Gautaborg á fallegri sveit. Hlakka til að snúa heim aftur - enda er þar alltaf best að vera.

Það verður líka nóg að gera. Við höfum verið að reyna að nota síðastliðnar helgar til að koma garðinum í sæmilegt horf fyrir sumarið. Um síðustu helgi tókst mér að setja niður þrjár tegundir af kartöflum. Ég setti niður nokkrar Maris Piper, nokkrar Asterix og svo talsvert af möndlukartöflum sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ætla síðan að setja niður nokkrar tegundir af grænu káli til að hafa fyrir öll salötin sem eiga vera á boðstólnum í sumar. Þessa helgi þarf að lyfta grettistaki í að bera á pallinn og koma öllum kryddjurtum á rétt ról - ekki seinna vænna. Það er fátt betra en að geta gengið út í garð og plokkað þær kryddjurtir sem maður þarf á að halda.



Þetta lambalæri gerði ég þegar tengdamóðir mín brá sér í heimsókn til okkar nýverið. Hún skellti sér á tilboð hjá Iceland Express og skrapp til okkar yfir helgi. Hún kom færandi hendi með fangið fullt af góðgæti og þá meðal annars þetta lambalæri sem við elduðum á laugardagskvöldinu. Þegar ég var yngri (ég ætla að bíða aðeins með að segja ungur - þar sem ég held að ég sé ennþá ungur...er það ekki annars?) þá hreifst ég mjög af Jamie Oliver. Hann hafði þann háttinn á að stinga í lærið og troða svo kryddjurtum og fleira ofan í sárið og baka síðan. Þessi uppskrift er að hluta afturhvarf til fortíðar nema núna úrbeinaði ég lærið. Og það er auðveldara en margur heldur. Bara beittan hníf - og elta svo beinið og skera í kringum það!

Gómsætt fyllt lambalæri - með döðlum og gráðaosti og með einfaldri rjómasoðsósu
Eins og ég nefndi þá er ekki snúið að úrbeina lambalæri. Það eru til leiðbeiningar á netinu sem er hægt að kíkja á áður. Lykillinn er að vera með beittan hníf og eins og ég nefndi skera meðfram beininu. Maður byrjar á því að taka lykilbeinið. Svo þegar það er komið þá blasir mjaðmakúlan við og þá er ekkert annað en að skera frá henni með lærbeininu niður á hnéliðinn og þar suðureftir niður á hækilinn. Svo skrapar maður bara kjötið frá beininu. Beinin notar maður svo til þess að búa til soðsósuna!



Ég rakst á þessar döðlur útí matvörubúð hjá mér. Ferskar, dísætar og safaríkar! Og fullkomnar fyrir lambalæri. Byrjaði á því að nudda olíu á lærið, salt og pipar.



Síðan nokkrar niðursneiddar döðlur, síðan steinselja.



Og svo að lokum talsvert af góðum gráðosti!



Lærinu er síðan lokað og bundið utan um það með snæri. Lærið er sett í ofnpott, látið hvíla ofan á smáræði af niðurskornum lauk, gulrót og sellerí til að lyfta því upp frá botninum. Síðan setti ég 1-2 bolla af vatni í botninn, til að fanga allan vökva sem rennur af lærinu við eldun. Setti svo lokið á pottinn og bakaði við 160 gráður þangað til að kjarnhiti var kominn í 60 gráður. Þá var lærið tekið út og látið standa í hálftíma á meðan sósan var gerð.



Rétt áður en lambið var borið fram var það sett undir blússheitt grillið til þess að fá stökkan hjúp utan um það. Það tekur ekki nema mínútu þannig að það borgað sig ekki að líta af því.

Og svo var það sósan. Hún var einföld. Bjó til smörbollu. 30 gr af smjöri í pott og þegar það er bráðið þá hræði ég 30 gr af hveiti saman við. Þá er maður kominn með smjörbollu, roux! Næsta skref var að hella soðinu saman við og hræra vel. Láta suðuna koma upp og smakka svo til. Það þarf alltaf að skerpa á sósum og maður á ekkert að hætta fyrr en maður er ánægður með niðurstöðuna. Bætti við smá lambakrafti, salti, pipar og smá sultu. Og þá varð hún ljómandi góð!

Með matnum vorum við með soðnar möndlukartöflur frá Norrbotten og ljúffengt salat. Blönduð grænlauf og svo gula og rauða papriku.







Með matnum drukkum við að sjálfsögðu smáræði af rauðvíni. Að þessu sinni gæddum við okkur á Fleur de Cap Cabernet frá því 2009. Þetta er vín frá Suður Afríku. Ég hef einhvern tíma smakkað hvítvín frá þessum framleiðanda og fannst það alveg ljómandi. Þetta er góður sopi með ágæta fyllingu, tannín og kröftugt berjabragð. Eikað og ljúft eftirbragð.



Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment