Friday 8 February 2008

Mögnuð lúðusteik með grænu salsa, kremaðri seljurót og hvítvínssteiktufennel





Ég er, eins og oft áður, búinn að vera á vöktum þessa viku. Þó nokkuð að gera - en samt svona ekkert úr hófi. Það eina neikvæða við að vera á vakt í vikutíma er fjarvist frá fjölskyldunni. Mér stóð til boða að skreppa á ágætan fund um kvöldmatarbil en ákvað að sleppa því og vera frekar heima. Ekki slæm ákvörðun því í ofanálag var algerlega fráleitt veður í dag. Þetta fer að verða að alvöru vetri ef fer sem horfir.

Ég er búinn að vera að lesa mikið um fiskuppskriftir síðustu vikur og geri ráð fyrir því að elda mikið fiskmeti næstu vikurnar. Hugmyndin af þessari máltíð er fengin úr mörgum áttum, bæði mat sem ég sá á veitingastað í London þar seinustu helgi, uppskriftum sem ég hef verið að lesa og nýlegum matreiðsluþætti Andreasar Viestad - New Scandinavian cooking- þetta var svona samantektar þáttur þar sem verið var að gera upp heila þáttaröð - synd að hafa ekki séð meira af þessu...frábærar hugmyndir!

Ég hef aldrei eldað lúðusteik eins og þessa áður. Lykilatriði er að passa að elda fiskinn ekki of lengi - lúða verður ferlega leiðinlegur matur ef því leyft að þorna upp. Ég verslaði lúðuna í fiskuversluninni Hafberg í Vogunum - frábær verslun. Hann var með borðið fullt af þessum glæsilegu stóru þverskornu lúðustykkjum. Fékk þar góð ráð frá afgreiðslumanninum um hvernig ég ætti að bera mig að við eldamennskuna.


Mögnuð lúðusteik með grænu salsa, kremaðri seljurót og hvítvínssteiktu fennel
Ég keypti 1200 gr af þverskorinni lúðusteik - heljarinnar fallegur biti - dreifði 2 msk af góðri jómfrúarolíu yfir fiskinn og svo safa úr einni sítrónu, pipar og svo smátt söxuðum berki af hálfri lime. Þessu var svo leyft að standa í ísskáp á meðan meðlætið er undirbúið. Þegar meðlætið var langt komið hitaði ég stóra grillpönnu og grillaði lúðuna á báðum hliðum í mínútu á hvorri hlið, rétt þannig grillrákir sáust á fisknum. Honum var síðan stungið inn í ofn og bakaður í 10 mínútur í forhituðum 180 gráðu heitum ofni - lúðan var eiginlega fullkomlega elduð þó að ég segi sjálfur frá.


1,6 kg af seljurót er flysjað og skorið í munnbitastóra bita og soðið í söltuðu vatni í 20 mínútur eða þar til auðvelt er að sting hvössum hníf í gegnum bitana. Þá er vatninu hellt frá og seljurótarbitarnir færðir aftur í pottinn, 100 ml af matreiðslurjóma er hellt saman við, 1 msk af rjómaosti, 15 gr af smjöri, 2 mörðum hvítlauksrifjum, salti og pipar, og smávegis af nýmjólk. Þetta var svo "þeytt" saman með töfrasprota þar til það varð að kremuðu (puree'd) blöndu.

2 meðalstórir fennelhausar eru þvegnir upp úr vatni og síðan skornir í hálfsentímetra þykkar sneiðar. Smávegis smjör/olía er hituð á pönnu og síðan er fennelinum raðað á pönnuna og steikt við miðlungsháan hita í 10 mínútur, fimm mínútur á hvorri hlið. Þá er 2 glösum af hvítvíni hellt á pönnuna og saltað og piprað. Soðið niður við lágan hita á meðan klárað er að elda matinn.


Með matnum var ég með útafbrigði af salsa verde - ástæðan fyrir því að hún er frábrugðin hefðbundnum uppskriftum var sú að ég setti of mikið af sinnepi og hvítlauk og hún varð allt of sterk og því varð ég að milda hana með smá sýrðum rjóma/matreiðslurjóma - þó ekki nema smávegis.

1/2 búnt af steinselju, 1/2 búnt af basil, 1 msk af capers, 2 hvítlauksrif (sennilega nóg að nota 1), 1 msk sinnep (sennilega nóg að nota 1/2 msk), safi úr hálfri sítrínu, salt, pipar, 70 ml af jómfrúarolíu. Til að ná jafnvægi var sett smá skvetta af hlynsírópi, 1 msk sýrður rjómi, 30 ml matreiðslurjómi og blandað vel saman. Látið standa í ísskáp í 1 klst - mikilvægt er að smakka til og tóna upp og niður eins og við á!

Borið fram með ágætu Chablis - Le Grand Pré frá 2006- frá Pierre André - gott vín en með stutt og fremur flötu eftirbragði - ég drakk nýverið Chablis sem ég bloggaði um sem sennilega hefði hentað matnum betur. En þetta var þrælgott saman.

Bon appetit.

1 comment:

  1. [...] og bárum hana fram með steiktu fennel og blómkálsmauki eiginlega alveg eftir þessari færslu hérna – og maturinn var dásamlegur. Þetta var sko mánudagsfiskur eftir mínum [...]

    ReplyDelete