Sunday 20 October 2019

Tvennskonar spaghetti di nero - með hvítlauk, chili og skalottulauk - toppað með risarækjum eða heimaunnum laxahrognum


Ég snéri heim úr ævintýraferð til Las Vegas liðna helgi þar sem ég og bróðir minn voru fengnir til að elda fyrir veislu á vegum Kerecis. Kerecis er frábært íslenskt fyrirtæki sem er í stórtækri útrás á bandaríska markaði um þessar mundir. Þau framleiða sáraumbúðir úr íslensku þorskroði við mjög góðan orðstýr. Og það var virkilega gaman að fá að styðja við útrás þeirra með þessu verkefni. Við gerðum níu rétti sem áttu að gefa gestum möguleika á því að kynnast fjölbreyttu íslensku hráefni, sjá hérna

Helgina áður var ég með veislu fyrir sérnámslækna í lyflækningum þar sem við heilgrilluðum lamb með mexíkósku ívafi, sjá hérna,  - svo var sungið og dansað fram eftir nóttu. Þetta unga fólk kann svo sannarlega að skemmta sér. 

Það er þess vegna ekkert skrítið að ég hafi ekki haft tíma til að blogga sem skyldi. En það stendur til bóta. 

Tvennskonar spaghetti di nero - með hvítlauk, chili og skalottulauk og rjóma - toppað með risarækjum eða heimaunnum laxahrognum

Eins og lesendur kannski muna þá gerði ég heimaunnin hrogn fyrir skemmstu, sjá hérna - og úr varð þessi veislumáltíð í miðri viku, sjá hér

Þessar tvær uppskriftir voru ofur einfaldar og urðu eiginlega tilbúnar á meðan pastað sauð í pottinum. Ég hef verið aðdáandi Rustichella d'abruzzo í áraraðir og það minnkaði ekkert þegar ég fékk tækifæri til að heimsækja fyrirtækið á heimavelli nú í sumar í Abruzzohéraði austan við Toskana. Abruzzo er dásamlega fallegt sveitahérað þar sem hveitið í þetta gómsæta pasta er ræktað og það er sérstaklega skemmtilegt að sjá hvaða metnaður liggur í framleiðslunni. 

Ég vona að ég sýni þeim sóma með þessum tveimur snögggerðu uppskriftum. 

Fyrir fjóra til fimm svanga gesti 

1 pakki af spaghetti di nero
1 chili pipar
2 hvítlauksrif
börkur af einni sítrónu
2 skalottulaukar
100 g smjör 
250 ml rjómi 
10 risarækjur (auðvitað má hafa fleiri)
2-3 matskeiðar af heimaunnum laxahrognum


Þetta gat eiginlega ekki verið öllu einfaldara. Eldamennskan tók ekki lengri tíma en að skera niður skalottulauk, chili og hvítlauk.


Kavíarinn var ennþá í toppformi og bragðaðist stórvel en hann útbjó ég fyrir að verða þremur vikum. Sjá hérna.


Ég heimsótti Rustichella í sumar í heimahérað þeirra í Abruzzo. Það var ógleymanlegt ferð full af upplifunum, mat og ljúffengu ítölsku víni. 

Þetta pasta er litað með bleki úr kolkrabba.Ég hef alltaf verið dálítið smeykur við svart pasta - en þessar tvær uppskriftir læknuðu þá hræðslu. Smjör og rjómi róa mann niður. 


Galdurinn við að sjóða pasta - er að sjóða það í miklu vatni - einn lítra fyrir hver 100 g af pasta. Þá ráðleggja sérfræðingar hjá Rustichella að salta vatnið - 2 g af salti fyrir hvern lítra - þau hljóta nú að vita hvað þau eru að tala um. Þá skiptir einnig höfuðmáli að sjóða pastað þangað til að það er "al dente" aðeins undir tönn. Þannig dregur það betur í sig sósuna og gerir réttinn mun áhrifaríkari.


Á meðan pastað sýður er smjörið brætt á pönnu og laukur, chili og hvítlaukur steikt á pönnu.


Bætið rækjunum á pönnuna.


Skellið dash af hvítvíni á pönnuna og sjóðið upp áfengið.


Bætið rjómanum á pönnuna og sjóðið hann upp. Bætið pastanu saman við og bragðbætið með kryddjurtum og sítrónuberki. 


Þetta var afar ljúffengt.


Byrjið eins á næsta rétti - takið lauk, hvítlauk, chilli og steikið upp úr bráðnu smjöri. Bætið matskeið af hrognum á pönnuna. 


Næsta skref er skvetta af hvítvíni, sjóða upp áfengið, bæta svo rjóma og pasta á pönnuna.


Ekki bara er þetta fallegt - þetta var líka ótrúlega ljúffengt.


Til að espa aðeins upp sítrónubragðið - sem mér finnst passa svo vel með sjávarfangi - þá bragðbætti ég pastað með ögn af sítrónuolíu. 


Svo er bara að bjóða fjölskyldunni að setjast til borðs. Við drukkum Masi Masianco með réttinum - en ég hafði einmitt notað smá skvettu af því í báða pastaréttina. Það skiptir máli að nota gott vín í mat - og þetta ítalska hvítvín er ferskt og ljúffengt, örlítil sýra sem passaði vel með ríku pastanu. 


Verði ykkur að góðu. 

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

1 comment:

  1. Það sem mér finnst svo frábært við bloggið þitt, fyrir utan frábærar uppskriftir, er að þú útskýrir svo vel "hvers vegna". T.d. afhverju maður á að salta pastavatnið o.s.frv. Ég hef lært heilmikið af þér með því að lesa uppskriftirnar og skýringarnar. Kærar þakkir :)

    ReplyDelete