Monday 19 March 2007

Heimagerð pizza með smávegis nýjungum

Þetta var ansi ljúfur dagur þrátt fyrir að vera aðeins lúinn eftir vaktina. Vaknaði um eitt eiginlega við lykt af nýbökuðum skonsum og rjúkandi kaffi. Konan mín hafði tekið upp á því að baka skonsur í hádeginu. Það vakti mikla lukku - við erum fjölskyldan mjög hrifinn af öllu brauðmeti og sérstaklega skonsum og flatkökum og svoleiðis. Á eftir að setja inn þessa skonskuuppskrift frá Snædísi.

Á föstudaginn hafði ég haft rænu á því að taka út kæfu sem ég og mamma höfðum gert í haust eftir leiðbeiningum ömmu minnar - studdist einnig við matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur - klassísk íslensk matreiðslubók - önnur skyldueign áhugakokka...mig minnir einmitt að amma mín hafi einmitt gefið mér þessa bók þegar ég var að byrja að búa. Kæfan heppnaðist vel.

Nú fer þessi vaktavika að líða undir lok. Á bara eina næturvakt eftir. Maður er alltaf farinn að tapa gleðinni aðeins á síðustu metrunum. Ætlaði að vera með sunnudagssteik í kvöld en steingleymdi að taka kjöt út úr frystinum þannig að það varð að byrja að huxa upp á nýtt. Dóttir mín fékk eiginlega að ráða og hún stingur alltaf upp á því að við gerum pizzur - henni finnst alltaf svo gaman að fletja út deigið.

Heimgerð pizza með smávegis nýjungum pizza með nýjungum

Þetta er nú eiginlega algert svindl - nýjungin var fólgin í svo litlu að það tekur varla því að nefna það - nema hvað að ég held að uppskriftin hafi batnað aðeins við það. Eins og áður þá hef ég birt (þetta er þá í þriðja sinn) uppskrift af pizzubotn.

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykri eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 400-600 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Þá er það þessi nýjung: Í þetta sinn átti ég eitthvað lítið af hveiti - átti kannski 400 gr þannig að ég leyfði deiginu að hefast vel og þegar ég var að fletja það út hafði ég rúgmjöl (átti hvorki hveiti eða heilhveiti) á borðinu. Það nuddaðist aðeins inn í deigið og það varð afar meðfærilegt. Gerði botninn mjög flatan - og hitaði ofninn meira en venjulega - hafði hann í 220 gráðum.

Ég er eiginlega alveg hættur að nenna að gera mínar eigin tómatsósur fyrir pitsur - þó að það sé nú eins einfalt og huxast getur - núna nota ég eiginlega bara Hunt roasted garlic tomato sauce. Hún er afar bragðgóð - milt og alls ekki súr.

Þetta var eiginlega afgangamatur. Átti talsvert af ostaafgöngum inn í ískáp; camenbert, gullost, gorganzóla og gráðaost. Þessu var dreift yfir aðra pitsuna og smá niðursneiddum rauðlauk yfir annan helming pizzunar. Á hina pitsuna var sett nautahakk, sveppir, þistilhjörtu og rjómaostur. Piprað vel.

Borið fram með kraftmikilli hvítlauksolíu. Afar ljúffengt - Botninn varð stökkur og góður - sennilega fyrir tilurð rúgmjölsins - get ímyndað mér að það hafi lyft botninum aðeins af plötunni (vegna grófleika þess) og þannig varð botnin stökkari (og kannski einnig fyrir tilstuðlan hærri hita). Dóttir mín var sérstaklega hrifinn af ostapitsunni þrátt fyrir bragðmikla osta.


No comments:

Post a Comment