Sunday, 7 June 2020

Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum


Þetta er leiftursnögg grilluppskrift sem hentar vel á virkum degi - en myndi líka sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er!



Galdurinn við eldamennsku eins og þessa er að grilla rækjurnar ekki of lengi - þær þurfa bara skamman tíma á blússheitu grillinu. Hiti og snör handtök skipta hér öllu máli. Svo snögg að það tekur varla því að opna bjór fyrir sjálfa eldamennskuna. Hann má teyga á meðan rækjurnar marinerast eða þegar hann er borinn fram með matnum. Svo má líka alveg sleppa bjórnum. Hann er góður en ekki nauðsynlegur. 

Tvenns konar grillaðar risarækjur; með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði og eldheitar með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum 

Ég var með gesti í mat - Maggi og Hafdís mættu með yndislegu börnin sín. Ég byrjaði á að bera fram hvítlauksrækjurnar. 

Hvítlauksrækjur með hvítlaukssmjöri og brenndum sítrónum á súrdeigsbrauði

Fyrir sex svanga

Fyrir hvítlauksrækjurnar

600 g risarækjur
6 msk hvítlauksolía
safi úr einni sítrónu
4 msk graslaukur
salt og pipar

250 smjör
6 hvítlauksrif
3 msk graslaukur
salt og pipar

6 brauðsneiðar
hvítlauksolía



Þessi eldamennska var eins einföld og hugsast getur. Skar niður graslauk eins fínt og ég mögulega gat. 



Setti risarækjurnar í skál og bætti hvítlauksolíu, sítrónusafa, graslauk, salti og pipar saman við. 


Leyfði svo rækjunum að marinerast í hálftíma áður en þær voru þræddar upp á spjót. 


Hvítlaukssmjör er ofureinfalt að undirbúa. Skera hvítlaukinn eins smátt og unnt er eða setja hann í gegnum hvítlaukspressu. Hræra vel saman við smjörið ásamt tveimur til þremur msk af fínt hökkuðum graslauk, pipra aðeins. 


Næst er að blússhita grillið og grilla þær eldsnöggt. Þær skipta næstum strax um lit og þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo á grillinu. 


Rækjurnar eru svo lagðar á grillað súrdeigsbrauð og bornar fram með glóðuðum sítrónusneiðum. 




Eldheitar risarækjur með chillikokteilsósu og snöggpækluðum gulrótum 

Fyrir sex (aðeins minna svanga)

600 g risarækjur
2 msk olio principe peperoncino
hnífsoddur af möluðum chili pipar (frá Kryddhúsinu)
1 msk rauður pæklaður chili pipar
2 msk hvítlauksolía
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar

Fyrir gulræturnar

3 marglitar gulrætur
6 msk edik
3 msk vatn
2 msk sykur
2 msk salt

Kínakálsblöð (þvegin og þerruð)

Fyrir sósuna

3 msk majónes
2 msk grísk jógúrt
1 msk sirachasósa
1 tsk hvítlauksolía
salt og pipar



Skellti rækjunum í skál og bragðbætti með þessari kraftmiklu olíu. 


Svo með þessum ljúffenga chili pipar. 


Og svo smáræði af þessum pæklaða rauða jalapeno sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér ásamt því að bæta við hvítlauksolíu, hakkaðri steinselju (hefði notað ferskan kóríander ef minn betri helmingur hefði ekki algert óþol fyrir þessu) og svo að lokum salti og pipar. 


Og auðvitað ferskum chili. Leyfði þessu að marinerast í 30 mínútur.


Ég notaði íslenskar marglitar gulrætur. Útbjó pækilinn í potti sem ég hitaði að suðu, kældi svo niður og hellti yfir næfurþunna gulrótarstrimla. 


Eftir að hafa grillað rækjurnar á funheitu grillinu lagði ég þær á kínakálsblöð sem ég hafði þvegið vandlega, lagði svo gulrótarstrimlana yfir ásamt því að sáldra chilikokteilsósu (blanda af siracha, jógúrt, majónesi og salti og pipar) yfir.


Svo var bara að skella þessu á disk og hesthúsa þessu í sig. Sælgæti! 


