Thursday 24 January 2008

Stórkostleg fiskiveisla fyrir evrópska kollega

Í september á seinasta ári bauðst mér að fara ásamt góðum vini mínum, Jónasi Geir, til Lissabon í Portúgal og taka þátt í námskeiði í lyflæknisfræði á vegum Evrópusambandsins í lyflækningum. 72 þátttakendur voru frá flestum Evrópuþjóðum. Um var að ræða vikunámskeið í almennum lyflækningum með talsverðri þátttöku þeirra sem komu. Þarna kynntumst við sex unglæknum sem urðu góðir vinir okkar og gerðu þau sér lítið fyrir og heimsóttu Ísland í seinustu viku til að hitta okkur, skoða spítalann og landið. Við fórum með þá að Gullfoss og Geysi í stórkostlegu veðri síðasta laugardag og enduðum í bústað þar sem við nutum góðra veitinga og fórum svo í heitan pott undir stjörnubjörtum og fögrum næturhimni. Þau voru uppnuminn af því sem þau sáu. Stórgaman.

Var á Læknadögum í dag á fyrirlestri um lifrarsjúkdóma og í kaffihléi komu þó nokkrir kollegar mínir að mér og þökkuðu mér fyrir gott framtak með þessa síðu en kvörtuðu yfir tvennu; að ég væri ekki með leitarvél á síðunni og að ég notaði heldur mikið smjör og rjóma í uppskriftirnar mínar. Ég reyndi að útskýra að oftar en ekki væri ég að blogga um veislumat og uppásíðkastið hefði lítið af almennri eldamennsku ratað á bloggið - þeir gáfu nú lítið fyrir það. Kannski hafa þeir eitthvað til síns máls því nokkru síðar fór ég í kólesterólmælingu á einum básnum - og hvur andskoti, ég var of hár!!! Það verður því að gera á þessu smá betrumbót og bæta fyrir syndirnar (sem eru nú ekki of margar að ég held?). Kannski verður því meira af hollari mat á næstunni - gallinn við það er sá að kólesterólið stýrist ekki svo mikið eftir inntöku heldur af framleiðslu í lifur - en hvað sem því líður verð ég að sýna gott fordæmi. 

Kannski að þessi færsla sé skref í rétta átt. Fiskiveisla - og hún var meira að segja fremur holl nema hvað að í mat fyrir fimm notaði ég um 150 ml af rjóma og svo kannski 40 gr af smjöri - í fjögurra rétta máltíð. Þó var gætt að því að hafa vel af léttvínum en hófleg neysla þeirra ku vera til bóta fyrir hjartasjúkdóma.

 Hörpuskel vafin parmaskinku með ristuðu heslihnetu og kóríandersmjöri

Í fyrsta rétt var hörpuskel vafin parmaskinku með smáklípu af ristuðu heslihnetu og kóríandersmjöri grillað í ofni. Borið fram á beði af klettasalati. Ég hef áður gert þennan rétt og sett á netið. Hana er að finna einhversstaðar á vefnum mínum - vona að ég geti sett upp leitarvél.

 Reykt ýsa með smáum kartöflum, rjómafroðu og steinselju

Í annan rétt var ég með soðna reykta ýsu. Biti af reyktri ýsu var soðin í vatni í 10 mínútur. Rjómi var hitaður á pönnu, kannski eins og 200 ml, saltað og piprað og svo var smávegis af soðinu frá fisknum blandað saman við. Soðið upp. Litlar kartöflur voru flysjaðar og soðnar skv kúnstarinnar reglum. 3-4 litlum kartöflum var raðað í skál, smávegis af reyktri ýsu (70-100 gr) var dreift yfir og svo var rjómasoðinu sem hafði verið sett í rjómasprautu sprautað yfir þannig að það rétt þakti réttinn - ekki nema 10-20 ml á hvern disk. Piprað og svo var ferskri steinselju dreift yfir.

Steiktur og bakaður skötuselur með kaldri sýrðrjómasósu á romaine salatbeði

500 gr af skötusel var hreinsað af fiskmangaranum. Skorið í 6 jafnstórar sneiðar og velt upp úr hveiti. Saltað og piprað og steikt í örskamma stund á hvorri hlið. Sett í 180 gráðu heitan ofn og bakað í 8 mínútur. Lagt á beð að romaine salati og kaldri sósu; 1 dós af sýrðum rjóma, 2 smáttskorinn hvítlauksrif, salt, pipar, 1/5 búnt fersk basil og steinselja, 2 msk síróp og hnífsoddur af Dijon sinnepi - öllu hrært vel saman og látið jafna sig í ísskáp og svo dreift yfir fiskinn þegar búið er að elda fiskinn.

Steiktur lax með vinagrettu og þeyttu spínati

Vísa í fyrri færslu - gerði svipað og lýst er þar nema hvað skammtarnir voru talsvert minni þar sem við vorum búinn að vera að gæða okkur á öllum þessum réttum á undan.

Með matnum var drukkinn ýmiss ljúffeng hvítvín sem vinur minn Harold og Monique komu með sér í gegnum tollinn. Meðal annars var Fleur du Cap Sauv. Blanc 2006 og svo tvennskonar Chablis - bæði Grande Cuveé frá 2004. Hvílíkt og annað eins.


No comments:

Post a Comment