Sunday 29 September 2019

Þrenns konar blinis með heimaunnum laxakavíar með sýrðum rjóma - lauk og graslauk, radísum og dilli og svo kóríander og mandarínuolíu


Það tók mig mörg ár að læra að njóta kavíars. Eins og flestum fannst mér þetta skrítinn matur, oft alltof saltur og stundum smá slepjulegur. En af einhverri ástæðu er þetta hráefni hátt skrifað í heimi matargerðar og sér í lagi í heimi nautnaseggja. Styrjukavíar er sá kavíar sem er hvað mest eftirsóttur og er geysilega dýr. Ég las á netinu að verðið á dýrasta kavíarnum hlypi á hundruðum þúsunda fyrir kílóið - jafnvel meira. 

En þessi færsla er ekki saga um dýrasta kavíar í heimi. Hún er smásaga um hvernig má búa til úrvals mat - hreinan lúxus úr laxahrognum sem oftar en ekki eru ekki nýtt. 


Á mínu heimili er það eiginkonan mín, Snædís, sem sér um alla stangveiði - ALLA stangveiði. Ég er alræmd fiskifæla og arfaslakur á flugustöng. Óviðbjargandi. En sem betur fer er ég einkar vel giftur maður. Þennan myndarlega lax sótti konan mín í Affallið um liðna helgi. 


Og þegar heim var komið og ég var að verka fiskinn blöstu við þessa boldungsstóru hrogn. Og það kom eiginlega alveg flatt upp á mig, ég hafði ekki séð svona stæðileg laxahrogn áður. Myndin er af lélegum gæðum - en það er hægt að sjá að þarna eru þúsundir stórra laxahrogna. Og það kom ekki til álita að henda þessu í ruslið - ónei! 

Þannig að úr varð þessi máltið! Og kannski nokkrar fleiri! 

Þrenns konar blinis með heimaunnum laxakavíar með sýrðum rjóma - lauk og graslauk, radísum og dilli og svo kóríander og mandarínuolíu.

Fyrir blinis (ca 25 stk)

200 g bókhveiti
200 g hveiti
2 egg
200 ml mjólk
200 ml rjómi 
150 ml vatn
1 poki þurrger
2 tsk sykur
1 tsk salt

Heimaunnin laxahrogn

700 g laxahrogn
1,5 l vatn
200 g salt

Ég ætla ekki að skrökva - þetta var smá fyrirhöfn. Sérstaklega vegna þess að ég hafði aldrei gert þetta áður - en maður er fljótur að læra. Ég notaði leiðbeiningar frá Frosta - skvassfélaga mínum.

Hrognin eru lögð í volgan saltpækil í 30 mínútur. Hann er gerður með því að leysa saltið upp í u.þ.b. 35-38 gráðu heitu vatni. 

Þá er saltpæklinum hellt frá í aðra skál og hann geymdur um stund. 

Hrognin eru svo nudduð undir rennandi volgu vatni (helst undir skál og sigti) þangað til að þau losna úr himnum sínum. Best er að taka smá bita í senn og rúlla þeim varlega, en þó með ákveðnum hætti á milli fingranna. Þannig losnar himnan sem umlykur eggin - eggin sökkva til botns en himnan flýtur ofan á. 


Þetta tekur dágóða stund en þegar maður áttar sig á því að eggin sjálf eru déskoti harðgerð - tekur þetta skemmri tíma. Biðst aftur afsökunar á lélegum myndgæðum. 

Næsta skref er að skola hrognin og svo leggja þau aftur í saltpækilinn í um 10 mínútur. 

Þau eru svo að lokum færð yfir í sótthreinsaðar krukkur og geymdar í kæli. Frosti segir að þau ættu að geymast í nokkrar vikur.  


Þá er best að vinda sér í að útbúa blinis - pönnukökurnar. Þessar pönnukökur eru frábrugðnar venjulegum pönnukökum að því leyti að notast er bókmjölhveiti - sem er í raun ekki hveiti heldur skyldara tegundum - eins og kerfli og rabbabara. Það er ögn biturt á bragðið sem ég held að sé hugsað til að veita mótvægi við seltuna og ferskan sjávarkeiminn sem kemur  af hrognunum. 

Fyrst er að vekja gerið í mjólkinni og sykrinum. Þegar það hefur vaknað er rjómanum blandað saman við. Þurrefnin eru svo sett skál og tveimur eggjarauðum bætt saman við. Hrært saman ásamt rjómamjólkinni í þykkt deig. Vatninu er svo bætt varlega saman við þangað til að komið er deig sem minnir á vöffludeig - eða heldur þykka málningu. Látið hefast í tvær klukkustundir. 


Þegar deigið er tilbúið eru eggjahvíturnar næstum stífþeyttar og svo blandað varlega saman við. Það er mikilvægt að slá ekki loftið úr eggjahvítunum. 


Næsta skref er að hita pönnuna, bletta með smjöri og byrja að baka. 


Þær hefast fallega á pönnunni. 


Svo er bara að baka þangað til að það er komið nóg fyrir alla. 


Ég hrærði sýrða rjómann aðeins upp. 


Svo var bara að útbúa áleggið - við vorum með ýmis konar valmöguleika; rauðlauk, radísur, tómat, sýrða gúrku, dill, steinselju, graslauk og þar fram eftir götunum. 


Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst hrognin heillandi. 


Hefð er fyrir því að drekka kampavín með blínis en við áttum það ekki til þannig að við drukkum þetta ljúffenga hvítvín með. Mér fannst það passa vel - þar sem Casa Rojo El Cordo del Circo er frískandi og bragðgott vín í góðu jafnvægi. 


Við byrjuðum á því sem myndi teljast klassík: sýrður rjómi, rauðlaukur, laxahrogn og svo graslaukur. 


Næst var það svo sýrður rjómi, radísur, laxahrogn og dill. 


Við fengum þessa olíu gefins nýverið - þetta er jómfrúarolía - Olio Principe frá Sikiley og er bragðbætt með mandarínum. Ég hef aldrei bragðað hana áður og hún kom mér verulega á óvart. 


Svo var það þessi - mér fannst hún vera sigurvegari kvöldsins; sýrður rjómi, laxahrogn, mandarínuolía og svo kóríanderlauf. 

Þetta var alger veisla! 

Þið verðið að prófa! Það er algerlega þess virði að varðveita laxahrogn og búa til veislumat úr þeim! 


------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment