Monday 4 October 2010

Gómsæt fyllt lambasíða á Norðurafríska vísu með jógúrtsósu, kúmenbættum gulrótum og öllu tilheyrandi

Þennan rétt gerði ég í sumar þegar við vorum með góða gesti í heimsókn; Unni, Bjössa og son þeirra, Dag - virkilega gott að fá þau loksins í heimsókn! Það var mikill gestagangur hjá okkur hjónunum í Púkanum í sumar - Það má segja að það hafi ekki dottið dagur úr frá því að við komum frá Íslandi í byrjun júlí þar til við fórum til Frakklands um miðjan ágúst. Og það var eldað, það var grillað, það var hlegið, spiluð tónlist og það var skálað. Og það var gaman. Mér finnst virkilega gaman þegar húsið iðar af lífi. Takk, kæru gestir fyrir komuna! Komið sem oftast og stoppið sem lengst! Hvað væri lífið án matarboða með góðum vinum og ættingjum?

Nú er komið haust. Ekki það að það sé eitthvað minna að gera. Einhvern veginn finnur maður sér alltaf verkefni eins og sjá má á blogginu mínu upp á síðkastið. Eldaði fyrir heilan her af fótboltagörpum um daginn á Klakamótinu. Þeim á Fréttablaðinu fannst þetta meira að segja fréttnæmt og birtu viðtal við mig í blaðinu í dag! Það má sjá hérna. Síðan gerði ég íslenska kjötsúpu fyrir nágranna mína í Púkagrandanum að hætti Helgu Sigurðardóttur. Var meira að segja með harðfisk með smjöri og heimagerðar flatkökur með hangikjöti í forrétt sem virtust renna ljúflega niður. Mér sýndist þeim líka vel við þetta - þau voru alltént kurteis og kláruðu af skálunum sínum. Var með þunnar íslenskar pönnukökur í eftirrétt með rjóma og heimagerðri brómberjasultu. Það fannst mér gott! Á reyndar eftir að blogga eitthvað um kjötsúpuna.

Jæja, víkjum nú að rétti dagsins! Eins og ég hef nefnt áður hef ég verið að lesa mér til um Norður-afríska matargerð. Mér finnst hún afar heillandi. Og það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Norður-Afríkubúar deila ást sinni á lambinu með okkur Íslendingunum og það er hægt að sækja margar ljúffengar uppskriftir úr smiðju þeirra. Til dæmis þessa.Gómsæt fyllt lambasíða á Norður-Afríska vísu með jógúrtsósu, kúmenbættum gulrótum og öllu tilheyrandi
Þetta er ágætis kreppuuppskrift. Lambaslög eru með því ódýrasta sem hægt er að kaupa af lambinu og þessi réttur sönnun þess að góður matur þarf ekki að vera dýr. Ef maður vill spara má alltaf kaupa ódýrari bita og ná upp gæðunum með langri og rólegri eldun. Þannig verður næstum hvaða kjötbiti að veislumáltíð - vittu til!Fékk lambasíðu hjá slátraranum í Holmgrens í Lundi. Eftir þetta ævintýri með fótboltamótið erum við orðnir mestu mátar. Hann virðist hafa gaman af mér og vitleysunni sem ég tek mér fyrir hendur! Ætli næst verði ekki að gera grísasultu fyrir tengdapabba (en það er efni í aðra færslu - Eddi ... þetta er ekki loforð!).

Útbjó couscous eins og leiðbeiningar á pakkanum sögðu til um. Blandaði saman við handfylli af niðurskornum þurrkuðum apríkósum, einum smáttskornum rauðlauk, nokkrum smátt skornum hvítlauksrifjum, 2 tsk af súmac (sem er fremur súr kryddjurt - má nota sítrónusafa í staðinn), 1 tsk af muldu kúmeni og síðan handfylli af ristuðum furuhnetum. Og svo, smá olíu, salt og pipar!

Síðunni var síðan rúllað upp og teinar reknir í gegn til að hindra að hún "afrúllist" við eldun. Penslað með olíu, saltað og piprað og bakað við 150 gráður í 1 og hálfa klukkustund. Í lokin var hitinn aukinn aðeins til að fá puruna aðeins til að poppast!Útbjó flatbrauð. Hef bloggað ansi oft um þessi flatbrauð. Einföld eins og ég veit ekki hvað og síðan ristuð á þurri pönnu.Uppskriftin er einföld. Fyrst að vekja 2 tsk af geri í 1 dl sykurbættri volgri mjólk. Síðan að blanda saman 500 gr af hveiti, 2 tsk af salti og 2 msk olíu. Þegar gerið hefur lifnað við er því blandað saman við hveitið ásamt 200 ml af filmjölk (Ab mjólk) og smá vegis af volgu vatni og hnoðað þar til það er orðið að mjúku og fallegu deigi. Biti og biti er klipinn af deiginu, það síðan flatt út, penslað með jómfrúarolíu og steikt á pönnu þar til gullið og girnilegt.Vorum með salat með matnum, tvennskonar salöt. Hefðbundið salat með grænum laufum, rauðum paprikum, agúrku og rauðlauk. Svo vorum með heitt salat með forsoðnum og síðan léttsteiktum gulrótum. Fyrst voru gulræturnar flysjaðar og síðan forsoðnar í nokkrar mínútur. Síðan teknar upp úr vatninu og síðan steiktar í olíu með smá kúmeni. Sett í skál og blandað með ferskri steinselju og sítrónusafa, salti og pipar.

Með matnum drukkum við ljómandi rauðvín sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um áður. Sennilega þykir mér það bara ansi gott? Það er Coto de Imaz Rioja Reserva frá Spáni frá 2004. Merkilega góð kaup finnst mér - kraftmikið Roija vín; þykkt í glasi. Ilmur af vanillu og eik. Vínið ku hafa fengið að liggja á eikartunnum um skeið. Bragðið er gott, þétt og í því mikill ávöxtur.Jæja, hérna er svo búið að raða á disk. Hvíta jógúrtsósan var ljúffeng - og einföld. Bara jógúrt, raspaður hvítlaukur, salt, pipar, smá sykur og sítrónusafi. Tónað af eftir smekk. Kraftmikið, einfalt og gott.Varð að hafa eina svona nærmynd af matnum. Apríkósurnar voru orðnar næstum að sultu eftir eldunina og á móti hvítlauknum, rauðlauknum og ristuðum furuhnetunum voru alveg gómsætar. Þar sem allt kjötið er umlukið smávegis fiturák verður það ekki vitundarvott þurrt. Bráðnaði í munni og var með knassandi puru. Namminamm.Hlakka til að prófa þetta með íslenskri lambasíðu.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment