Friday 1 October 2010

Ljúffengt matarmikið Salat Nicoise með túnfisk, tómötum, ólífum ogmiklu meira...




Ég hef lengi ætlað að setja þessu færslu á netið en af einhverri ástæðu ekki látið verða af því. Svona getur þetta verið. Maður þykist stundum hafa svo ógurlega mikið að gera og þá lætur maður svona gæluverkefni eins og að blogga sitja á hakanum. Eins og mér finnst það nú ánægjulegt!

Það var snemma í sumar þegar hjónaleysin, Vigdís Hrefna, maðurinn hennar Bassi og dóttir þeirra Úlfhildur Ragna, komu í heimsókn að þau kynntu okkur fyrir þessu ljúffenga salati. Þetta er salat á rætur sínar að rekja til Frakklands, nánar tiltekið frá Nice sem liggur við Miðjarðarhafið. Þetta er sérstaklega bragðgott og matarmikið salat, svo gott að ég er búinn að gera það nokkrum sinnum síðan að við fengum það fyrst. Þetta er frábær sumarréttur til að njóta með köldu hvítvíni en það virðist ekki vera neitt síðra á haustin þegar það fer það fer að dimma og vindarnir blása kröftuglega og kaldar en áður.

Auðvitað eru til nokkrar útgáfur af þessu salati, keimlíkar þó, sem allar innihalda grænmeti, túnfisk, ólífur, soðin egg og auðvitað ansjósur. Abbababbababb ... ekki hætta að lesa núna. Ansjósur hafa af einhverri einkennilegri ástæðu verið hornreka í mörgum eldhúsum. Algerlega að ástæðulausu! Ansjósur sem hafa verið geymdar í góðri olíu eru frábær viðbót við fjölmarga rétti. Af hverju nota ansjósur? Nú, vegna þess að þær eru bragðaukandi. Þær lyfta réttinum og þeim hráefnum sem sett eru í réttinn og merkilegt nokk - leggja ekki til fiskbragð af matnum. Það má segja að þetta sé náttúrulega þriðja kryddið! Taílendingar nota til dæmis fiskisósu, Nam Pla, til að gera nákvæmlega það sama!

Ljúffengt matarmikið Salat Nicoise með túnfisk, tómötum, ólífum og miklu meira...


Hráefnalisti

1 dós túnfiskur
Laufsalat
Tómatar
Soðnar kartöflur
Kalamataólífur
Handfylli af kapers
Egg
Salt og pipar
Jómfrúarolía
Ansjósur
Dijon sinnep
Edik
Skarlottulaukur

Mér finnst alltaf hálfkjánalegt að skrifa niður uppskriftir af salati. Þetta er svo einfalt og krefst auðvitað nánast engrar eldamennsku - nema kannski að sjóða eggin og opna túnfisksdósina.

Fyrst er að leggja salat á disk, spínat eða eitthvert annað laufsalat. Síðan niðurskorna tómata, svo nokkrar sneiðar af soðnum kartöflum. Fullt af kalamataólívum, handfylli af kapers. Síðan 250 gr af góðum niðursoðnum túnfisk. Síðan raðaði ég nokkrum niðursneiddum soðnum eggjum á milli túnfisksbitanna. Saltað, piprað og svo var handfylli af steinselju dreift yfir.

Í lokin var bara að sáldra smávegis af bragðbættri jómfrúarolíu yfir sem var gerð á eftirfarandi hátt. 2-3 matskeiðar af jómfrúarolíu, 1 tsk af djion, nokkur flök af hökkuðum ansjósum og jafnvel smávegis af olíunni af ansjósunum, skvetta af rauðvínsediki, salt og pipar og hálfur mjög smátt skorinn skarlotulaukur. Blandað saman og dreift yfir salatið.

Borið fram með baguette og víni eftir smekk. Ég hef bæði haft rautt og hvítt með salatinu og bæði passar ægætlega, en þó mér finnst kalt hvítvín einhvern veginn meira viðeigandi. Gott brakandi kælt Chablis passar ljómandi vel með! Sannið til.




Bon appetit.

No comments:

Post a Comment