Friday 15 June 2007

Grilluð lúða með jógúrtsósu

Það var dásamlegt veður í gær. Eiginlega fyrsta skipti núna í að verða 2 vikur sem maður er að upplifa alvöru sumar - en það er svosum engin nýlunda að sumarið á Fróni láti bíða eftir sér. Íslendingar virðast alveg tapa sér þegar sólin skín á þá. Við fjölskyldan fórum í gönguferð fyrir matinn og röltum niður í bæ. Gengum niður laugarveginn og niður á Lækjartorg og gengum í gegnum Austurvöll. Hvílíkt og annað eins. Ógæfumennirnir voru á sínum stað - ölvaðir og útiteknir, en svo voru líka hjarðir af ungufólki og unglingum sem höfðu safnast saman í kringum nokkrar kippur af bjór - jafnvel heilu bjórkassana. Lyktin var eftir aðstæðum - staðin bjórlykt - heldur sjoppulegt.

Við gengum aftur langleiðina upp laugarveginn. Þrátt fyrir útsýnið á Austurvelli komst maður í svona sólarstemmingu og þá kallar bara grillið á mig. Ég er með ansi góða aðstöðu úti á svölum. Ég er með fremur stórt grill, smá "kjötborð" þar sem ég get aðeins eldað á og nokkrar hillur til að láta krydd og olíur standa á. Fyrirtak. Það var heitt á svölunum og ekkert betra en að dreypa á smá hvítvíni meðan maturinn var undirbúinn.

Maturinn var einfaldur. Þegar ég varð 31 árs...ég verð alltaf jafn miður mín við að telja árin sem líða. Pabbi segir að maður jafni sig ekki á því að hafa orðið þrítugur fyrr en maður verður um 33 ára gamall og það er bara vegna þess hve langt er þangað til að maður verður fertugur... allavega þegar ég varð 31 árs fékk ég gefins safn af kryddolíum að gjöf. Þær urðu grundvöllurinn af matnum í kvöld.

 Grilluð lúða með jógúrtsósu.

900 gr af smálúðu voru skorinn niður í 9 jafnstórar sneiðar og lagðar og álgrillbakka. Þrjár sneiðar voru penslaðar með ristaðri sesam olíu og ferskum rifnum engifer sáldrað yfir. Næstu þrjár sneiðar voru penslaðar með góðri jómfrúarolíu og svo var ferskum sítrónusafa dreift yfir. Því næst var nokkrum sneiðum sítrónum dreift fyrir. Síðustu þrjár sneiðarnar voru penslaðar með chiliolíu og svo var hálfum niðursneiddum chilipipar dreift yfir. Lúðan var svo sett á heitt grillið og grilluð í sirka 10 mínútur eða þartil lúðan er hvít í gegn og fallega útlítandi.

Með matnum var svo ansi góð jógúrtsósa sem minnir á gríska taichikisósu. Ein dós af lífrænt ræktaðri jógúrt var hellt í skál og 1/3 af niðurskorinni agúrku bætt saman við, smá ferskum sítrónusafa, 1 smáttskornum hvítlauk, salt, pipar, smá hunang og niðurskorinn steinselja var svo blandað saman við.

Með matnum útbjó ég einfalt grillbrauð. 500 gr af hveiti var hellt í skál og samanvið það var sett 1 msk af lyftidufti, 1 msk af grófu salti, 2 msk jómfrúarolíu. 2 tsk af geri var vakið í volgu vatni með 20 gr af sykri og leyft að freyða. Vatninu var svo hrært varlega saman við hveitið þar til að það var fallega mjúkt og meðfærilegt. Biti og biti var svo klipinn af deiginu og litlir hleifar útbúnir sem voru pennslaðir með jómfrúarolíu og svo grillaðir á heitu grilli.

Með matnum var svo basmati hrísgrjón og ferskt salat með grænum laufum, papriku, plómutómötum og mozzarellaosti. Ljúfengt.


No comments:

Post a Comment