Friday 22 February 2008

Wokaður hlýri með þremur laukum og papríku á austurlenska vísu

Ég hef verið að reyna undanfarið að elda meiri fisk. Fiskur sem hráefni hefur verið vanræktur í mínu eldhúsi um alltof langt skeið og núna verður gerð bragarbót á því. Ég hef verið að lesa mér meira til um verkun og eldun fisks og er að koma mér í stuð hvað þetta varðar. Það eru nokkrar ansi góðar fiskverslanir í Reykjavík - fer stundum í Hafberg í Vogunum og svo hef ég einnig verslað í Fiskisögu uppi á Höfða (sem hentar vel þar sem það er við hliðina á Veggsport - þar sem ég skvassa). Þessar verslanir eiga það sammerkt að veita góða þjónustu og fína ráðgjöf. Vona eindregið að þeir haldi áfram að auka úrvalið í fiskborðinu - það er gaman að geta komist í hlýra, löngu, blálöngu og svo leiðis - fiskur er svo mikið meira en bara ýsan (sem er varla snædd á mínu heimili)

Ég ætlaði að taka myndir af matnum en myndavélin mín varð rafmagnslaus og ég átti ekki rafhlöður. Þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að maturinn hafi ekki bara verið góður helda líka einstaklega fallegur á að horfa.

Wokkaður hlýri með þremur laukum og papríku á austurlenska vísu

Keypti 700 gr af hlýra - hefði átt að kaupa meira (þar sem þetta varð svo gott). Maður þarf alltaf meira af fiski en af kjöti!. Hlýri er þéttur ennfremur bragðlítill fiskur en tekur með sér bragð réttarins vel. Ég skar hann í munnbitastóra bita. Saltaði þá og pipraði og dreifði smá sítrónusafa yfir. Maukaði 3 hvítlauksrif og svo ca 4 cm af engiferrót sem ég raspaði mjög fínt -- þetta steikti ég svo á funheitum wok í smá grænmetisolíu í eitt augnablik. Því næst skellti ég fisknum á og steikti í nokkrar mínútur - bætti safa af heilli sítrónu saman við. Þegar fiskurinn var nærri tilbúinn færði ég hann til hliðar í skál. Hitaði pönnuna áfram og skellti svo grænmetinu á wokinn - sem samanstóð af; tveimur meðalstórum vorlaukum sem var skorinn í sneiðar, heillri rauðri papriku í strimlum - einnig skar ég 2 litla skarlotulauka í þunnar sneiðar. Grænmetið var svo steikt á wokinum þar til það fór að mýkjast, við háan hita - mikilvægt er að hafa alltaf smá hreyfingu á pönnunni. Svo bætti ég fisknum, og öllum safanum með honum, aftur á wokinn, hellti síðan 20-30 ml af góðri soya sósu á pönnuna, 2 msk af hlynsírópi og síðast smá skvettu af sætu sherríi. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar.

 Borið fram á fallegum disk, með jasmín hrísgrjónum og einföldu salati. Við drukkum sæmilegt hvítvín með matnum. Lindemans Chardonnay - reyndar úr svona kassa - sem er ágætt svona á virkum degi þegar maður ætlar bara að fá sér smá tár með matnum.

 


No comments:

Post a Comment