Saturday 2 February 2008

Vetrarpasta með ofnbökuðum sætum kartöflum með chilli og steiktum kjúkling

Við hjónin skruppum til London seinustu helgi. Þetta var gjöf til konunnar minnar um jólin. Þetta varð heljarinnar ævintýri. Lögðum af stað föstudagsmorguninn og lentum í ýmsum hremmingum. Lögðum af stað í ágætu veðri um morguninn - stilla og smávegis snjókoma. Þegar komið var að álverinu var eins og hefði verið keyrt á vegg. Við vorum það heppinn að keyra fyrir aftan rútubifreið (nei-langferðabíl) sem gat rutt leiðina. Seinna fyrir aftan snjóplóg sem kom okkur langleiðina. Það var svo blint að erfitt var að átta sig á því hvar við vorum stödd. Bílar lágu eins og hráviði á götunni og á öxl vegarins. Á endanum festumst við í förum plógsins og sátum pikkföst. Í eitt augnablik róaðist veðrið og þá kom á daginn að við vorum við hliðina á kaffitári. Þar fékk ég lánaða skóflu og reyndi að moka okkur út - það var til einskis - þegar hringinn var komið var eins og þegar maður hóf mokstur. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Við skildum bílinn eftir á brautinni og húkkuðum far niður á heilsugæslu og þaðan með jeppa á flugstöðina. Þar sátum við svo í 8 klst og biðum eftir fluginu. Allur matur kláraðist fljótt á business lounginum - maður varð að draga fram lífið á fljótandi fæði (sem var í raun það eina sem var gott við daginn).

Fórum út að borða í London, á franskan stað sem heitir Galvan de Luxe - algerlega frábær og svo einnig á River Cafe - ekki síðri. Fórum á Metamorphosis og horfðum á vini okkar slá í gegn. Þau hafa verið að fá frábæra dóma og hvetjum við alla til að skella sér til að sjá þessa einstöku sýningu.

Unglæknar hafa verið að berjast fyrir neyðarbílnum síðustu vikur. Þetta hafa verið mikil fundarhöld og bréfaskrif. Það er undarlegt að þegar maður eins og ég sem blaðra allan daginn verður þreyttur í munninum við að tala - og ég tala mikið að staðaldri!!! Vonum að þessi mál leysist farsællega.

Eftir svona viku langaði mig í svona "robust" máltíð. Mér datt þessi uppskrift eiginlega strax í hug.

Vetrarpasta með ofnbökuðum sætum kartöflum með chilli og steiktum kjúkling

Í fyrstu tók ég 2 meðalstórar sætar kartöflur og flysjaði og skar í bita, góðar munnbitastærðir, setti í skál. Þvínæst skar ég niður hálfan rauðan chilli, fjarlægði fræin og skar mjög smátt og setti með kartöflunum, svo 8 heil hvítlauksrif (fjarlægði pappírinn) og bætti þeim saman við. Svo hellti ég 3-4 msk af góðri jómfrúarolíu og blandaði þessu öllu vel saman. Þetta var svo bakað í 180 gráðu heitum ofni í ca 40 mínútur þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Muna endilega að hrista eldfasta mótið af og til svo að kartöflunar brenni ekki.

2 msk af góðri (heimagerðri) hvítlauksolíu er hitað á pönnu. 3 kjúklingabringur eru skornar niður í svipaða bita og kartöflurnar. Steiktar í olíunni. Þegar þær eru farnar að taka lit er nokkrum heilum sveppum bætt saman við - bara eins og maður vill. Glasi af rosemount hvítvíni var hellt á pönnuna og var soðið niður um helming. Þá var tveimur matskeiðum af rjómaosti með svörtum pipar og 2 msk af sýrðum rjóma (5%) og steikt áfram á meðalhita. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar - þegar hnífur rennur mjúklega í gegn - er þeim bætt á pönnuna. Þegar um 5 mínútur eru eftir af eldunartímanum er 1/3 búnti af ferskri steinselju og 1/3 búnti af fersku basil bætt saman við.

Gott pasta er soðið skv leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni. Þegar pastað er tilbúið er smávegis af vatninu bætt við kjúklinginn, kannski eins og 40 ml. Þá er vatninu hellt af pastanu og því hellt í stóra skál og svo öllu blandað saman. Þessu er öllu blandað vel saman, saltað og piprað og svo í lokin er ríkulegu magni af parmaosti raspað yfir.

Borið fram með heitu baguette og salati, með blönduðum grænum laufum, mozzarellaosti og kirsuberjatómötum með einfaldri vinagrettu með balsmaic ediki, jómfrúarolíu, salti og pipar.

Með matnum var ágæt Wolf Blass rauðvín, Cabernet-Shiraz - bragðmikið og með miklu berjabragði. Ágæt gæði fyrir verðið.


No comments:

Post a Comment