Með matnum drukkum við svo hressandi rósavín, Chill out Shiraz Rosé frá Kaliforníu, sem passaði vel við matinn og ljúfa vorsólina.

Það er óhætt að segja að þessar rækjur hafi heppnast vel! 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Thursday, 4 June 2020

Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum


Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum 

Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta. 

Þessi uppskrift er birt í samvinnu við Gott í matinn. Sjá hérna

Fyrir fimm

Fyrir fiskinn

1 kg spriklandi fersk smálúða (ég fer alltaf í fiskbúðina á Sundlaugaveginum)
1 hvítur laukur
1 rauðlaukur
2 msk hvítlauksolía
50 g af smjöri
1/2 box af rjómaosti með karmelliserðum lauk 
1 msk ferskt timjan
salt og pipar

Fyrir hrísgrjónin

1,5 bolli basmati hrísgrjón (soðin skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni) 
50 g smjör
0,5 g saffran 
salt og pipar

Salatlauf


Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu.


Ég notaði rjómaost með karamellíseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.


Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.


Byrjaði á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann. Ofan á það lagði ég svo bæði rauðlauk og gulan lauk sem ég hafði skorið í sneiðar og mýkt í nokkrar mínútur í smjöri. Gætti þess vandlega að brúna ekki laukinn. Sáldraði svo fersku timjan yfir og bakaði svo í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.


Næsta skref var að vekja saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.


Bræddi svo 50 g af smjöri á pönnu og steikti soðin basmati hrísgrjón í nokkrar mínútur áður en ég hellti saffraninu ásamt vatninu saman við. Steikti áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.


Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan var kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk.

Sannkölluð veislumáltíð.

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sunday, 17 May 2020

Dásamlegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati


Það spannst talsverð umræða í dag um hvaða kjúklingarétt ætti að elda í kvöld. Ég stakk upp á Kjúkling Parmigiano - en Snædís var ekki spennt. Vilhjálmur stakk upp á þessum rétti og ég varð að játa að ég hafði aldrei heyrt hann nefndan. Og er ég þó nokkuð lesinn í ítölskum réttum. En það er  gaman að láta koma sér á óvart - og eftir smá lestur varð þessi réttur til. Ég beygði aðeins frá uppskriftinni sem oftast var að finna á netinu og bætti smá lauk, hvítlauk og rjóma saman við það sem ég hafði kynnt mér um daginn. 

Og úr varð þessi uppskrift. 

Dásamlegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati 

4 kjúklingabringur
4 msk hveiti
2 tsk Ítalinn, pizzakrydd frá Kryddhúsinu og grgs.is
salt og pipar
50 g smjör til steikingar
góð jómfrúarolía til steikingar

Fyrir sósuna

1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
jómfrúarolía
3 msk kapers
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja
100 ml gott hvítvín
200 ml rjómi
salt og pipar

Rustichella D'Abruzzo spaghetti
30 g smjör 
sítrónuólía frá Olio Principe

Salatið

1 buffalo mozzarella
6 piccolotómatar frá Friðheimum
1 msk ferskt basil (sem við fengum að gjöf frá Helenu í Friðheimum)
salatlauf
olía
góð balsamic olía
salt og pipar



Byrjið á því að bragðbæta hveitið með kryddinu (þ.m.t. salti og pipar). 



Blandið vel saman og hjúpið kjúklinginn rækilega.


Bræðið smjör á pönnu og bætið olíunni saman við og steikið kjúklinginn að utan. Setjið svo í eldfast mót og haldið heitu í ofni. 


Sneiðið laukinn, hvítlaukinn og steikið úr smjöri og olíu þangað til mjúkur. Bætið svo hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður.


Bætið næst kapers, sítrónusafa og sjóðið í tvær mínútur.


Svo rjóma - og sjóðið í fimm mínútur. 


Bætið svo handfylli af steinselju saman við. Kúfaðri handfylli!


Notið gott pasta. Það breytir öllu! 


Á meðan sósugerðin stendur yfir - sjóðið pastað í ríkulega söltuðu vatni, nógu af vatni. Ég er með 8 l pott sem ég fylli. Salta með fullt af salti - tvö grömm fyrir lítra af vatni.


Þegar kjúklingur er eldaður í gegn er honum bætt saman við sósuna. Skreytt með steinselju og sítrónusneiðum raðað með.


Með matnum bárum við fram klassískt salat - tricolore. Fann buffalo mozzarella í búðinni og lagði á beð af fersku salati ásamt piccolo tómötum og fersku basil. Nóg af jómfrúarolíu, ljúffengri balsamic olíu, salti og pipar.


Svo er bara að raða á disk.


Með matnum nutum við Piccini Memoro - sem er blanda af fjórum þrúgum frá Ítalíu. Þetta vín er ljúffengt, bragðríkt og með mjúkt eftirbragð. Og er líka ljúft fyrir budduna. 


Bon appetito!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 2 May 2020

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan


Undanfarnar vikur hef ég verið að skrifa ástaróða til Helga Björns, Vilborgar og Reiðmanna vindanna fyrir frumkvæði þeirra við að sameina þjóðina með söng og samhug á laugardagskvöldum. Síðasta laugardagskvöld heppnaðist svo vel að eiginkona mín felldi tár yfir söng Sigríðar Thorlacius. Vel heppnað og tilfinningaþrungið kvöld.

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan

Sveppabrauð aldarinnar


Fyrir sveppabrauð aldarinnar

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós sveppasmurostur
250 g kastaníusveppir
50 g smjör
1 hvítlauksrif
4 msk þurrkaðir sveppir
1 villisveppaostur
1/2 gullostur
handfylli gratínostur
truffluolía frá Olio Principe
þeytt eggjahvíta úr einu eggi
salt og pipar


Þetta er líklega einfaldasta matseld sem um getur. 

Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið ostinn og dreifið yfir.

Skerið sveppina í sneiðar og brúnið upp úr smjöri. Þegar sveppirnir eru komnir hálfa leið bætið þið smáttskornum hvítlauk saman við og steikið áfram. 

Vekið þurrkuðu sveppina í soðnu vatni. Veiðið uppúr og saxið niður. 

Dreifið sveppunum jafnt yfir brauðið. Rúllið þvínæst upp og þéttið aðeins saman. 


Penslið með þeyttri eggjahvítu, dreifið truffluolíu yfir. Skerið gullostinn í þunnar sneiðar og raðið ofan á brauðið. Bætið smáræði af gratínosti yfir. 

Bakið í 45 mínútur við 180 gráðu hita í forhituðum ofni. 


Sveppabrauð aldarinnar er fullkomið! 

Hið sígilda

Fyrir hið sígilda 

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós skinkusmurostur
1 hvítlauksostur
1 krukka af heilum aspas (niðursoðnum) 
1 bréf af skinku
hvítlauksolía frá Olio Principe
handfylli gratínosti
þeytt eggjahvíta af einu eggi
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið.

Hellið vökvanum af aspanum og skerið hann svo í hæfilega bita og sáldrið yfir brauðið, ásamt skinku í bitum og smáttskornum hvítlauksosti.

Rúllið svo brauðinu upp.


Blandið hvítlauksolíu saman við þeytta eggjahvítuna og penslið vandlega. 


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni. 


Hin sígilda er auðvitað gulls ígildi.

Senjórítan - gæti eins heitið "Vilborgin"

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós beikonmurostur
1 bréf af pepperóni
2/3 rauð papríka
1 papríkuostur
2 msk graslaukur
2 handfylli gratínostur
smá reykt papríkuduft
chiliolia frá Olio Principe
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið papríkuostinn í bita og dreifið yfir.

Sneiðið pepperóni, papríku og graslauk og sáldrið yfir brauðið.

Rúllið brauðinu þétt upp.


Bætið örfáum dropum af chiliolíu saman við eggjahvítuna og penslið brauðið að utan. 


 Stráið reyktri papríku yfir brauðið og setjið mikið af osti. Og svo meira af papríkudufti.


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni.


Ég bar sveppabrauð aldarinnar fram með bjór frá Borg Brugghúsi - Öskrar á Svepp. Fannst það viðeigandi. Hann er ávaxtaríkur, aðeins humlaður IPA og passaði vel með sveppabrauðinu. Annað hefði nú verið vonbrigði. 

Núna mega Helgi, Vilborg og Reiðmenn vindanna hefja upp raust sína. 

Megum við sigra þessa COVID vá saman. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa